31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

66. mál, lögreglumenn

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég get ekki annað en kvartað undan þeirri meðferð, sem hæstv. forsrh. hafði á orðum mínum um forseta sameinaðs þings. Það er rétt, að ég lét orð falla á þá leið, að skýrt hefði verið frá því, að lögreglan væri hingað komin í þinghúsið eftir boði hins sjúka forseta sam. þings. satt að segja mátti skilja orð mín á þá leið, að honum væri kennt um þetta, af því að hann er nú fjarstaddur sökum lasleika. En að ég hafi með þessum orðum viljað gefa það í skyn, að fors. Sþ. væri sjúkur á sinni, er hreinn og beinn hugarburður hæstv. ráðh. Ég tók fram í fyrir hæstv. ráðh. og leiðrétti þetta. Og ég verð að segja það, að ég kann illa þeirri framkomu úr ráðherrastóli, að fyrst séu mér gerð upp orð, sem ég hefi ekki talað, og svo þegar ég leiðrétti þau, þá er sagt, að ég sé farinn að éta ofan í mig. Ég tel þetta alveg ósæmilega framkomu úr ráðherrastóli.

Hitt tel ég vera sorglegt tímanna tákn, að þeir, sem eru forráðamenn í þessu húsi, skuli telja þörf á því að hafa lögregluvörð hér í sölum Alþingis. Það verður auðvitað ekki skilið á annan veg en þann, að þeir telji ástandið hér í bænum svo ískyggilegt, að ekki verði hjá því komizt. Það er heldur ekki ástæðulaust, þó að þess sé getið hér í umr., sem allir vita um, að þetta stjfrv., sem hér er keyrt fram með miklu offorsi, hefir vakið geysilega andúð og óvinsældir hjá miklum meiri hl. þjóðarinnar. Þess vegna er mótstaðan svona áköf og þess vegna er álitið, að löggjafarfulltrúarnir þurfi lögregluvernd á meðan þeir afgreiða þetta mál.

Hæstv. forsrh. sneri út úr orðum mínum og hélt því fram, að ég áliti, að bráðlyndir og ofstopafullir lögreglumenn væri það eina, sem ég teldi ástæðu til að óttast. Það er skemmtileg ályktun þetta hjá manni í ráðherrasæti og einkennileg meðferð á rökum andmælanda hans. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði haldið því fram, að aðrir menn mættu vera reiðir og fremja eitt og annað í bræði, en það mættu lögreglumenn aldrei gera. Á þessu tvennu er í raun og veru geysilegur munur. Þjóðfélaginu stafar engin veruleg hætta af því, þó að einstökum mönnum slái saman í skærur og áflog, en því stafa aftur á móti stórfelld óhöpp af því, ef þeir menn, sem eru settir til eftirlits með öðrum og eiga að gæta friðar og reglu, haga sér ósæmilega í bræði, af því að þeir kunna ekki að stilla skapi sínu í hóf. Það verður að gera miklu strangari kröfur til lögreglumanna heldur en annara, sem þeir eru settir til að gæta. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. viðurkennir þetta. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að mér þykir vænt um, ef stj. lætur rannsaka atvikin að þeim óeirðum, sem fóru fram hér á áheyrendapöllunum í gær. Geri ég ráð fyrir, að það komi þá í ljós, sem ég hefi hér vikið á, að bráðlyndi lögregluþjóna hafi valdið þar mestu um. Mér virtist það, sem hæstv. forsrh. sagði um uppþotin og ólguna hér í bænum 1931, staðfesta það, sem ég hefi haldið fram, að það gekk yfirleitt friðsamlega, enda þótt lögreglan hefði þar engin afskipti af. Þó voru fundirnir fjölmennir og æsingar miklar. En þrátt fyrir æsingarnar á fundunum, þar sem saman voru komnar þúsundir manna, þá voru engin ólæti og engin meiðsli. Og hvað sem hæstv. ráðh. segir um það nú, þá veit ég, að hann muni með sjálfum sér vera mér sammála um, að meiri róstur og óeirðir hefðu þá átt sér stað, ef fjölmennt og óæft lögreglulið hefði þá verið á ferðinni um götur bæjarins til tálmunar einu og öðru, sem fram fór. Hæstv. ráðh. sagði líka, að þegar hann hefði farið héðan af þingfundi í gær, þá hefði unglingahópur þyrpzt að sér á götunni og varpað til sín ókvæðisorðum. Mér dettur ekki í hug að mæla slíku bót. Enda veit það hver maður, að samþykkt þessa máls verður ekki stöðvuð með hrópyrðum og götuskætingi. Hæstv. ráðh. sagði, að sér hefði ekkert verið hnjaskað, og þó stendur hann framarlega í deilunum gegn almenningi í þessu máli og enginn lögreglumaður var með honum í mannþyrpingunni. Þrátt fyrir það endaði þetta vandræðalaust. Á áheyrendapöllunum í gær var enginn þeirra manna, sem barizt hafa fyrir þessu frv., en þar voru lögreglumenn til eftirlits, enda sló þar í ryskingar svo að meiðsli hlutust af, en í mannþyrpingunni á götunni er enginn lögregluþjónn hjá hæstv. ráðh., og þar eru allir rólegir. Var það lögreglunni að kenna, hvernig tókst til á pöllunum? Vonandi verður það rannsakað. Það virðist svo sem stjórn varalögreglunnar hafi ekki reynzt heppileg til þess að afstýra hnippingum og óspektum.

