11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

1. mál, fjárlög 1934

Jörundur Brynjólfsson:

Ég býst nú fremur við því, að það sé tilgangslítið að fjölyrða um brtt., því nú sem oftar við umr. um fjárl. eru þeir fáir, sem á hlýða.

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. um það, að þingið veiti 20 þús. kr. til lendingarbóta á Eyrarbakka. Reyndar við nánari athugun býst ég við, að ekki sé þörf á þessari brtt., þar sem ríkisstj. er heimilt samkv. bráðabirgðaákvæði í lögunum um lendingarbætur á Evrarbakka að verja fé til þessara umbóta, þegar vissa er fengin fyrir fjárframlagi á móti og teikning hefir verið gerð af mannvirkinu. Nú er til þessara lendingarbóta fengið loforð um 20 þús. kr. framlag. Sýslusjóður leggur fram fé og kaupfélag Árnesinga, sem þegar hefir byrjað á bryggjugerð á Eyrarbakka. Þá þykist ég vita, að Landsbanki Íslands muni leggja fram fé til þessa mannvirkis. Hann á þarna mikilla hagsmuna að gæta, því að hann á eignir, sem liggja að lendingunni.

Mér þætti mjög æskilegt að fá að vita, áður en þessari umr. er lokið, hvort hæstv. dómsmrh. sæi sér ekki fært að verja þessu fé til þessara umbóta, ef fé er annars fyrir hendi til þess í ríkissjóðnum. Þörfin á lendingabótum þarna er mjög brýn, því að með hverju ári spillist lendingin. Ölfusá ber stöðugt mikinn sand fram í lendinguna, svo að skipalægi, sem áður var allgott innan við skerjagarðinn, er nú orðið svo mjög spillt, að bátar geta nú orðið ekki komizt að bryggjunni, nema um háflóð, og þó ekki nema að bryggjusporðinum. En fyrst eftir að bryggjan var byggð gátu stórir bátar, fullhlaðnir, farið lengst upp með henni, þegar hásjávað var. Ég vona, að ráðh. gefi þá yfirlýsingu, að féð sé fáanlegt til þessa mannvirkis, svo framarlega sem það er til.

Þá er önnur till., sem ég leyfi mér að bera fram, um að hækka styrkinn til sandgræðslu, vegna sandvarnargarðs fyrir Óseyrarneslandi. Svo er mál með vexti, að í vetur braut sjávarflóð sandvarnargarðinn á Eyrarbakka, sem liggur í vestur í áttina til Óseyrarness. Þessi garður er 20 ára gamall, og ef honum er ekki haldið við, getur hann eyðilagzt á skömmum tíma, og er því mikil nauðsyn á að endurbæta hann. Hið opinbera hefir lagt fram fé í þessu skyni, og ég vænti þess fastlega, að það láti það ekki niður falla nú. Því að ef garðinum er ekki komið upp, þá geta orðið þarna hin mestu spjöll.

Þá hefi ég borið fram brtt. um, að það verði sett að skilyrði fyrir fjárveitingu til kaupa á gervilimum, að þau fari fram innanlands. Um nokkurra ára skeið hefir verið veittur nokkur styrkur í þessu skyni, en mikið af þessum peningum hefir farið út úr landinu. Nú höfum við ágætan smið, sem farið hefir til útlanda á síðasta ári til þess að kynna sér ýmsar nýjungar í þess háttar smíði. Þeir, sem hafa fengið hjá honum þessa smíðisgripi, hafa sagt, að þeir gefi ekki eftir samskonar gervilimum frá útlöndum. Þó að mönnum kunni að þykja gervilimir þessir dýrir hjá honum, þá er verð þeirra þó ekki nema 2/3 hlutar af því, sem þeir kosta erlendis. Auk þess kostar utanferðin sjálf til gervilimakaupa, ef menn þurfa að sigla til þess, ekki minna en 600—800 kr.

Þá flyt ég einnig till. um það, að sá styrkur, sem hann fær í þessa árs fjárl., verði látinn halda sér árið 1934, þ. e. 1600 kr., sem stj. færði niður í 1200 kr. En það mundi verða til þess, að maðurinn hætti algerlega þessari iðn um næstkomandi áramót. Þetta er seinunnið smíði, og tækin til þess eru dýr. Auk þess verður hann að gegna strax, þegar menn koma til hans utan af landi í þessum erindum. Þessu starfi er því svo háttað, að örðugleikar eru miklir á því að gegna föstu starfi samhliða því. Þetta gerir það aftur að verkum, að tekjurnar verða reitingssamar.

