06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2359)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. haldi, að þessir opinberu sjóðir séu margbrotnari en þeir eru í raun og veru. Sumir þeirra eru innstæður í söfnunarsjóði, og við þá þarf aldrei að leggja vexti árlega. En um hina stærri sjóði er ég á því máli, að sjálfsagt sé, að þeir séu endurskoðaðir.

Það var helzt að heyra, að hv. þm. vildi kenna mér um allar lánveitingar úr sjóðnum. Ég hefi þegar skýrt frá, að ég á lítinn sem engan þátt í þeim, enda er þessi tegund af sanngirni engum samboðin, nema hv. 2. þm. Reykv.

Um „vantraustið“ á skrifstofustjórann er það að segja, að Alþingi ræður engu um það, hverjir eru skrifstofustjórar í stjórnarráðinu, og hefir þar því hvorki afsetningar- né veitingarvald.

Hv. þm. fannst undarlegt, að gamalmennasjóður keypti fávitahæli. Ég sé ekkert undarlegt við það, að sjóðurinn leigi ríkinu jörðina með fullum vöxtum.

Það er tekið fram í samningnum, að kaupin séu bundin því skilyrði að fjárveitinganefndir þingsins samþykki rekstrarfé til fávitahælis. Ég veit engin dæmi þess, að mál, sem fjvn. beggja deilda hafa orðið sammála um, hafi verið fellt á Alþingi.

Ég skal ekki fara langt út í samtal okkar hv. 2. þm. Reykv. Hann lýsti yfir því, að hann ætlaði að ráðast á mig út af þessu máli, og var þá með sömu skrudduna og hann er með nú. Ég svaraði öllum spurningum hans greiðlega, en annars töluðum við mest um varalögregluna.

Hann spurði mig að því, hvort ég héldi, að hægt væri að nota byggingarnar í Reykjahlíð eftir 40 ár. Um þetta get ég ekki sagt, en býst jafnvel við, að svo verði ekki. En við því væri auðvitað ekkert að segja, ef sjóðurinn fengi sína vexti allan tímann. Ég ætla, að erfitt myndi að fá góða jörð húsalausa til slíkra afnota, og ég fyrir mitt leyti hefi hvergi séð eins vel og vandvirknislega frá öllu gengið og í Reykjahlíð.1)

1) Hér vantar mikið aftan af ræðunni. M. G.