20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

6. mál, verðtollur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það mun hafa verið í umr. um þetta mál, að hæstv. forsrh. gat þess, að hann sæi ekki neitt samband milli stjórnarskrármáls og skattamála. Hirti ég ekki að svara þessu þá, og vildi gjarnan geyma það þar til séð yrði, hvort samkomulag fengist annarsvegar milli hans og Sjálfstfl. og hinsvegar Framsfl. um frv. til stjórnskipunarlaga, sem nú liggur fyrir þinginu. En nú hefir þetta mál verið sett á dagskrá til 3. umr. áður séð verður, hvor á að láta í minni pokann. Sambandið milli stjórnskipulags og skattamála er tvennskonar. Annarsvegar það, sem alltaf og alstaðar hefir verið þar, sem baráttan hefir staðið milli einræðis, hvort sem það er persónulegt einræði eða grímubúið sem minni hluta vald, og lýðræðis. Hin ástæðan er, þegar taka þarf tillit til þess, hvernig ástatt er um þingskipun, þegar baráttuna fyrir þessu skal heyja. Ég ætla fyrst að gera grein fyrir fyrra atriðinu. Krafan um lýðræðið er í sinni upphaflegu mynd krafa borgaranna í landinu um að mega sjálfir ráða því, hvaða gjöld eru á þá lögð. Ég skal minna hæstv. forsrh. á eitt sögulegt dæmi. Þingræði Englendinga spratt upp af baráttu þeirri, sem gjaldendur ríkisins þurftu að heyja til þess að öðlast vald til að ráða skattaálagningum, í stað þess að það vald lægi allt í höndum konungs eða fámenns lénsaðals, svo sem þar tíðkaðist eins og í fjölda mörgum öðrum löndum. Það þarf ekki annað en að minna hann á alla þessa baráttu til að gera honum skiljanlegt, að hjá Englendingum hefir verið óaðskiljanlegt samband milli skattamálanna og kröfunnar um það, að stjórnarskipun landsins væri hagað þannig að því er snertir kosningar og skipun þingsins, að þetta vald væri í raun og veru í hendi landsmanna sjálfra, alls þess almennings, sem kýs neðri málstofu parlamentsins.

Alveg það sama hefir verið uppi í öðrum löndum. Þarf þar ekki að minna á annað en það, hvernig stjórnarbyltingin mikla í Frakklandi komst af stað. Ástæðan var sú, að konungurinn, sem eftir landslögum hafði óvenju mikið vald, var þó nokkrum takmörkum bundinn frá gömlum dögum að því er snerti vald til þess að leggja skatta á landsmenn. Það var búið að fara allar hugsanlegar krókaleiðir til að komast framhjá þessum gömlu lögum um þennan rétt landsmanna. Þó kom svo, að konungur gat ekki komizt hjá að kalla saman þjóðarsamkomu, sem verið hafði til á pappírnum, en ekki kvödd til fundar því nær 2 aldir. Það, sem svo var barizt um á þessari samkomu, var fyrst og fremst það, hvort atkvgr. á þessari samkomu yrði þannig hagað, að meiri hlutinn réði, eða hvort henni skyldi hagað á annan veg. Upp úr þessari baráttu fulltrúa þjóðarinnar fyrir að varðveita skattaálagningarvaldið, sem þjóðin hafði ofurlítið brot af, spruttu svo allir viðburðir frönsku stjórnarbyltingarinnar.

Ég hirði ekki að nefna fleiri dæmi upp á þetta. Það er svo kunnugt t. d. á Norðurlöndum, að baráttan fyrir lýðræði og almennum kosningarrétti hefir þar fyrst og fremst fylgt sjálfsákvörðunarrétti þjóðanna um það, hvernig á þær væru lögð gjöld til opinberra þarfa. Baráttan gegn einveldi eða gegn minni hlutanum, til þess að fá þetta vald í sínar hendur, á þess vegna sögulegar rætur, og það er því í algerðu samræmi við söguna, að tvö síðustu árin hefur haldizt í hendur baráttan fyrir jöfnum kosningarrétti og að meiri hlutinn ráði, þegar ágreiningur verður, og hinsvegar baráttan í skattamálum, því að þetta er fyrst og fremst barátta fyrir því, að þjóðin fái sjálf að ráða fjármálum sínum. Sem stendur verður ekki talið, að þjóðin ráði þeim sjálf frekar en öðrum málum, meðan svo er ástatt með kosningarrétt, að réttur manna til afskipta af þjóðmálum er næstum eins misjafn og var í mörgum Evrópulöndum á miðöldunum. Þegar sumir hafa margfaldan kosningarrétt á við aðra, þá er það endurtekning á sama minnihlutavaldinu, er einkenndi miðaldirnar og lýðræði og þingræði 19. og 20. aldarinnar er sprottið upp úr.

