11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1934

Ólafur Thors:

Mig furðar stórlega á þolinmæði hv. þm. að standa hér yfir tómum bekkjum og flytja langar, skörulegar og vel samdar ræður fyrir till. sínum. Ég vil út af þessu skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki sé rétt að fella niður bæði 2. og 3. umr. um fjárl., en láta í þeirra stað nægja, að tillögunum fylgi stutt og laggóð greinargerð. Þá mundi frekar vissa vera fyrir því, að þm. kynntu sér þau rök, sem styðja till., heldur en nú, þegar svo að segja enginn heyrir ræðurnar nema flm. sjálfir. Ég vil nú sjálfur lifa eftir þessari reglu og flytja stutt erindi hér í dag. Ég á hér eina brtt., sem ég er einn flm. að, að Guðmundur Kamban, sem felldur var við 2. umr., verði nú settur inn aftur, með 1800 kr. í stað 2000. Ég hefði sjálfur æskt þess, að hægt væri að veita honum 2000, en þingsköpin heimila ekki, að það sé tekið upp aftur. Ég vil nú skýra fyrir hv. fjvn., að það var ekki á réttum rökum byggt, er hún lagði til, að þessi styrkur félli niður, eða a. m. k. eru þau nú ekki til lengur, því að hv. n. sagði, að Guðmundur Kamban ætti við svo góð launakjör að búa í stöðu sinni við Konunglega leikhúsið í Khöfn, að hann væri alls ekki styrks þurfi. En nú er sú sæla úti, því að Guðm. Kamban er nú búinn að missa þessa stöðu vegna kreppuráðstafana þeirra, sem leikhúsið hefir þurft að framkvæma. Þetta geta hv. þm. sannprófað sjálfir, með því að afla sér Politiken 31. marz, og lesið um þetta þar. Vona ég svo, að þetta verði tekið til greina og verði nógu þungt á metunum til þess, að styrkurinn til Kambans verði settur inn aftur.

Þá flyt ég ásamt þm. Borgf. eina brtt. þess efnis, að styrkur til flóabátaferða verði færður upp um einar 300 kr. Þessar 300 kr. eru ætlaðar sem framlag til styrktar Hvalfjarðarbátnum. En rökin fyrir þessu eru auðflutt og auðskilin. Bátur þessi hefir síðastl. ár farið 110 eða 120 ferðir, í stað 30 eins og til er ætlazt, og þessa viðbót hefir hann lagt á sig án allrar aukalegrar fjárhagsaðstoðar af ríkissjóðs hálfu. En nú er það bráðnauðsynlegt fyrir bændurna þar um slóðir, að svona tíðum ferðum sé haldið uppi, vegna þess hve mjög þeir þurfa að bæta og halda í mjólkurmarkaðinn. En þeir geta alls ekki öðlazt góða aðstöðu til þessa, nema hækkað sé framlagið úr ríkissjóði, þó ekki sé meiri hækkun um að ræða en þessar 300 kr., sem till. okkar fer fram á. Þessar ástæður vona ég að séu fyllilega verðar þess, að teknar séu til greina.

Ég er reyndar á fleiri till., ásamt ýmsum hv. þm., en mun láta þá um að tala fyrir þeim. En eins vil ég geta enn, og það er, hve mjög mér sárnaði ummæli hv. 1. þm. S.-M. um Eimskipafélag Íslands. Ég býst við, að hv. þm. muni sjálfur sjá, áður langt líður, hversu ósanngjörn orð hans eru, því fremur, sem örðugar fjárhagsástæður félagsins munu að miklu leyti af þeim rótum runnar, að fél. hefir haldið uppi fleiri tapferðum einmitt til Austfjarða en það með góðu móti gat risið undir.