31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég á enga brtt. við fyrri hluta fjárl., sem ég þarf að mæla fyrir, og get því orðið fáorður. Ég vil taka undir það, sem hv. frsm. sagði, að það er sérstaklega nauðsynlegt að áætla tekjurnar varlega, því að það er augljóst, að oft og tíðum hefir fjárhagur þjóðarinnar beinlínis flotið á því. Að vísu get ég líka tekið undir það með hv. þm. Seyðf., að það eigi að áætla tekjurnar sem nákvæmast og næst hinu rétta og gjöldin líka. En það er eins og það vilji stundum gleymast að taka með í áætlunina 24. gr. fjárl. Það er þá ekkert áætlað fyrir gjöldum, sem heimiluð eru samkv. þeirri gr., þó að þau séu hér um bil alltaf um 1 millj. kr. og stundum á 4. millj. kr. Ef fjárl.áætlunin hefir staðizt þrátt fyrir þetta, þá er það af því, að tekjurnar hafa verið áætlaðar varlegar, en þær reyndust. En réttara væri að áætla fyrir þessari grein, t. d. um 1 millj. krónur.

Ég sé, að hv. 1. þm. S.-M. flytur till. um að af fé því, sem ætlað er til bryggjugerða og lendingarbóta, verði varið 3000 kr. til bátabryggju á Vattarnesi. En ég vil benda hv. þm. á það, að hv. fjvn. hefir ráðstafað öllu því fé, sem ætlað er í þessu skyni í fjárl. fyrir 1933 og 1934, og þess vegna er ekki hægt að taka þessa till. hans til greina án þess að það komi í bága við þessar ráðstafanir. (SvÓ: Það er ekki búið að samþ. þessar till. fjvn.). Nei, að vísu ekki. En hvernig á stj. að fara að, ef hvortveggja till. verða samþ. og heildarfjárveitingin til bryggjugerða verður ekki hækkuð? Þá vantar stj. fjárl.heimild fyrir 3000 kr. Þess vegna verður að hækka um leið útgjaldaheimildina samkv. aðalupphæðinni, eins og ég sé, að hv. þm. N.-Ísf. hefir gert í sambandi við brtt., sem hann flytur um styrk til bryggjugerðar í sínu kjördæmi.

Þá vildi ég athuga ummæli hv. 1. þm. S.-M. um Holtavörðuheiðarveginn, af því að ég hygg, að þau séu byggð á misskilningi, meira að segja frá hans sjónarmiði. Ég geri því ekki ráð fyrir, að þessi brtt. hans fái mörg atkv. Hann talaði um, að þessi vegur væri aðallega byggður fyrir farfugla, sem þeyttust um landið meira og minna að nauðsynjalausu. En þessu er ekki svo varið. Þetta er eina akvegasambandið milli stærstu landsfjórðunganna — Suðurlands og Norðurlands —, og ég þekki hvergi til þess, að eins brýn nauðsyn sé á vegarsambandi og yfir Holtavörðuheiði. Hv. 1. þm. S.-M., sem hefir svo mikinn áhuga fyrir bættum strandferðum, og þá sérstaklega auknum skipagöngum til Austfjarða, hann ætti einmitt að athuga það, að því fyrr sem vegarsambandið er fullkomnað milli Norður- og Suðurlands, þannig að hægt sé að draga úr skipaferðum milli þeirra landshluta, því fremur er hægt að miðla meira fé til samgangna við Austfirði, sunnan um land.

Þá var hv. 1. þm. Eyf. að spyrjast fyrir um úthlutun á atvinnubótastyrk til Siglufjarðarkaupstaðar. Ég get upplýst það, að á síðastl. ári mun þessi styrkur ekki hafa verið greiddur, vegna þess að fyrrv. stj. hafði litið svo á, að ríkisvaldið hefði þegar gert svo mikið fyrir Siglufjarðarkaupstað, með stofnun síldarverksmiðju ríkisins þar á staðnum, sem sérstaklega hlýtur að auka atvinnu fyrir Siglfirðinga. Um úthlutun atvinnubótastyrks á yfirstandandi ári, hefir enn enginn ákvörðun verið tekin.

Hv. þm. Ak. spurði eftir því, hvort stj. mundi ekki sjá sér fært að greiða 500 kr. styrk til deildar Rauðakrossfél. á Akureyri, sem niður hafði fallið að greiða fyrir árið 1931, af því að ekki var gengið eftir því fyrir fél. hönd. Get ég svarað honum því, að stj. hefir ekkert á móti því, ef hv. fjvn. mælir með því, þar eð um svo lága upphæð er að ræða. Og þó er það naumast hægt nema samkv. aukafjárveitingu á árinu 1933. En þar sem svo langt er um liðið, þá verður stj. að fá meðmæli hv. fjvn., og verði því ekki andmælt hér í umr. af hálfu hv. fjvn., þá mun stj. taka það svo, sem vilji n. sé fyrir þessari greiðslu, og taka það til greina.