04.04.1933
Efri deild: 42. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Jakob Möller):

Þess gerist ekki þörf að hafa langa framsögu fyrir þessu frv. Eina atriðið, sem hugsanlegt er, að ágreiningur geti risið um, er ákvæði 2. gr., að skipagjöld séu tryggð með lögveði í skipinu.

Efni 1. gr. frv. er í samræmi við þá skipun, sem upp hefir verið tekin og nauðsynleg er, til þess að hafnarstjórn sé jafnan fullskipuð, enda hefir verið samkomulag um að koma þessu þannig fyrir. — Fyrra ákvæði 2. gr. lögfestir skýrt þá venju, sem komin er á um forgangsrétt hafnargjalda, en um lögveð fyrir skipagjöldum er það að segja, að á síðasta þingi a. m. k. voru samþ. 1. með sömu ákvæðum, um Vestmannaeyjahöfn, og á fyrri þingum munu hafa verið samþ. l. fyrir aðrar hafnir með sömu ákvæðum. Þetta skiptir og ekki veðhafa í skipum eins miklu og ýmsir virðast halda. Eftir upplýsingum, sem ég hefi aflað mér, nema þessi gjöld, sem tryggð yrðu með lögveði í skipinu, 700—800 kr. fyrir togara og þar undir fyrir öll minni skip, en þess ber að gæta, að gjöldin hafa verið lækkuð nú um sinn, og er þó vafasamt, að þau hækki aftur, en ef þau verða hækkuð upp í það sama og áður, verður þetta þó ekki nema 1200—1300 kr. fyrir stærri skip á ári. Hefir þetta lítil áhrif til eða frá á rétt þeirra, sem hafa veð í skipunum. Afnot hafnar eru hinsvegar nauðsynleg fyrir öll fiskiskip, og er sjálfsagt, að þeir, sem sjá skipunum fyrir rekstrarfé, sjái einnig fyrir greiðslu á þessum gjöldum, en noti sér það ekki að koma þeim yfir á hafnarsjóð. Tel ég því víst, að hv. d. muni fallast á frv. eins og það liggur fyrir, enda er það í fullu samræmi við það, sem þingið hefir áður gert í þessum efnum, eins og ég hefi bent á.