19.04.1933
Efri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (1443)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég gat því miður ekki verið hér, þegar hv. frsm. mælti fyrir þessum brtt. n., sem eru á þskj. 399. En ég hefi séð þessar till. áður og skal lýsa því yfir, að ég hefi ekkert við hana að athuga. Ég vil undirstrika, að þetta er aðeins heimild, og ég vona, að hv. d. sé því samþykk, að stj. megi líta svo á, að fyrst og fremst sé hún ekki bundin við, hvaða síldarverksmiðju hún tekur á leigu, og í öðru lagi, að farið verði eftir, hvernig útlitið verður í sumar, þegar þar að kemur að ákveða, hvort bræðslustöð verður tekin á leigu eða ekki. M. ö. o., að það sé ekki meiningin að binda stj., heldur aðeins að veita henni þessa heimild. Það er auðvitað, að það verður að gera ýmsar kröfur til þeirrar verksmiðju, sem er tekin á leigu, t. d. að hún sé að öllu leyti í lagi og að varahlutir í vélarnar séu fyrir hendi, því að annars getur farið svo, að stórkostlegur skaði hljótist af bilunum. En það hefir kunnugur maður sagt mér, að það sé mikill vafi, að þessi verksmiðja, sem um getur í þáltill., uppfylli þessa skilmála, en það verður athugað og málið tekið eins og haganlegast er, bæði fyrir ríkissjóðinn og þá, sem eiga að njóta góðs af þessari leigu, ef til kemur. Það gleður mig að sjá, að hv. flm. og hv. 2. landsk. líka álíta, að þrátt fyrir það, að norsku samningarnir væru samþ., verði síldveiðar hér við land í sumar, því að annars mundu þeir ekki flytja till. um að taka síldarbræðslustöð á leigu. Leiðir það af sjálfu sér, að þeir með þessu viðurkenna, að útlitið er ekki eins svart í þessu efni eins og þeir vildu láta líta út í umr. um norsku samningana. Annars er það um rekstur á síldarbræðslustöð á Siglufirði að segja, að á síðastl. ári gekk það sæmilega og útlit er fyrir, að það verði nokkur hagur að því.

Ég vona svo, að hv. n. láti sér nægja þessi ummæli og samþ. það, að þessi till. sé fram borin með það fyrir augum að skapa aðeins heimild, en ekki sérstakt aðhald fyrir ríkisstj. fram yfir það, sem hún álitur rétt vera og forsvaranlegt fyrir ríkissjóðinn.