Þá hefi ég, ásamt hv. 4. þm. Reykv., borið fram brtt. um að veita Ferðafélagi Íslands 1000 kr. Þetta er hinn merkasti félagsskapur, og hefir starfað um nokkur ár. Fyrst má nefna það, að félagið hefir látið reisa sæluhús í óbyggðum landsins, sem koma ferðamönnum, sem um fjallvegu fara, að miklu gagni á hvaða tíma árs sem er. Þessi hús eru ágætlega gerð. Má í því sambandi nefna sæluhúsið fyrir ofan Hvítárnes, sem er hið prýðilegasta og hefir kostað félagið fyllilega 9 þús. kr. Auk þess hefir félagið gefið út árbók í nokkur ár og varið til þess um 11 þús. kr. Þá hefir það farið skemmtiferðir með börn úr efstu bekkjum barnaskólans í Reykjavík suður á Reykjanesfjallgarð. Ég býst líka við, að hv. þm. hafi skoðað sýningu þess, sem það hélt í vetur, sem bar starfsemi þessa félags hið bezta vitni, Þetta félag hefir engan fjárstyrk fengið, þótt það sé alls góðs maklegt. Nú er í ráði, að það setji upp skrifstofu til þess að leiðbeina ferðamönnum. — Ég vil geta þess, vegna ummæla hv. 1. þm. S.-M., að þessi 2 þús. kr. styrkur, sem hann gat um, á ekkert skylt við Ferðafélag Íslands. Hann er til 2 privatmanna. En ég ætla, að á annað hundrað manns sé í Ferðafélagi Íslands.

Þá má geta þess, að félagið hefir beitt sér fyrir vegabótum allmiklum uppi um óbyggðir, á fjallvegum, þar sem talsverð ferðalög eru. Og í ráði er nú, að það fari að beita sér fyrir því, að brúa vatnsföll á þessum fjallvegum. Ýmsir menn í þessum félagsskap hafa lagt á sig mikil gjöld og mikla vinnu til þess að greiða fyrir öllu þessu. Starfsemi félagsins er svo myndarleg og óeigingjörn, að mér finnst, að Alþ. ætti að sýna því viðurkenningarvott fyrir þessa ötulu starfsemi og veita því þessa litlu upphæð.

Þá ber ég fram brtt. um greiðslu til Búnaðarbankans upp í viðlagasjóðslán Grímsneslæknishéraðs til læknisbústaðar og sjúkraskýlis, 5 þús. kr. í 2 ár. Ég gerði við 2. umr. grein fyrir þessu. Íbúum þessa héraðs er algerlega ómögulegt að rísa undir þessum skuldabagga, og ég vona, að þingið daufheyrist ekki við óskum manna, þegar svo stendur á sem hér. Nokkuð af þessari upphæð ber héraðinu með réttu í raun og veru, því að það hefir ekki fengið nærri því þann styrk, sem það hefði átt að fá til þessarar byggingar, samanborið við önnur héruð, sem reist hafa hjá sér læknisbústað og sjúkraskýli. Þetta mál er svo augljóst, að ekki er þörf að fjölyrða um það frekar.

Þá leyfi ég mér að bera fram þá brtt., að Halldóri Þórðarsyni, sem var dyravörður hér í Alþ. um nokkurra ára skeið, verði veittar 300 kr. á ári. Þetta er háaldraður maður, sem varð fyrir áfalli á síðastl. ári, eins og hv. þm. er kunnugt, sem gert hefir það að verkum, að heilsa hans er tæpari síðan, og hamlar það honum frá störfum. Alþ. hefir sýnt þeim mönnum, sem starfað hafa fyrir það og líkt hefir verið ástatt um, þá viðurkenningu að liðsinna þeim lítilsháttar. Hér er um góðan og gegnan mann að ræða, sem ég vona, að hv. þm. játi njóta þess, hve vel hann hefir rækt sitt starf hér við Alþ. — Læt ég svo staðar numið umr. um brtt. mínar.