31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinn Ólafsson:

Mér virðist reyndar sem hér sé tæplega messufært, en hinsvegar býst ég ekki við, að eftir betra sé að bíða með flutning þessara brtt., sem ég þarf að mæla fyrir. Þær eru tvær talsins. Önnur er á þskj. 296, XXXIII, þess efnis, að mag. Árna Friðrikssyni fiskifræðingi, verði veittar vegna ritstarfa og fyrirlestra 1200 kr., til vara 1000 kr. Þessi till. er flutt af sjútvn., og álítur hún, að þessi efnilegi vísindamaður, sem unnið hefir mikið og þarft verk í þágu útvegarins undanfarið, en ekkert að launum þegið, eigi þessa viðurkenningu fyllilega skilið. Ég verð að segja, að ekki þekki ég neinn af yngri menntamönnum vorum, sem látið hefir í té ríflegri skerf til íslenzkra fræðiiðkana á þessu sviði og til eflingar aðalatvinnuvegi landsbúa. Það er líka almennt viðurkennt, að hann hafi unnið mjög mikilsvert starf í þágu þjóðarinnar. Af vísindalegum ritstörfum hans má m. a. nefna stórmerkilegt rit nýútkomið, sem hann nefnir „Aldahvörf í dýraríkinu“, en einnig gaf Árni út á næst1. ári aðra bók, sem hefir komið í mjög góðar þarfir sjómönnum og öðrum þeim, er útveg stunda, en það er ritið: „Skarkolaveiðar Íslendinga og dragnótin“. Nefna má ennfremur, að 1930 var gefið út af Síldareinkasölu Íslands þriðja rit Árna um skyld efni og hin: „Áta síldarinnar“. Þessi bók hefir komið og mun koma veiðimönnum að miklu liði. Þar er því vendilega lýst, hvernig þekkja skuli og flokka síld eftir gæðum. Um þetta hefir ekki áður verið ritað á íslenzku svo ég viti. Að flokka síldina þannig, að full trygging fáist fyrir því, að hún sé fyrsta flokks vara, er gert eftir ákveðnum reglum, með því að athuga, hvaða teg. átu síldin hefir í maganum, en um þá rannsókn gefur ritið ljósar leiðbeiningar og kennir veiðimönnum að varast þær átutegundir, sem skaðlegar eru fyrir geymslu síldarinnar og spilla henni. Með leiðbeiningum rits þessa, ef til er gætt, eiga veiðimenn að geta fengið fyllstu tryggingu fyrir því, að síldin verði boðleg vara á erlendum markaði og skemmist síður. Öll fyrrgreind ritverk mag. Árna eru samin með það fyrir augum að greiða götu fiskimanna og búa betur í hendur þeirri stétt. Er mjög lofs- og launaverður áhugi hans fyrir þessum málum, og væri vissulega maklegt, að hann nyti þess sem unnið hefir, að einhverju leyti. Þá má og geta þess, að mag. Árni hefir flutt 28 útvarpserindi, flest um þetta efni, sem vakið hafa hina mestu athygli um land allt, bæði vegna áhuga hans sjálfs, sem komið hefir þar greinilega í ljós, og ekki sízt vegna þess, að erindin hafa yfirleitt verið mjög fræðandi og uppbyggileg. Allmarga fyrirlestra hefir hann líka haldið í Reykjavík og nágrenni hennar, flesta ókeypis, svo fremi mér er kunnugt.

Hið áðurnefnda rit um skarkolaveiðar Íslendinga og dragnótina gaf Árni út næstl. ár af eigin efnum, og hefir mér verið skýrt svo frá, að hann hafi ennþá eigi getað greitt nema helming prentunarkostnaðar, með afborgunum þó. Til þeirrar útgáfu var engu kostað af opinberu fé. En „Aldahvörf í dýraríkinu“ voru gefin út af Menningarsjóði.

