02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

80. mál, dýralæknar

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þessu frv. er ætlað að gera þá breyt. eina á gildandi l., að dýralæknar skuli vera fimm, í stað þess, að nú eru þeir fjórir. Svo er kveðið á, að tveir skuli vera í Sunnlendingafjórðungi, en nú er einn dýralæknir í fjórðungi hverjum.

Af grg. má sjá það, að þessum nýja lækni er ætlað að hafa aðsetur á Suðurlandsundirlendinu, og má gera ráð fyrir, að aðsetursstaður hans verði nálægt Ölfusá, þar sem byggðin er þéttust. Suðurlandsundirlendið heyrir nú undir dýralækninn í Reykjavík. En eins og gefur að skilja, hefir hann ákaflega erfiða aðstöðu til að gegna lækningum fyrir austan fjall. Fyrst og fremst er það, að hann mun vera ákaflega störfum hlaðinn hér, a. m. k. hefi ég heyrt hann sjálfan segja, að hann hefði meira en hann gæti komizt yfir. Auk þess eru samgöngur yfir fjallið að vetrinum mjög örðugar, enda mun læknisins lítt eða ekki vera vitjað á þeim tíma. Hinsvegar þarf enginn að efast um, svo framarlega sem hann áliti nokkurs virði að hafa dýralækna, að á þessu svæði sé þess mikil þörf. Í því efni get ég látið nægja að mestu leyti að vísa til grg. frv., sem er allýtarleg. Þar sést, að um ¼—1/5 hluti af öllu sauðfé á landinu er á þessu svæði, þ. e. í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, rúmur ¼ hluti kúa á öllu landinu, og um ¼-1/3 allra hrossa á landinu.

Það liggur því í augum uppi, að þessi dýralæknir mundi hafa meira að gera en flestir dýralæknar nú, óhætt að segja allir, að lækninum í Reykjavík undanteknum.

En auk þess hvað skepnufjöldinn er mikill, þá má benda á, að mjólkurframleiðslan er orðin svo að segja höfuðatvinnuvegur á miklum hluta þessa svæðis.

En það munu menn sammála um, að einmitt í sambandi við mjólkurframleiðslu sé dýralækna mest þörf. Er ekki ólíklegt, að það geti haft nokkur áhrif fyrir mjólkursöluna á þessu svæði, að unnt sé að hafa eitthvert dýralækniseftirlit með kúnum.

Það virðist því allt bera að sama brunni um fullar ástæður til að taka þessa till. til greina. En menn kynnu að spyrja, hvort nokkuð þýddi að setja slíka löggjöf, vegna þess að enginn maður sé til í landinu, sem tekið gæti starfið að sér. Það mun vera svo, að allir, sem hafa numið dýralækningar, eru í embættum. En þar til er því að svara, að fyrst og fremst er ekki ósennilegt, að einhverjir af þeim dýralæknum, sem nú eru í embætti, mundu vilja sækja í þetta embætti. Ég verð að segja það, að það myndi borga sig, þótt eitthvað af þeim embættum, sem nú eru fyrir, ættu að standa laus dálítinn tíma, til þess að fullnægja þörf á lækni á þessu svæði. Það er einnig vitað, að tveir menn eru að því komnir að taka próf í dýralækningum, svo að ekki er mikil hætta á, að neitt embættanna stæði laust til langframa.

Landbn. hefir haft þetta mál til meðferðar, og eru a. m. k. tveir nm. sammála um að mæla eindregið með því, að frv. verði samþ. Þriðji nm., hv. 3. landsk., hefir skrifað undir nál. með fyrirvara og gerir sennilega grein fyrir því, í hverju hann er fólginn.