11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Ólafsson:

Ég og hv. samþm. minn eigum nokkrar brtt. við þessa umr. fjárl. á þskj. 366 og 376.

Þær till., sem við berum fram, eru þess eðlis, að þær skipta ríkissjóð litlu, en hinsvegar mega þær kallast stórmál fyrir þá menn, sem í hlut eiga. Þar sem svo er ástatt um þessar till. okkar, vænti ég þess, að þdm. meti þetta og samþykki tillögurnar.

Fyrsta till. er á þskj. 366,VII, við 12. gr., þess efnis, að hjónunum Finnboga Sveinssyni og Sæunni Sæmundsdóttur á Velli í Hvolhreppi verði veittur 1000 kr. styrkur til hælisvistar handa fávita syni þeirra. Það er svo ástatt um þessi hjón, að þau hafa nú í 12 ár barizt við að halda sér frá sveitinni. Er hann 67 ára, en efni þeirra að þrotum komin, enda hafa þau haft fyrir mörgum ómögum að sjá, svo að ekki liggur annað fyrir en að þau verði að fara á sveitina, ef þau fá ekki þennan styrk til að koma þessum fávita sínum á hæli. Er gert ráð fyrir, að meðgjöfin með honum á hælinu verði 100 kr. á mánuði, og mundu þau þá verða að leggja 200 kr. frá sjálfum sér, ef till. yrði samþ. — Þessi hjón eru alls góðs makleg af því opinbera og hafa lagt á sig harðræði um mörg ár, til þess að þurfa ekki að verða öðrum til byrði. Pilturinn er kraftamikill, og er því erfiðara að meðhöndla hann, sem lengra líður og hann eldist. Vænti ég, að dm. líti á þetta og láti þessi fátæku hjón njóta þess, að þau hafa lagt svo að sér til þess að komast hjá að fara á sveitina. Slík viðleitni er hin virðingarverðasta, og væri betur, að hún væri víðar og meir uppi í hugum manna slík hugsun á þessum síðustu og verstu tímum. — Ég skal geta þess, að ég hefi hér liggjandi hjá mér vottorð hlutaðeigandi læknis og sýslumanns, sem staðfesta það, sem ég hér hefi sagt um efnahag þessara hjóna og veikindi sonar þeirra.

Næsta brtt. okkar er á sama þskj., XVI. um 3000 kr. fjárveitingu til Hvolsvallarvegar, en eftir að hafa talað við atvmrh. og vegamálastjóra um till., sem hafa lofað styrk til að bæta úr þessum vegleysis kafla austur frá, höfum við fallizt á að taka till. aftur.

3. brtt. okkar á þessu sama þskj., XXIV, fer fram á það, að Jóni Gissurarsyni verði veittur 800 kr. styrkur til lokanáms í verzlunarfræði erlendis. Höfðum við borið fram till. um hærri styrk til handa þessum sama pilti við 2. umr., en sú till. okkar var felld. Alþingi hefir styrkt þennan pilt tvívegis áður, sem hefir gert honum kleift að halda áfram námi, því að foreldrar hans eru ekki svo efnum búnir, að þau geti styrkt hann. Hefir hann bjargazt við ríkisstyrkinn og það, sem hann hefir getað fengið að láni, en nú er fokið í flest slík skjól, og er ekki annað sýnna en að hann verði að láta af námi og við að taka próf í grein sinni, svo langt sem hann þó er kominn, ef hann fær ekki þennan styrk, en prófið mundi gefa honum frekar aðstöðu til að vinna fyrir sér og vinna af sér smátt og smátt þær skuldir, sem hann er kominn í vegna náms síns og töluverðar eru. Ég vænti þess því fastlega, að hv. þdm. láti þennan pilt ekki synjandi frá sér fara í þetta sinn frekar en áður, enda er það áreiðanlega í síðasta sinn nú, sem þessi piltur fer fram á slíkan styrk sér til handa.

Þá eigum við eina brtt. á þskj. 376,XVII, við 16. gr., þess efnis, að Búnaðarbankanum verði greiddar 2500 kr. til greiðslu á viðlagasjóðsláni frá 1928 til byggingar gistiskála á Múlakoti í Fljótshlíð. Þegar þetta lán var veitt, 1928, var það töluvert uppi, að gistihús, sem reist voru á sérstökum stöðum, sem nauðsynlegt þótti, að gistihús væru á, vegna útlendra og innlendra gesta, væru styrkt með ríkissjóðsframlögum eða viðlagasjóðslánum. Múlakot í Fljótshlíð þótti hið bezta fallið til að verða gistihús, sérstaklega ef til vill fyrir hinn frábæra dugnað og elju húsmóðurinnar heima á búinu fyrir garðrækt allri, svo að Múlakot bar að þessu leyti af öðrum býlum. Þetta varð til þess, að viðlagasjóðslánið, sem hér er farið fram á að gefa upp, var veitt með fúsu geði. Heimilið þótti sérstaklega verðlaunavert fyrir þessa starfsemi húsmóðurinnar til að fegra og prýða heima á búinu. Nú er svo komið fyrir ágang Þverár, að lítur út fyrir, að ekki þurfi þess lengi að bíða, að áin brjóti niður mikið af landinu upp undir bænum. Tvö síðastl. sumur hefir ekki verið bílfært heim að bænum, af því að áin tekur farveg sinn svo nærri, að hann er of djúpur fyrir bíla, svo að að bænum er ekki fært nema á hestum. Af þessum ástæðum eru menn hættir að sækja gistingu til Múlakots, og eins að hafa þar sumardvalir, svo sem áður tíðkaðist, og er hjónunum þar því horfin sú tekjulind, sem þeim var að þessum ferðum.

