27.04.1933
Efri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jón Þorláksson:

Ég lagði til í fjhn., að frv. yrði samþ. Hefi ég látið á móti mér með þessu, því að ég er mótfallinn því, að stofnað verði til þeirrar starfsemi, sem frv. ætlast til. Er það eingöngu vegna nauðsynjar háskólans, að ég fylgi þessu máli. Ef ekki hefðu komið fram brtt. við frv., hefði ég getað látið við það sitja, en þar sem komnar eru fram nokkrar brtt. á þskj. 460, verð ég að fara um þær nokkrum orðum. Ég hefi athugað frv., og tek ég það fram, að mér virðist það í ýmsu flausturslega samið. En hinsvegar hefi ég ekki viljað leggja hönd að því að búa til löggjöf um happdrætti, og því kem ég ekki með neinar brtt. til lagfæringar á því.

Í síðasta lið 1. gr. er heimilað að veita háskólanum einkaleyfið í 10 ár. En 2. gr. byrjar ekki, eins og þó hefði mátt vænta, á því að ákveða, hvernig að skuli fara, þegar leyfistíminn er útrunninn, heldur er þar talað um, hvað verða skuli, þegar háskólanum hafi aflazt nægilegt fé. Er í þessu nokkurt ósamræmi.

Þá er 2. gr. Þar stendur: „Hreinum ágóða af happdrættinu skal varið til þess að mynda sjóð, sem nefnist byggingarsjóður Íslands“ Þeir, sem frv. sömdu, hafa auðsjáanlega ekki veitt því eftirtekt, að til er sjóður með þessu nafni stofnaður 1925. Er óviðkunnanlegt að mynda með l. nýjan sjóð, er beri sama nafn.

Í 3. gr. eru bönn og refsiákvæði við brotum á þessum l. En um þetta eru til önnur l. frá 15. júní 1926, og banna þau nokkurnveginn það sama. Er þar lögð sekt við brotum á þegar gildandi l. En nú eru eftir þessu frv. lagðar aðrar sektir við sömu brotum. Hv. 2. landsk. flytur meira að segja brtt. um þessi sektarákvæði, þar sem þau eru færð enn fjær gildandi l. Eftir 1. frá 1926 er ákveðin 500—5000 kr. sekt við verzlun með happdrættismiða. Nú á samkv. frv. að færa þessa sekt niður í 200—2000 kr. og eftir till. hv. 2. landsk. niður í 10—2000 kr.

Þá flytur hv. 2. landsk. þá brtt. við 3. gr. frv., að það skuli „eigi teljast brot á l. þessum að selja hlutamiða happdrættis innan ákveðins félagsskapar“. Þetta ákvæði kemur sem álfur út úr hól. Frv. fjallar alls ekki um happdrætti innan ákveðins félagsskapar, heldur er hér um peningahappdrætti að ræða, og er ekki venja að hafa peningahappdrætti innan félaga. Lögin frá 1926 kveða alveg nógu nákvæmlega á um happdrætti innan félaga. Tel ég því enga bót á frv. að samþ. till. hv. 2. landsk., þó að sannarlega væri hægt að gera ýmsar endurbætur á því. Um innanlandshappdrættislán (síðari liður 2. brtt. hv. 2. landsk.) er það að segja, að ég er þeim alveg jafnmótfallinn og öðru peningahappdrætti hér á landi.

Ég mun að vísu greiða frv. atkv. mitt, en ég vildi þó sýna, að tekið hefði verið eftir þeirri hroðvirkni, sem frv. ber með sér.