05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2504)

119. mál, stjórn varðskipanna

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins fá orð, sem ég þarf að víkja til hv. þm. N.-Þ. Hann álítur, að það væri hægt fyrir íslenzku stjórnina að vísa danska varðskipinu ti1 skipaútgerðarinnar. Ég get vel trúað því, að hv. þm. álíti þetta, en ef hann þekkti eitthvað til, mundi hann líta öðruvísi á þetta. Hinir dönsku varðskipsforingjar líta þannig á þetta, að þeir standi beint undir dómsmálaráðuneytinu og þeir séu ekki skyldugir til að fara neitt annað til þess að fá fyrirskipanir, en ef þetta fyrirkomulag, sem stungið er upp á í þál.till., er tekið upp, þá mundi það aðeins verða til þess að skapa óþarfa millilið í þessu máli, sem ég sé ekki, að sé neitt hagræði að.

Ennfremur sagði hv. þm. N.-Þ., að þessi umsögn slysavarnafélagsins hlyti að vera hlutdræg. Ég get ekki skilið, hvernig hann leyfir sér að álíta, að slysavarnafélagið skrifi svona bréf, ef það álítur, að slysavörnunum sé verr komið en áður. Hann sakar með þessu slysavarnafélagið um að svíkjast um að rækja mannúðarverk, sem það hefir tekið að sér. Ég finn ekki ástæðu til þessa. En hitt veit ég, að slysavarnafélagið hefir aldrei fyrr mætt eins mikilli samúð og hjálpfýsi eins og hjá skrifstofustjóra, og það segir, að bezt sé að ná í hann allra manna, sem það hefir átt við í þessu efni, og er það af þeirri einföldu ástæðu, að hann er venjulega annaðhvort heima hjá sér eða þá í stjórnarráðinu, eða þá á leiðinni fram eða aftur.

Þá nefndi hv. þm. samningana um björgunarlaunin og sagði, að þau hefðu verið hærri 1931 heldur en síðar. En hvað sannar þetta? Eins og skipströnd séu jafntíð á hverju ári. (BKr: Ég meinti ekki þetta). Það var þetta, sem hv. þm. sagði, og að það hefði verið samið um lægri björgunarlaun. (BKr: Það var það, sem ég meinti). En heldur hv. þm., að það sé sama að bjarga í öllum tilfellum? Heldur hann, að það sé alltaf jafnerfitt að bjarga? Hvaða sanngirni er í því? Þessu getur enginn maður haldið fram með neinni sanngirni. Að því er snertir samningana um björgunarlaunin, þá er það frekar skrifstofustjórinn, sem er lögfræðingur, sem getur útbúið þá, heldur en ólögfróður maður. En það er venjulega svo, að skrifstofustjórarnir gera samning við hlutaðeigandi skip áður en björgunin fer fram. En stundum er það ekki hægt að gera samning, því að það þarf þá að vinda svo bráðan bug að björguninni, en þegar það er gert, er alltaf fenginn lögfræðingur til að gera þann samning.

Það hefir auðvitað komið fyrir síðan stjórnarskiptin urðu, að varðskip hafi bjargað öðrum skipum, og í vetur var í blaði einu sveigt að því, að það hefði verið klaufaskapur, að ekki var bjargað skipum, sem strönduðu einhversstaðar í N.-Þingeyjarsýslu. Þar urðu 2 strönd með stuttu millibili. Okkar varðskipum heppnaðist ekki að ná þeim út, en svo var sent enskt skip, og reyndi það í nær því heilan mánuð, og heppnaðist ekki heldur. Það er jafnan svo, að það er undir hælinn lagt hverju er hægt að bjarga. Það er ekki undir manninum hér í Rvík, sem hefir á hendi yfirstjórn skipanna, komið, hvort tekst að bjarga, heldur þeim mönnum, sem fást við það, og auðvitað aðallega hinu, hvernig strandið hefir borið að, hve langt skipið er komið upp og hvernig botninn er.

Svo sagði hv. þm., að aðalatriðið fyrir sér í þessu efni hefði verið borgunin til skrifstofustjórans. Ja, öðruvísi mér áður brá. Hv. þm. hefir aldrei fyrr en nú talið, að það væri rangt að borga þetta. Það er búið að borga þetta í 5 ár af mínum fyrirrennara, hv. 5. landsk., sem er fylgismaður hv. þm. N.-Þ., jafnvel þó að starfið hafi alls ekki verið unnið. Þá sagði hv. þm. ekki nokkurt orð, svo það eru býsna ólíkar kröfur, sem hv. þm. gerir til mín eða fyrirrennara míns í þessu efni.

Það, sem hv. þm. ætlast til með þessu, er ekki annað en að það sé ofurlítið breytt til, til hins verra. Annars er þetta fyrirkomulagsatriði, sem ekki heyrir undir þingið, og það er rétt að vísa þessari till. til stjórnarinnar. En að því er borgunina snertir, þá fer það náttúrlega eftir samningi, hve mikil hún er, og það er ekki að búast við því, að nokkur vilji gera þetta fyrir ekki neitt, því að það er oft, sem sá er starfinu gegnir, er vakinn upp á næturþeli, og þá verður kannske að senda skeyti í allar áttir. Og þau símskeyti koma sannarlega eins til skila, þó að það sé skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, sem sendir þau, eins og einhver annar hefði gert það.