31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

66. mál, lögreglumenn

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Hæstv. stj. sagði, er hún bar þetta frv. fram, að það væri gert til þess að halda uppi friði í landinu. Er vitanlega sízt að lasta, ef frv. getur orðið til þess. En ég minnist þess þó ekki, að alþm. hafi talið sig þurfa að hafa lífvörð, er þeir hafa verið að störfum hér í þinginu fyrr en nú eftir að lögregla þessi var stofnuð. Ég verð nú að segja, að ég fyrir mitt leyti óska ekki eftir slíkum vopnuðum friði og þeim, er verið hefir hér tvo síðustu dagana, og e. t. v. oftar. Ég er þess fullviss, að ef engin lögregla hefði verið hér í gær, þá hefðu engar aðgerðir orðið aðrar en framítökur í ræður þm., sem meira var þó af en venjulega, það játa ég. Ég er fullviss um, að aukin lögregla, svo sem fyrir er gert ráð í frv., er til einskis annars en að auka ófrið í landinu. Þetta hefir nú einmitt sýnt sig nú þegar, þó í litlu sé. Ef ekki hefði átt að auka lögregluna, hefði ekki þurft að kveðja lögreglu til að vernda þingsætin. Og það er upplýst, að það er sjúkur forseti Sþ., sem ekki þorir annað en kveðja hingað lögreglu. Þetta er alveg sambærilegt við harðstjórana, sem urðu að hafa vopnað herlið í kringum sig til að halda völdum, sínum. Ég vildi því, ef það þýddi nokkuð, biðja hv. þdm. að hugsa sig vel um áður en þeir samþ. frv. þetta, sem áreiðanlega leiðir til þess að auka vandræði, en ekki til að draga úr þeim. Það er nú vitað, að jafnaðarmenn, kommúnistar, nazistar og jafnvel sjálfstæðismenn koma sér upp varnarliði, eftir að varalögreglan var sett á fót. Ekki er nú hægt að segja, að friðvænlegt sé, þar sem allt þetta er á ferðinni. Það mælir að vísu margt með því, að dagleg lögregla sé aukin. Hún þarf að halda uppi friði á götunum, koma í veg fyrir drykkjuskap, umferðaóreglu, lögbrot o. fl. En til þess þarf ekki að halda uppi slíku bákni sem varalögreglan er og á víst að vera. Slík lögregla er ekki einungis óþörf, heldur beinlínis hættuleg. Það er séð, að hún er sett upp í sérstöku augnamiði. Ekki til að annast venjuleg störf, heldur til notkunar þegar sérstaklega stendur á. Það liggur fyrir yfirlýsing frá stj. um það, að lögregluna skuli ekki nota í vinnudeilum. Í frv. var þetta óákveðnara. Þar stóð „löglegum“ vinnudeilum, og var síðar breytt í „i eiginlegum“, er sízt var til bóta. Nú er þetta skýlaust orðað.

En þrátt fyrir allar yfirlýsingar verð ég þó að segja það, að ég er fullur tortryggni í garð hvaða stjórnar sem er um misbeitingu lögreglunnar í vinnudeilum, ef henni líka ekki aðgerðir verkalýðsins í kaupgjaldsbaráttunni. Og það er fullkomin ástæða til að vera tortrygginn, ef litið er til reynslunnar hér og erlendis. Ef lögreglan á ekki að grípa inn í vinnudeilur, þá er verkefnið næsta lítið, nema menn haldi, að stj. ætli að framkvæma einhverjar aðgerðir í trássi við mikinn meiri hl. þjóðarinnar. Séu einhverjar slíkar ráðstafanir gerðar í óþökk allrar alþýðu í landinu, er hætt við, að einhver sýndi óánægju sína í verki, svo að stj. hefði þörf á hersveitum. Segjum þó, að fyrir gætu komið svo stórkostlegir og hættulegir viðburðir, að þessi liðssamdráttur væri álitinn nauðsynlegur. Við skulum líta til ársins 1931. Stjórnin greip þá til þess óyndisúrræðis að hefta framgang sjálfsagðra mála með því að rjúfa þing. Þetta olli eðlilegri og almennri óánægju bæði hjá þingmönnum og kjósendum. Mannaferðir voru miklar um bæinn um tíma m. a. að bústað forsrh. og mótmæli þar fyrir utan. Ef stj. hugsar sér nú alls ekki að nota lögregluna í vinnudeilum, virðist sem hér hefði verið verkefni fyrir hana, að mannsöfnuður gangi heim til forsrh., raski húsfriði með ræðuhöldum og brjóti e. t. v. rúðu. En halda menn nú, að friðinum hefði verið betur borgið 1931, þótt nokkur hundruð lögregluþjóna hefðu reynt að hindra mannfjöldann? Nei, það vita allir, sem til þekkja, að það hefði verið óbrigðult ráð til að koma öllu í uppnám. Okkur var bannað að vera í þinghúsinu. Vafalaust hefði varalögregla verið sett þar á vörð, ef hún hefði verið til. En varla hefði það orðið til að efla friðinn. Einmitt af því, að engin varalögregla var til, fór allt friðsamlega fram.

