30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég vil þá fyrst skýra frá því — (Ókyrrð á áheyrendapöllunum). Ég vil óska þess, að forseti biðji lögregluna að fara út. Hún hefir ekki verið beðin að koma hér inn. (Forseti: Ég vil biðja menn að vera kyrrláta). Ég vil endurtaka þá ósk mína, að forseti biðji varalögregluliðið, sem er þarna uppi, að fara út. (Forseti (JörB): Ég vil biðja menn að gæta kyrrðar. Ég hefi ekki gefið neinar fyrirskipanir um að sýna neinn ójöfnuð einum né öðrum). Ég vil mótmæla þeirri lögreglustjórn, sem hér er. Það mun vera Erlingur Pálsson, sem ruddist hér inn á svalir þingsins án þess að forseti hafi óskað þess. Hann einn hefir rétt til þess að reka menn út.

Ég vil æskja, að dómsmrh. láti Erling Pálsson sæta refsingu fyrir þetta.

Þá er það viðvíkjandi brtt., sem borizt hefir frá nokkrum framsóknarmönnum, að ég vil lýsa afstöðu okkar jafnaðarmanna til hennar. Með þessari till. eru sameinaðar 2. gr. frv., 7. og 8. gr., og sú almenna þegnskylda til þess að gegna kvaðningu í lögregluna er þar felld niður. Þar sem óhætt er að segja, að það sé eitthvert hættulegasta atriðið í þessu frv., þá munum við jafnaðarmenn auðvitað því fylgjandi, að það ákvæði falli burt, enda höfum við farið fram á það við Framsóknarflokkinn, að það yrði tekið út. Hinsvegar get ég ekki skilið, hvers vegna þarf að hrúga svona miklu saman í þessari till. Hér er tekið fram, að lögreglumenn ríkisins séu sýslunarmenn og njóti sömu verndar og þeir menn, er gegni borgaralegri skyldu. Ég get ekki skilið, að þeir, sem gegni borgaralegri skyldu, njóti neinnar annarar verndar en sýslunarmenn ríkisins. Hvers vegna er það tekið fram, að enginn megi tálma því, að maður gegni varalögreglustörfum, ef ekki er átt við það, að menn megi ekki skipta sér af lögreglunni þegar hún er að sínum störfum? Það, sem mér finnst varhugavert við að halda þessu ákvæði, er það, að menn kunni að vilja skjóta sér undir þessi ákvæði og að það sé meira gert vegna þess. Er þarna átt við einhverjar tálmanir fyrir verkalýðsfél. til þess að banna sínum mönnum að vinna með utanfélagsmönnum? Hingað til hefir það verið viðurkenndur réttur verklýðsfélaganna um allan heim, að þau ráði því, hvaða meðlimir séu í félaginu, og þá auðvitað geti þau vikið meðlimum úr félaginu, ef þeir brjóta samþykktir félagsins og að ekki sé hægt að skylda neinn mann til þess að vinna með öðrum mönnum, ef hann kýs að leggja niður vinnu. Þennan rétt munu verklýðsfélögin verja út í yztu æsar, og ég vil skilja það svo, að með þessari gr. sé á engan hátt gengið á rétt þessara félaga til þess að halda uppi starfsemi á þennan hátt, sem er viðurkenndur um allan heim. Vegna 7. gr. vil ég samt sem áður lýsa því yfir, að við munum heldur kjósa þessa breyt. á frv. Ég hefi svo ekki öðru að svara. Í ræðu hv. þm. G.-K. var í raun og veru það sama og áður hefir verið sagt; en ég vil spyrja hann aftur að því, sem hann og þeir, sem hafa verið fylgjandi þessu frv., hafa aldrei getað svarað: Á móti hvaða liði er þessu liði ætlað að vera svo fjölmennt? Sjá þeir vísi til þess í landinu, að þar þurfi að vera svo fjölmennt lið. Þá vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvaða vopn eru það, sem þetta lið á að nota önnur en kylfurnar, sem menn hafa orðið áþreifanlega varir við hér á áheyrendabekkjum þingsins og við bæjarstjórnarfundi? Eru það önnur vopn, sem ríkisstj. hefir verið að kaupa handa varalögreglunni og hún vill ekki játa menn verða vara við? Er það þess vegna, að hæstv. dómsmrh. hefir neitað mér um að sjá fylgiskjölin, til þess að sjá, hver kostnaðurinn hafi verið af ríkislögreglunni? (Dómsmrh.: Nei, ekki þess vegna). Engin önnur vopn? (Dómsmrh.: Nei). Og verða ekki? (Dómsmrh.: Hvað á ég að verða lengi dómsmrh.?) Verða ekki önnur vopn notuð meðan þessi dómsmrh. situr? (Dómsmrh.: Nei). Þá vil ég geta þess, að enginn þeirra manna, sem mælt hafa fyrir þessu frv., hafa svarað því, hvers vegna stendur í 4. gr., að lögreglan megi ekki skipta sér af venjulegum kaupdeilum. Eru þá einhverjar kaupdeilur, sem hún á að skipta sér af? Hvers vegna má ekki afnema þetta orð?