Ef athuguð er 15. gr. fjárlfrv. og framlög, sem þar eru ætluð einstökum mönnum, þá virðast þar taldir allmargir, sem ekki eiga ríkari rétt en Árni til styrks af opinberu fé. T. d. má nefna Þórberg Þórðarson. Honum eru ætlaðar 1600 kr. til samtínslu orða úr alþýðumáli, og í 31. lið 15. gr. eru M. Ásgeirssyni ætlaðar 1200 kr. til ljóðaþýðinga. Ekki má skilja orð mín svo, að ég geri lítið úr slíkri starfsemi, en hinsvegar finnst mér hún sízt rétthærri en vinna Árna Friðrikssonar. Mag. art. Ólafi Marteinssyni eru í þessari sömu grein ætlaðar 1000 kr. til vísnasöfnunar. Munu þeir ljóðelskir menn þó margir á landi hér, sem eiga í fórum sínum þúsundir ferskeytlna, og ekki virðast styrkþurfar vegna þess. Oddur Oddsson er einnig talinn í 15. gr. með 400 kr. til ritstarfa, er litlu munu fá áorkað til þjóðþrifa, og ennfremur eru þar ætlaðar 800 kr. til þess að Páll Þorkelsson geti unnið að málsháttasafni sínu, sem telja verður þó fremur ófrjótt starf.

Tilgangur minn er ekki að mæla gegn styrkjum þeim, sem ég hefi hér nefnt. Hitt vildi ég sýna með samanburði, að ekki ættu þeir meiri rétt á sér en till. sjútvn. um styrk til Árna Friðrikssonar, og vil ég f. h. n. mælast til þess, að honum verði sýnd þessi réttmæta viðurkenning fyrir vel unnið og nytsamt starf. Um það ætla ég svo ekki að fjölyrða frekar, enda hefir Árni sjálfur vakið þá eftirtekt með starfi sínu, að einhlítt ætti að vera til framdráttar þessari litlu till. nefndarinnar.

Þá kem ég að till. í tölulið LIV. á þskj. 296. Þá till. flyt ég ásamt hv. þm. Seyðf., og lýtur hún að því að heimila ríkisstj. að ganga í ábyrgð fyrir samvinnufélög á Eskifirði og Seyðisfirði á lánum til fiskiskipakaupa. Til Eskifjarðar 120000 kr., en til Seyðisfj. 100000 kr. Í báðum tilfellum er ráð gert fyrir, að hlutaðeigendur leggi fram sjálfir a. m. k. 1/5 hluta kaupverðsins. Í till. er tekið fram, að þetta sé endurveiting, og svo er það um hvorttveggja. Í fjárlögum 1931 var stj. heimiluð ábyrgð á allt að 90000 kr. láni til handa samvinnufél. á Eskifirði, en heimild þessi var aldrei notuð, með því að stj. taldi tryggingar félagsins ónógar, og fórst þá fyrir áform það, sem tekið hafði verið, um að koma á fót samvinnuútgerð. Í fjárl. 1932 var þessi heimild endurveitt og hafði þá verið færð niður í 50000, en einnig fór þá á sama veg og fékkst ekki ábyrgðin. Að vísu var myndað samvinnufélagið, og hélt það úti 2 bátum, en fyrirtækið var févana og of þróttlítið til þess að geta staðizt kreppuna, sem með ofurþunga lagðist þá yfir öll atvinnufyrirtæki á sjó og landi.

Um Seyðisfjörð er líkt á komið: heimild var fyrir 100000 kr. lánsábyrgð þangað í fjárl. 1931, en var aldrei notuð.

Oft er búið að minnast á það á undanförnum þingum og ráða ráðum um það, hvernig taka eigi svona málum og firrast vandræði. Í þessum sveitum, sem eru tiltölulega fjölmennar, er fyrirsjáanlegt, að alla bjargráðaviðleitni ber upp á sker, ef engar fást atvinnubætur, og ber neyðin þá að dyrum flestra fyrr en varir. Hér var á Alþingi fyrir nokkrum árum ráðizt í sviplíkar framkvæmdir á Ísafirði með lánsábyrgð fyrir útgerðarmenn. eins og nú er óskað eftir fyrir Eskifjörð og Seyðisfjörð, og er engum blöðum um það að fletta, að árangurinn af því hefir orðið mjög góður. Víst er það, að ástæður Ísafjarðarkaupstaðar hafa stórum batnað frá því, er á horfðist 1929, og ég hefi fyllstu ástæður til þess að vona, að eins vel gefist á þeim tveim stöðum, sem ég ber fyrir brjósti. En horfurnar þar eru sem stendur mjög ískyggilegar, svo að verði ekki hægt að gera ráðstafanir til þess að létta þeim útvegun skipanna, má eigi sjá hvar lendir. Þessi leið, með útvegun vandaðra veiðiskipa, finnst mér bæði líklegri til góðs árangurs og hyggilegri í alla staði heldur en að veita bein hallærislán, eins og stundum hefir gert verið til að forða fólki frá hungri. Hv. þm. munu þekkja nokkur dæmi þessháttar ráðstafana frá fyrri tíð víðsvegar af landinu.