Ég veit, að þegar hæstv. forsrh. athugar þessi sögulegu sannindi, sem ég hefi aðeins stuttlega drepið á, getur hann ekki furðað sig á, þó að hér kæmi fram nokkurt samband milli skattamála og baráttunnar fyrir jöfnum kosningarrétti, sem borið hefir verið fram í stjórnarskrárfrv. Hina hliðina á þessu máli hefir hann sjálfur oftar en einu sinni bent á, og hún er sú, að þótt kosningarrétturinn sé orðinn svo ákaflega misjafn eins og hann er orðinn, þá felur núv. tilhögun þó í sér það atriði, að þessi efri deild Alþ. er þó þannig skipuð, að hún verður í nokkuð meiru samræmi við sjálfsákvörðunarrétt kjósenda heldur en neðri d. þingsins eða þingið í heild sinni. Það er því auðvitað krafa kjósenda landsins, að efri deild þingsins noti þá aðstöðu sína, sem þessi réttlátari skipun hennar gefur henni til þess að knýja fram þær kröfur um jafnrétti kjósenda, sem stjórnarskrárfrv. hafa falið í sér, og beiti til þess þeim þinglegu vopnum, sem hún hefir vald á og hefir í hendi sér. Og þá er það eitt af þeim þinglegu vopnum, sem þessi þingdeild hefir í hendi sér til þess að beita í þessu máli, það er einmitt geta hennar til þess að ráða nokkru um skattalöggjöfina. Því miður er jafnrétti kjósenda ekki nægilega sterkt hér í d. samkv. skipun hennar til þess að þessi þd. geti veitt hinum almenna og jafna kosningarrétti ákvörðunarvald um skattamál. Atkvæði standa jöfn, svo að við höfum ekki annað en í bezta tilfelli synjunarvald, ef við stöndum saman, sem saman höfum staðið að kröfum um jafnrétti kjósenda.

Það má því enginn misvirða það við okkur, þó að við beitum því eina þinglega vopni, sem við höfum í öðru eins máli og þessu. Og ef einhverjum þykir það þunghent vopn, þá vil ég biðja þá að renna augunum til veraldarsögunnar og líta á það, hvaða vopnum og tökum hefir þurft að beita til að ná þessu sama marki, sem hér er stefnt að, en það er sjálfur grundvöllur þjóðskipulagsins. Ég vil segja hæstv. forsrh. það í allra mestu vinsemd, og mér er ljúft að taka það fram, að í þessu sambandi eigum við, sem fylgjum jafnréttiskröfunni, minnst útistandandi við hann af þm. þess flokks, sem hann tilheyrir. Hann hefir þó borið fram frv., sem að vísu fullnægir engum þeim kröfum, sem við höfum gert, en fer þó það nærri þeim, að við, sem höfum borið kröfurnar fram, höfum tjáð honum og öðrum, að við getum tekið við því frv. sem grundvelli til samkomulags. Sjálfur hefir hann ekki, svo að ég viti, með atkv. sínu á þingi ennþá hopað af grundvelli þessa frv. En hann hefir haft minna fylgi innan síns flokks en nokkur maður á landinu hefði búizt við til þess að halda fast við það, sem hann sjálfur hefir borið fram. Ég skal ekki fara lengra út í það, hvort hann verður sakaður um þetta fylgisleysi, sem svo átakanlega hefir komið fram; það liggur ekki fyrir hér. En ég vil taka það fram, að þó að ég minnist á þetta mál nú í sambandi við skattamálin, þá er það alls ekki gert sem sérstök ádeila á hann, þó að hann gæfi tilefnið, heldur til að gera hv. þd. grein fyrir, að við höfum sögulegan og siðferðislegan rétt til að beita hér í d. þeim þinglegu vopnum, sem við höfum til að styðja kröfur landsmanna um jafnan kosningarrétt.