Þegar bændur streymdu hingað hundruðum saman til mótmæla út af símamálinu, hefði kannske einhver stj. haft það til að vísa þessum „mosa“-mönnum heim til sín. Og mér er alls ekki grunlaust um, að freisting verði fyrir einhverja stjórnina að beita þessu afli sínu í vinnudeilum. Ég er ekki að segja, að hæstv. núverandi forsrh. eða dómsmrh. myndu gera slíkt, en þeir geta vitanlega ekkert sagt um, hverjir skipa sæti þeirra síðar. Með því að kalla saman mörg hundruð manna, æfa þá og vopna, er ófyrirleitnum ráðh. lagt vopn í hendur til að geta setið við völd í óþökk meiri hl. þjóðarinnar. Við erum kannske lítil hernaðarþjóð ennþá, en lítum í kringum okkur í álfunni. Þá sjáum við, að þeir, sem vald hafa á herjunum, geta haft völdin, þrátt fyrir andúð fólksins. Bezta ráðið til að tryggja friðinn í landinu, er að setja ekki upp ríkislögreglu, heldur nota féð til að bæta afkomu fólksins, gera rétt manna í landinu jafnan og aðstöðu þeirra til að nota sér hann. Þá getur bæjarlögreglan ein dugað.

Ef þeir atburðir gerast, sagði hv. þm. G.-K., að friðnum sé stefnt í voða, er það ekki aðeins réttur, heldur og skylda stj. að taka í taumana með stofnun lögreglu. Ef þetta er svo, þá er 6. gr. alveg óþörf. Ef slíkir atburðir gerast, að slíkar ráðstafanir þyki nauðsynlegar, þá myndi hver stjórn gera þær, eins og varalögreglan síðan í haust sýnir. Stj. stofnaði hana án lagaheimildar, og ég geri ráð fyrir, þótt leitt sé að segja það, að meiri hl. þingsins muni leggja blessun sína yfir þá ráðstöfun.

Hver er þá munurinn á þessu frv. og rétti stj. nú? Sá munur er mikill. Í því tilfelli, að stj. kveðji saman varalögreglu án sérstakra laga, þarf hún samþykki þingsins eftir á. Í því liggur aðhald um að stj. gangi ekki lengra en hún telur nauðsyn á. Eftir 6. gr. á stj. ekki að bera þetta undir Alþingi. Mér virðist 6. gr. vera alveg óþörf, jafnvel frá sjónarmiði stj. sjálfrar, og teldi það stóra lagfæringu, ef hún væri felld burt.