Svo hefir verið um þau lán frá þessum tímum, sem ég áður talaði um, að sumpart hefir orðið að gefa þau upp með öllu og sumpart að hjálpa til að greiða þau. Nú nýlega var þannig samþ. hér í þinginu að gefa eftir lán, sem á sínum tíma hafði verið veitt einum af listamönnum okkar, og hefir Alþingi þar með gefið fordæmi um eftirgjöf á lánum frá svipuðum tíma og það lán er, sem hér er farið fram á, að gefið verði eftir. Um svipað leyti og áðurnefnt lán var veitt til gistihúss í Múlakoti var veittur allsæmilegur styrkur af opinberu fé til gistihúss á Ásólfsstöðum, sem var rökstuddur á sama hátt og lánveitingin til Múlakots, enda er ekki vafi á því, að hægt hefði verið að fá þetta sem beinan fjárstyrk þá, ef fram á það hefði verið farið. Þetta var þó ekki gert, og eins og fyrr segir, eru menn hættir að taka gistingar í Múlakoti, svo að endurbæturnar þar koma aðeins að notum til heimilisþarfa. Heimilið í Múlakoti hefir haldið uppi listamönnum um langt skeið, og þótt þeir séu góðir, afla þeir sér ekki þeirra tekna, sem vera skyldi, og má því líta á þessa eftirgjöf í raun og veru sem gerða í þágu listarinnar, eins og hina eftirgjöfina, sem ég nefndi áður. Heimilið í Múlakoti er að góðu kunnugt, og veit ég, að margir bera hlýjan hug heim þangað, og þar sem ástæðurnar þar eru eins og ég hefi lýst, þykist ég mega vænta þess, að hv. þdm. líti á þessa till. með velvild og greiði henni atkv.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um till. okkar samþm. að þessu sinni. Þær till. okkar, sem hv. samþm. minn er fyrri flm. að, mun hann reifa, svo að ég get leitt þær hjá mér. Áður en ég sezt niður vil ég þó gefa áherzlu þeim orðum, sem hv. 1. þm. S.-M. mælti hér áðan út af þeirri till. hv. þm. Ak. að fella niður styrkinn til Ríkarðs Jónssonar. Styrkurinn, sem Ríkarður Jónsson hefir haft, var honum veittur til þess að halda uppi skóla í teikningu og útskurði í þjóðlegum stíl, enda hefir Ríkarður haldið uppi þessum skóla ávallt meðan hann hefir haft styrkinn, nema eitt ár, sem hann var veikur og varð að sigla sér til heilsubótar. Hefir og Ríkarður og skóli hans látið eftir sig marga minjagripi, sem hafa æ því meira gildi sem lengra líður frá. Er margt merkilegra smíðisgripa eftir Ríkarð til víðsvegar um land, og ég veit um 3 slíka gripi, sem sendir hafa verið útlendum mönnum að heiðursgjöf og eru í mesta uppáhaldi á heimilum þeirra. Er sjálfsagt að styðja á allan hátt, sem unnt er, þennan listamann, sem er svo slyngur í sinni listgrein, að enginn hérlendra manna a. m. k. jafnast á við hann, og svo er alhliða, að hann jafnt teiknar, sker út og hnoðar leir til myndagerðar, og yfirleitt leggur gerva hönd á flestar þær listgreinar, sem beztar eru í landinu. Eins og hv. l. þm. S.-M. gat um, hefir Ríkarður kennt hér að búa til handtöskur, sem þykja gerðar af slíkri list, að fjöldi fólks sækist eftir bæði að eiga þær og eins að búa þær til, enda eru þær þegar orðnar mjög útbreiddar. Geri ég ráð fyrir, að þessi grein ein muni verða svo mikils virði fyrir þjóðina, að hún eigi eftir að borga þann litla styrk, sem Ríkarður Jónsson hefir notið til skóla síns, margfaldlega, enda vona ég, að hv. þm. Ak. hafi aðallega borið þessa till. sína fram til að sýna, að hann vill, að öllum listamönnum sé gert jafnt undir höfði. Má og vel vera, að sá listamaður, sem hv. þm. Ak. ber fyrir brjósti, sé alls góðs maklegur, þótt ekki þekki ég það. — Í þessu sambandi vil ég drepa á þá till. hv. þm. Ak. að fella niður styrkinn til Guðmundar frá Mosdal. Hefi ég sannar sagnir af því, að þessi listamaður heldur uppi skóla í listgrein sinni á Ísafirði við góðan árangur, og þótt hann sé ef til vill ekki eins mikill listamaður og Ríkarður Jónsson, er hann þó svo mikill listamaður í sinni grein, að það má ekki koma fyrir, að styrkurinn til hans verði felldur út úr fjárl. Vona ég og, að hv. d. líti sömu augum á styrkinn til þessara mætu listamanna og ég og hv. 1. þm. S.-M. og felli þessar niðurskurðartill. hv. þm. Ak.