28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég skal fyrst leiðrétta það, sem komið hefir fram í umr. og að nokkru leyti verið undir tekið, að kjöttollurinn núverandi í Noregi væri kannske allt að hví 40% af andvirðinu. Þetta er ekki svo. Meðalverðið í ár virðist verða um 80 kr. á tollfrjálsa tunnu, og gerum ráð fyrir, að þar bætist við tollur 23 kr. á tunnu, svo að ekki er útlit fyrir, að tollurinn verði meira en 20% af kjötverðinu, og þar af er ljóst, að tollurinn, sem nú gildir, er enn skaplegri sem verðtollur en tollurinn, sem gilti 1924.

Þetta er höfuðatriðið, sem mér láðist að geta um áðan.

Hv. 1. landsk. talaði um þær 1500 tunnur, sem fara til norskra skipa, og kvað enga tryggingu vera fyrir tollfrelsi þeirra. Slíkt ákvæði var óþarft að setja í samninginn, því að skip hafa leyfi til að kaupa ótollaðar matvörur, sem fluttar eru frá öðrum löndum, og það er full trygging fyrir því, að þessar tunnur seljast ótollaðar. Þá sagði hv. þm., að fráfarandi stj. hefði haft öðru að sinna en rækilegum undirbúningi þessa máls, en ég vil í því sambandi endurtaka það, sem ég áður sagði, að hafi eitthvað skort á undirbúning þessa máls, þá er sá skortur hjá öllum þm. og öllum þingflokkum. Þar getur enginn upp á annan klagað; auk þess tel ég, að ekki hafi verið mikið vangert af því, sem í okkar valdi stóð. Hv. þm. lagði áherzlu á, að allt það, sem gert hefði verið til útflutnings á frystu kjöti, hafi átt rót sína að rekja til óánægju út af fiskiveiðalöggjöfinni og samningunum 1924. Ég verð að mótmæla þessu, og kemur þetta m. a. ljóst fram hjá n., sem sett var til þess að íhuga kæliskipsmálið, því að þeir útgerðarmenn, sem sæti áttu í þeirri n., voru á móti því, að skipið væri keypt. Aðalatriðið í öllum þeim undirbúningi voru ekki síldveiðarnar, heldur, að bændur hafa viljað hafa öruggan markað. Það var afltaugin í allri þeirri viðleitni.

Þá vill hv. 1. landsk. halda því fram, að undanþága hafi verið gefin frá höfuðákvæði fiskiveiðalöggjafarinnar um að skip megi ekki hafast við hér við land. Ég sé ekki nema eitt ákvæði, sem gæti forsvarað það að komast þannig að orði, og það er ákvæðið um það, að norsk skip megi selja norskum síldarverksmiðjum afla sinn. Það má segja í þessu tilfelli, að skip hafist hér að nokkru leyti við, en þetta er ekki nýtt, þetta er gamalt og hefir alltaf átt sér stað, og í samningunum 1924 var þessi heimild miklu rýmri.

Hér hefir ekkert brot verið framið á fiskveiðalöggjöfinni, og hv. 1. landsk., sem var í stj. 1924, taldi þá, að ekki þyrfti að breyta fiskiveiðalöggjöfinni í tilefni af þessari heimild Norðmanna. Sama er að segja um 5. gr., um að norsk fiskiskip megi nota veiðibáta til flutnings. 1924 var ekki talið, að þyrfti lagabreyt. til að heimila slíkt. Þessi tvö ákvæði, sem ég hefi minnzt á, er gamall arfur frá 1924, og ef rétt er að komast svo að orði eins og hv. 1. landsk., að hér hafi verið verzlað með landsréttindi, þá hefir hann átt þátt í því sjálfur og allir þeir, sem að samningunum 1924 stóðu.

Hv. 2. landsk. var töluvert hátíðlegur í sambandi við sjálfstæðishlið þessa máls. Hann fáraðist jafnvel um það, að við mættum ekki vegna samninganna skipuleggja síldarútgerðina eða annað, sem henni við kemur, af því að ef við gerðum það, þá fengju Norðmenn leyfi til að segja upp samningunum með þriggja mánaða fyrirvara. Okkur er ekkert bannað í þessu efni, og mér finnst hv. þm. ætti að gleðjast yfir því, að ef við skipuleggjum síldarútgerðina, þá segi Norðmenn samningunum upp, því að það er heimilt, og er það ekki það, sem hv. þm. óskar eftir?

Hv. þm. spurði, hvort leitað hafi verið til útgerðarmanna eða sjómanna eða fulltrúa þessara stétta til að annast samningagerðina. Það hefir verið leitað til þeirra stétta, sem þetta mál við kemur, og þær hafa átt fulltrúa til að fylgjast með málinu bæði í gegnum utanríkismálanefnd og í gegnum málsvara, sem ekki hafa þar til nú á þinginu orðað það eða gefið leiðbeiningar um, að hér væri eitthvað athugavert á ferðinni. Svona hefir það verið.

Hv. þm. vítti það, að ég hefði talað um, að norskar verksmiðjur hefðu haft sama rétt hér á landi, og nefndi, að Raufarhafnarverksmiðjan hefði verið byggð réttlaus. Það er rétt, að hún var réttlaus, þegar hún var byggð. Það stendur svo á um Raufarhafnarverksmiðjuna, að fái hún þessi 60%, sem hún má kaupa af erlendum fiskiskipum, þá á hún að geta starfað lengur og öruggar, og þá aukast möguleikar ísl. skipa til að selja henni síld. Ef hún starfaði í 2 mán. t. d. í staðinn fyrir einn mánuð eins og síðastl. sumar, þá mundi ekki minnka, heldur vaxa það síldarmagn, sem ísl. skip gætu selt til hennar. Á Raufarhöfn eru áreiðanlega til þeir menn, sem óska, að þessi samningur verði lögtekinn.

Hv. þm. heimtaði af mér, að ég hefði sagt við Norðmenn, að þeir skyldu missa öll sín réttindi 1932, ef þeir ekki semdu um sæmilega tolla, og ávítaði mig fyrir að hafa látið þá hafa full hlunnindi. Hv. þm. er þá kominn að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn hafi haft hér á landi hlunnindi, áður en þessi samningur var gerður. Yfir hverju var þá kvartað í þinginu og blöðum hv. þm.? Nei, það er ekki kvartað fyrr en nú. (JBald: Það er verið að auka réttindin).

Hv. þm. talaði um, að ég hefði dignað í Noregi. Ég mun ekki hafa verið deigari þar en hann, þar sem hann sagði, að sér fyndist þetta vera nokkuð drastískt. Slíkur Einar Þveræingur var hann þá. Hann fann að orðalagi samningsins og komst svo að orði, að það liti út fyrir, að við værum eitthvað annað en Norðmenn, slíkt væri orðalag samningsins. Ég veit, að hv. þm. hefir ekki vitað það, sem í þessu orðalagi liggur. Hvað Einar Þveræingur, sem mér skilst, að hafi verið fyrsti síldarútgerðarmaður landsins, hefði sagt, skal ég ekki segja, enda býst ég við, að hann mundi hafa sett hljóðan eftir ræðu hv. þm., þar sem hann gerði kröfu til að verða hans höfuðeftirmaður hér í hv. d.