21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

23. mál, breyt. á vegalögum

Halldór Steinsson:

Ég held, að nokkurs misskilnings hafi gætt hjá hv. 5 landsk., er hann talaði um veginn yfir Fróðárheiði. Hann sagði, að vegur þessi væri fjallvegur, og yrði ekki annað. Rétt er það, að fjallið lækkar ekki héðan af, en þetta er engin sönnun fyrir því, að vegurinn sé ekki þarfur og nauðsynlegur. Víða stendur líkt á, t. d. um Holtavörðuheiði, Vaðlaheiði og fleiri fjallvegi, en út í það hefir hv. 5. landsk. ekki fett fingur. Ég ætla, að ýms héruð yrðu þjóðvegalaus, ef ekki má gera fjallvegi að þjóðvegum. Hitt er rétt, að ef vegur fengist fyrir Jökul, væri það að mörgu leyti þægilegra vegna þess, að vegurinn lægi þá um byggð, en sú leið yrði bæði lengri og dýrari. Viðvíkjandi brtt. hans um Snæfellsnesbraut er það að segja, að hún er aðeins orðamunur við frv., svo að hann getur tekið hana aftur. En til að gera hv. 5. landsk. eitthvað til geðs, vil ég þó flytja skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 75, og verði. hún samþ., hefir hv. 5. landsk. fengið allt, sem hann fer fram á.