Ég ætla ekki að deila við hæstv. forsrh. um uppeldismál í þessu sambandi. Hann hélt því fram, að ef lögreglumenn höguðu sér ósæmilega í bræði, þá væri það sök þeirra, sem eggjuðu lýðinn til óeirða. Slíkt verður ekki talin gild afsökun fyrir mistökum lögreglumanna. Og hæstv. ráðh. hefir ekkert tilefni til þess að beina því til okkar þm. Alþfl., að við höfum eggjað til ofbeldisverka. Það hlýtur honum að vera ljóst. Hinsvegar getur hann ekki búizt við því, að við fellum niður umr. í þessu máli. Vitanlega beitum við þeirri andstöðu, sem okkur er unnt gegn þessu óheillafrv., og er þá ekki að undra, þó að manni hlaupi kapp í kinn.

Ég vil leggja höfuðáherzlu á það, að ég óttast, að aðaltilefnið til andspyrnu frá hálfu verkalýðsins gegn þessu máli sé einmitt stofnun varalögreglunnar, en ekki fjölgun lögregluþjóna í hinni föstu lögreglu bæjanna. Af því að það er ómögulegt að koma mönnum í skilning um það, hvað þessi varalögreglusveit á að gera, annað en að verja hagsmuni yfirstéttarinnar ef í odda skerst milli hennar og verkalýðsins. Það situr yfirleitt fast í hugum fjöldans, að varalögregluna eigi að nota sem eitt vopnið í stéttabaráttunni eins og hjá öðrum þjóðum. Enda var það sérstaklega eftirtektarvert, sem hæstv. forsrh. sagði, að það hefði ekki átt við að nota varalögreglu í uppþotunum hér í bænum eftir þingrofið 1931, það á ekki að beita henni í vinnudeilum, segir stjórnin, það átti ekki að nota aðstoð hennar til þess að fylgja forsrh. heim, þó að fólk þyrptist um hann og hreytti til hans ókvæðisorðum á götunum, sagði hæstv. ráðh. Það á ekki að grípa til hennar þó að mannfjöldi fylgi kröfum sínum með háværum látum á opinberum samkomum og í fylkingum undir merkjum, segir hæstv. forsrh.

Hvað á varalögreglan þá að gera? Ég spyr hæstv. stj.: Hvað á hún að gera? Því segir hún ekki til um það.

Hæstv. ráðh. eru alltaf að telja það upp, sem varalögreglan á ekki að gera. Þeir ættu heldur að skýra frá hlutverkum hennar. Á hún að halda vörð um hlustendur á áheyrendapöllum Alþingis? hún að verja áheyrendum að komast inn á fundi bæjarstjórnarinnar hér í bænum? Mér er spurn.

Hæstv. forsrh. fór fram hjá einu atriði í ræðu sinni, sem ég verð að víkja nánar að. Stj. hefir haldið því fram, að hún hefði eigi aðeins rétt, heldur skyldu til þess, þegar sérstaklega óvenjulegir atburðir kæmu fyrir eins og síðastl. haust hér í bænum, að grípa til nauðsynlegra varnarráðstafana eins og þá var gert. Stj. hefir ekki fengið neina vanþóknun eða ávítur fyrir það hjá Alþingi. Ég hygg þess vegna, að henni muni nægja það framvegis að hafa samskonar vald til þessara hluta og hún nú telur sér heimilt, og að eiga það jafnan undir samþykki næsta þings á eftir, sem hún hefir framkvæmt í þessum efnum. Þetta framkvæmdaform gefur einmitt bezta tryggingu fyrir því, að stj. misnoti ekki vald sitt, þegar hún þarf eftir á að leita samþykkis þings og þjóðar á ráðstöfunum sínum, þar sem nokkur hætta er á því, að þær yrðu gerðar að fráfararsök, ef þingið féllist ekki á þær. — En það má alltaf gera ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að þingið láti halda þeim áfram, ef því þykir ástæða til. Það væri annars fróðlegt að fá yfirlýsingu frá hæstv. stj. um það, hvort hún telur nauðsynlegt að hafa varalögreglusveit hér í Rvík til viðbótar lögreglu bæjarins, þó henni verði fjölgað eins og gert er ráð fyrir í frv., eða hvort hún ætlar ekki að neyta þeirrar heimildar í lögunum að svo stöddu.

Hæstv. forsrh. sagði, að enginn þjóðhollur maður gæti haft neitt á móti því, að vald þjóðfélagsins væri eflt og styrkt sem mest, og skildist mér, að hann ætti þar við þessa till. um stofnun varalögreglu, sem gripið yrði til þegar á þyrfti að halda. En ég vil benda honum á, að það er fyrst og fremst vald ríkisstjórnarinnar, sem verið er að styrkja með þessum lögum. Og þó að það sé e. t. v. engin sérstök hætta á því, að núverandi stjórn misnoti það vald, sem lögin veita, þá er hitt víst, að ef sú ríkisstj., sem ekki styðst við meiri hl. fylgi hjá þjóðinni og ætlar að sitja við völd í óþökk meiri hlutans, þá er henni gert það mögulegt með því valdi, sem þessi lög veita henni. En að öðrum kosti væri henni það ómögulegt. Þessu má hæstv. forsrh. ekki gleyma.

Það er ekki ætlun mín að saka núverandi hæstv. stj. um einræðisbrölt, en hitt er víst, að hún getur ekki borið ábyrgð á eftirköstum þessara laga. Hæstv. forsrh. getur sagt fyrir sig, á hvern hátt stj. muni beita þeirri heimild, sem lögin veita henni, en hann getur ekkert skuldbundið um það fyrir eftirkomendur sína í stjórninni.