18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2894 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forseti (JörB):

Það stendur ekki í valdi forseta að heimta skýrslur eða gögn til handa þm., enda þótt þeir kunni að eiga fullkominn rétt á að fá slík skjöl. Ég vil benda hv. þm. á það, að ef hann hefir ekki von um að fá þær skýrslur, sem hann óskar eftir, og telur það miklu máli skipta að fá þær fram, þá er til önnur leið, sem sé sú, að bera fram fyrir d. till., er fer fram á nefndarskipun, og samkv. þingsköpum á n., sem sett er til að rannsaka mál, heimtingu á að fá skýrslur frá hinu opinbera og opinberum stofnunum. Þetta er sú fullkomnasta leið, sem ég þekki, og þingsköp áskilja þann rétt hverjum þm.

Önnur leið er einnig til fyrir þm., og hún er sú, að bera fram í heyranda hljóði fyrirspurn til ráðuneytisins. En í mínu valdi stendur það ekki að heimta nein skjöl eða skilríki til handa einstökum þm.