04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég sé, að það er þó nokkuð, sem okkur hæstv. dómsmrh. ber á milli, því að hann lítur svo á, að það verði að miða þessar bætur við það, að héraðslæknirinn hafi nákvæmlega sömu laun eftirleiðis eins og hann hefir hingað til haft. Það er ekki mín skoðun, að svo þurfi endilega að vera. Ég veit ekki, hve miklar tekjur þessi starfsmaður hefir, en ég get hugsað mér, að þær tekjur séu svo miklar, að mér þyki ekki ástæða til að hann héldi þeirri launaupphæð áfram.

Hæstv. dómsmrh. hefir viðurkennt, að læknar almennt eigi ekki kröfu til að fá bætur fyrir það, sem tekjur þeirra rýrna vegna þessa frv. Þá hlýtur hið sama að ganga yfir bæjarlækninn hér í Rvík, að öðru leyti en því, að það mun hafa verið tekið meira tillit til þess, þegar laun hans voru ákveðin, að hann hefði þessar tekjur, og frá mínu sjónarmiði á að bæta honum þetta upp, en ég vil taka það skýrt fram, að þar fyrir þarf ekki endilega að vera, að hann hafi sömu laun áfram eins og hann hefir haft hingað til. Ég veit ekki, hvað þessi læknir hefir miklar tekjur; við skulum segja 20 þús. kr. á ári, og ég sé ekki annað en að þær mættu lækka dálítið. Hæstv. dómsmrh. þótti ekkert óeðlilegt að greiða úr sóttvarnarsjóði einhvern hluta af launum læknisins hér í Rvík um ófyrirsjáanlega langan tíma. Ég held, að það geti ekki heyrt undir verksvið sjóðsins skv. ákvæðum þessa frv. Mér finnst skrítið, ef á að fara að skylda þennan sjóð til þessara hluta. Mér finnst, að þá mætti eins skylda þennan sjóð til einhverra annara hluta, sem ekki eru fjær hans hlutverki en að greiða einhvern hluta af launum einhvers læknis. Ég held fast við það, sem ég sagði, að mér finnst það mjög óeðlilegt.