Eina rétta leiðin í þessum efnum er að hjálpa mönnum til þess að hjálpa sér sjálfir, og mun Ísafjörður, eins og nú horfir, bera þess ljósastan vott.

Um þetta ætla ég ekki að fjölyrða frekar að sinni, en hv. meðflm. minn mun hafa ýmsar fyllri skýringar málsins tiltækar.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég fara fám orðum um eina brtt. hv. fjvn. Hún mun vera við 15. gr. og þess efnis, að niður falli 800 kr. fjárveiting til útgáfu þjóðsagnasafns Sigfúsar Sigfússonar. Ég get nú vel skilið, er ég lít yfir niðurskurð nefndarinnar, að henni hafi þótt þessi veiting hliðstæð öðrum, sem n. lagðist á móti. En ómaklegt með öllu var olnbogaskot það, er nefndin gaf höfundinum, þegar hún lýsti því yfir í áliti sínu, að styrkveitingin félli niður fyrir það, að safnið væri ómerkilegra en ætlað hefði verið, í stað þess að fella styrkinn niður ádeilulaust, eins og aðrar hliðstæðar fjárveitingar. Ég verð að segja, að mér finnst þetta óþörf og óvarleg yfirlýsing hjá n. Það hæfir ekki að leggja sama mælikvarða á þjóðsagnasafn og vísindarit og enginn dómhæfur mun svo að fara.

Það, sem út hefir verið gefið af safni Sigfúsar undanfarin ár, er spegilmynd af hugsunarhætti og hjátrú fyrri tíma manna. Flest þjóðsagnasöfn hafa þetta mark á sér, ella væru það ekki þjóðsagnir. Hér er ekki um hliðstæðan styrk að tefla við suma þá styrki aðra, sem fjvn. leggur til, að felldir verði niður úr frv., heldur aðeins um 1/4 af útgáfukostnaði safnsins að ræða. Hinir 34 eiga að koma annarsstaðar frá.

Nú er verið að gefa út þann hluta safnsins, sem útgengilegastur mun reynast. En það, sem út hefir verið gefið, hefir að vísu selst treglega, og er það m. a. af því, að í þeim hluta safnsins eru einkum hindurvitna- og hjátrúarsögur, sem almenningur hefir ekki lengur smekk fyrir og kærir sig því ekki um að lesa. En þetta efni allt verður þó að taka fyrir og safna því í heild, ef vel á að vera, svo að það liggi á aðgengilegan hátt fyrir þeim, er síðar leggja stund á þjóðsagnafræði á vísindalegan hátt. Ella myndi safnið að minna liði verða og „mynd“ liðins tíma óskýrari. Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Mér fannst ég verða að eyða að þessu nokkrum orðum, sérstaklega af því, að ómaklega var beint hnútum að gamla manninum, sem helgað hefir alla æfina óeigingjörnu starfi við söfnun og útgáfu þessara fjölbreyttu rita. Menn, sem kunna að meta starf þessa höfundar, leggja fram 3/4 kostnaðar til útgáfunnar. Tel ég víst, að þeir geri það af því að þeim þyki safnið þess vert að vera gefið út, en ekki af tillátssemi við höfundinn. Ég vil því mælast til þess — enda þótt ég leggi ekki kapp á það —, að þeir hv. þdm., sem eins og ég telja þetta verk ekki þýðingarlaust, greiði atkv. gegn till. n. Ég greiði hiklaust atkv. gegn till. um að fella þennan lið niður.