22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (1382)

69. mál, sæsímasambandið

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil þakka hv. samgmn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls. En ég vil taka það fram, að mér þótti ekki rétt að fara fram á þá heimild, sem hv. n. býður nú fram, til þess að koma á sambandi milli Íslands og útlanda, vegna þess að ég áleit, að ekki væri hægt að fá því máli ráðið til lykta fyrir næsta þing. En það er langt frá því, að ég sé á móti því, að heimildin sé veitt, því það getur hugsazt að hægt verði að gera þetta fyrir næsta þing, þó ég hafi hinsvegar litla trú á, að það takist, því gert er ráð fyrir, að það kosti um 1/2 millj. króna, og ekki er hægt að koma því á, nema hægt sé að ná þannig löguðum samningi um lánsfé til þess, að það verði tryggt, að það verði borgað með því, sem kemur inn fyrir samtöl, því það mun tæplegast hægt að leggja frekari byrðar á ríkissjóð en hann hefir nú.

Út af orðum hv. frsm. viðvíkjandi þessum skilyrðum frá Mikla norræna, að ekki verði komið á talsambandi með sæþræði fyrir árslok 1934, þá er það þýðingarlaust atriði, því það kostar svo gífurlega mikið að koma á þráðsambandi, að um það getur ekki verið að ræða, sennilega aldrei, og allra sízt á tímum eins og nú. Álít ég þetta skilyrði þýðingarlaust.

Vona ég svo, að hv. d. hafi ekkert á móti því að samþ. þessa till. með þeirri breytingu sem n. leggur til.