09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins taka undir með meiri hl. fjhn. og vænti, að till. hans verði samþ. Að vísu get ég hugsað mér, að það mætti í þessu máli sættast með því, að hækkunin á fiskúrgangi félli niður, en fiskmjölið héldist í sama tolli og það er nú. Það hefir oft undanfarið verið óskað eftir hærri tolli á fiskúrgangi, til þess að jafna aðstöðu þeirra erlendu kaupmanna og innlendu fiskmjölsverksmiðja. Þessu hefir ekki verið sinnt fyrr en nú er fitjað upp á því. Ef till. meiri hl. fjhn. verða samþ., verður ekki um það kvartað, að aðstöðumunur sé hjá þessum innlendu verksmiðjum og útlendu kaupmönnum, því að hann er þar með jafnaður. (ÓTh: Á hverra kostnað?). Á þann hátt, að hvortveggja borgar jafnmikið til ríkisins af sinni framleiðsluvöru, og það er nú svo um þetta gjald, að það er meðal þeirra tekna, sem ríkið má ekki láta niður falla. Það er sá einfaldi sannleiki í þessu eins og svo mörgu öðru, að ríkið má ekki við að missa neitt af því, sem það hefir nú í tekjur. Það koma till. úr ýmsum áttum að fella niður þetta og hitt gjaldið, og því miður er ekki hægt að sinna neinum sérstökum till. af því tægi og því réttlátt að vísa þeim öllum frá, og þessari líka. Þó að fiskmjölið væri fellt niður, kæmi fram annað misrétti, og það er, að síldarmjölið ætti að standa undir óbreyttum tolllögum. Ef ætti að fikra sig áfram eftir þessari braut, mundi ekki vera numið staðar hér, heldur haldið áfram. Ég legg til, að till. meiri hl. verði samþ.