11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (1351)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Því fer fjarri, að mér detti í hug að neita því, að þörf sé á bættum samgöngum við þennan landshluta. Stj. er fús til að reyna að semja um það við Eimskipafél., að skip þess fjölgi viðkomum sínum. Má vera, að ég geti gefið nánari upplýsingar um það atriði við síðari umr.

Um strandferðirnar er það að segja, að ég er hræddur um, að fé það, sem áætlað er til strandferða í fjárl., nægi ekki til þessara aukaferða. Upphæðin er 225 þús. kr. í fjárl. 1933, og árið 1932 ætla ég, að hafi sýnt, að sú upphæð nægi ekki nema til rekstrar annars skipsins. Stj. hefir lagt til að hækka þessa upphæð um 55 þús. í fjárlfrv. fyrir 1934. Þegar þess er gætt, að síðasta ár var með yfir 1 millj. kr. tekjuhalla og að það er fjórða árið í röðinni með tekjuhallaútkomu, er fullkomin ástæða til að forðast að halda áfram á þeirri braut. Því getur ekki gengið að heimta meiri og meiri útgjöld af ríkissjóði án þess að sjá honum fyrir tekjustofnum. Vænti ég þess, að samgmn. athugi þetta.