Hv. 2. þm. Reykv. er dauður, og því vildi ég svara því nokkrum orðum, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til kauplækkunartilraunarinnar í vetur. Hann kvað það ósatt, að miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefði samþ. kauplækkunina. Hv. 2. þm. Reykv. talaði um stjórn Sjálfstfl., en ekki miðstjórn. Ég var ekki staddur í bænum um þetta leyti, en ég er þó kunnugur málavöxtum af sögusögn góðra manna úr bæjarstjórn. Guðm. Ásbjörnsson, settur borgarstjóri, fékk heimsókn af kröfugöngu, og var krafan sú, að kaupið héldist óbreytt. Hann gaf þau svör, að Sjálfstæðisflokkurinn væri búinn að samþ. kauplækkun. Áður en lækkunartill. var borin upp í bæjarstjórn, lýsti forseti yfir því, að hún væri frá Sjálfstæðisflokknum. Það þýðir ekki að neita því, að Sjálfstæðisfl. innan bæjarstj. stóð a. m. k. óskiptur um málið. Allir vita, að tilgangurinn með þessari óskaplegu kauplækkun í atvinnubótavinnunni var sá, að koma á almennri kauplækkun í bænum. Þessar endemis ráðstafanir hleyptu gremju í fólk, og voru undirrót þeirra atburða, sem gerðust 9. nóv.

Hv. þm. G.-K. varð skrafdrjúgt um það, hve lögregluþjónar bæjarins væru myndarlegir og stórir, þótt ekki væru þeir eins vel launaðir og sendiherrar Prússa. Það er nú annars meiri hl. bæjarstj., sem skammtar þeim launin. En þótt þeir væru allir yfir þrjár álnir hefði það engin áhrif á það, hvort vaskir menn eru í varalögreglunni eða ekki, svo að ég veit ekki hvað stærð þeirra kemur þessu máli við.

Í sambandi við þá atburði, er gerðust hér í gær, vil ég segja það, að ég tel eðlilegt, að lögregluþjónum geti runnið í skap eins og öðrum mönnum. En það er engin afsökun fyrir því, að menn, sem hafa svo vandamikið opinbert starf með höndum, missi stjórn á sjálfum sér og fremji bræðiverk. Þeir, sem slíkt gera, eru ekki til slíkra starfa hæfir og eiga að fara. Það er meira virði, að lögregluþjónar kunni að temja skap sitt, en þó að þeir séu yfir þrjár álnir. Eftir ýmsum sögnum að dæma, hefir það hent suma þeirra, að þeir hafa í bræði misst stjórn á geði sínu og framið fólskuverk. Lögreglan má ekki berja menn, ef önnur ráð eru til. Í gær var húsið fullt af lögreglu, svo að hún virðist hafa átt að geta haft í fullu tré við einn eða tvo menn án barsmíða. Annars tek ég undir það með hæstv. dómsmrh., að ég trúi því vart, að lögreglan hafi barið manninn áður en hún tók hann. (HV: Tók hann fyrst og barði hann svo). Ég vil ekki trúa slíkri óhæfu. Hver, sem slíkt hefir gert, á að víkja tafarlaust. (Rödd úr blaðam.herb.: Ekki sízt, ef þeir eru margir). Þá víkja margir.

Ég vil að síðustu segja það, að ef það vakir fyrir stj. að hindra óeirðir, þá er þetta frv. ekki líklegt til þess. Það getur í mesta lagi stofnað til vopnaðs friðar. Liðsaflinn á að vera það sterkur, að óánægja, réttmæt sem óréttmæt, þori ekki að gefa sig fram. En það mega hv. þdm. vita, að stéttabaráttan verður ekki kæfð niður með þessu ráði. Það verður miklu fremur til að herða hana og skerpa. Og mér er ekki grunlaust um, að sumir kommúnistar séu alls ekki svo óánægðir með að ríkislögreglan verði samþ. Baráttan myndi harðna, og „baráttuhæfni“ verkalýðsins, eins og þeir orða það, vaxa. Verkalýðurinn myndi undir höggum lögreglunnar læra að hata öll yfirvöld og æfast í skærunum til stórra bardaga. Ég get líka hugsað mér, að nazistar hugsi sér gott til glóðarinnar með því að fá menn sína æfða í þessu liði til að vera betur undir það búnir að koma á hinu „þriðja ríki“. Mér er ekki grunlaust um, að þessum tveim öfgaflokkum sé ekki eins mikill óleikur með þessu ger og stj. lætur.