28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (3196)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Vestm. taldi, að mér hefði ekki verið sársaukalaust að láta slíkt frv. sem þetta koma fram á Alþingi. Og hv. 3. þm. Reykv. undraðist yfir viðureign minni og hv. þm. Seyðf., sem áður hefðum jafnan deilt um þessi efni.

Nú skal ég sannarlega játa, að ég hefði óskað, að ástandið væri ekki svo, að það hefði þurft að koma fram með frv. í þessari mynd, þótt ég hinsvegar gjarnan á hverjum tíma hefði viljað bera fram till. um ýmsar breyt. á tekju- og eignarskattinum, sem bæði jafni hann og geri réttlátari fyrir þá, sem eiga að greiða, en hækki hann þó yfirleitt. Þetta sagði ég í minni fyrri ræðu. Og það er víst, áð það má koma þessu svo fyrir, að það verði á allan hátt heppilegra fyrir atvinnuvegina heldur en það réttleysi, sem nú gildir. Ég her engan kinnroða fyrir það, þó að ég hafi á síðasta þingi ekki viljað fara hærra en í 25% hækkun á þágildandi tekju- og eignarskatti. Þá var stefnt í áttina til þess, sem hér er farið. Og tekjuaukningin af þessu frv. mun ekki vera öllu meiri en tvöfalt meiri en í því frv. fólst og afgr. var af framsóknarmönnum með hjálp sjálfstæðismanna á síðasta þingi. Flokksbræður þeirra manna, sem hér hafa talað móti þessu frv. af mikilli alvörn, hafa þess vegna nýlega tekið þátt í áþekkum ráðstöfunum með okkur framsóknarmönnum. Hér er aðeins um stigmun að ræða, en engan eðlismun. Á síðasta þingi lagði ég höfuðáherzluna á það, að komið væri á bifreiðaskatti, vegna þess að þar var ónotaður tekjustofn, sem sjálfsagt var að nota í sambandi við mjög aukna vegagerð í landinu. Ég lagði líka áherzlu á þessa 25% hækkun, og ætlaði, að vegna rekstrar ríkisbúsins væri varla vert að fara fram á meira í það sinn. Ég lagði líka áherzlu á að framkvæma ýmiskonar frestun á útgjöldum ríkisins, sem nam allt að 600 þúsund kr., auk um 1 millj. króna niðurskurðar á fjárlögum. Lengra þótti mér ekki rétt að ganga í það skipti.

En þegar svo heldur áfram óáran og kemur upp hin brýnasta nauðsyn til að gera mjög kostnaðarsamar ráðstafanir, þá er vitanlegt, að það verður að gripa til tekjustofna í ríkari mæli en áður, og til þeirra, sem maður gjarnan vildi láta ónotaða. Það er vitanlegt, að breyttir tímar hljóta að leiða af sér breyttar till. um þessi efni, og er ekkert að undrast í því. Ég tel þvert á móti gott, að til séu tekjustofnar geymdir, sem þá fyrst er gripið til, þegar versnar verulega í ári. Og hérna

höfum við möguleika, sem við höfum ekki notað til fulls áður.

Hv. þm., sem talað hafa á móti frv., hafa ekki mótmælt skýrslu minni um það, hvað skattálagið verði mikið af tilteknum brúttótekjum, og fannst, að því er mér skildist, ekki mikið til um það, þó að maður, sem hefir 10 þús. kr. brúttótekjur og 5 manna fjölskyldu, borgaði 127 kr. í viðbót við það, sem ákveðið var fyrir 12 árum, þegar tekjuskattur var fyrst lagður á. Ég býst við, að þeim hafi ekki þótt neitt ákaflega undarlegt, þótt vandræði yfirstandandi tíma valdi því, að maður, sem hefir 15 þús. kr. brúttótekjur, þurfi að borga til viðbótar 450 kr. í skatt. Þegar tekið er á þessum tölum, verður minna úr andstöðunni gegn þessu frv. heldur en þegar reynt er að tala með almennum, viðkvæmum orðum.

Í umr. hefir aðeins verið nefnd ein tala um það, hvernig tekjuskatturinn verkar. Hv. 3. þm. Reykv. sagði nefnilega, að út hefði verið reiknað, að maður, sem hefði 100 þús. kr. í tekjur, mundi fá í útsvar, tekjuskatt og viðbótartekjuskatt 102 þús. kr. Þetta er orðið hörmulegt ástand, þegar svo dýrt er að vera ríkur, að það borgar sig ekki lengur. En ég vil hugga þennan hv. þm. með því, að svona ógæfumaður er enginn til frá síðasta ári. Ég hygg, að hæstu tekjur síðasta árs á einn mann muni vera 67 þús. kr., eða þar um bil. Hv. þm. má það vera meiri huggun, að þótt frv. yrði samþ., myndi maður með 100 þús. kr. brúttótekjur, ef fyrir fyndist, og sömu tekjur árið áður, fá útsvar um 20 þús. kr., venjulegan tekjuskatt 11 þús. kr., og tekjuskattsálag 11 þús. kr., - eða 42 þús. kr. í beina skatta. Eftir hefir hann þá 58 þús. króna. Og ég hygg, að það séu ýmsir menn í landinu, sem frekar væri ástæða til að úthella tárum sínum yfir en þessi vesalingur.

Í þessu sambandi við ég benda hv. þm. á, að geypiháar tekjur eru alls ekki skapaðar af einum manni eingöngu. Hæfileikar eins manns hafa vitanlega getað átt mestan þátt i, að tekjur þessar mynduðust, en þeir hæfileikar mundu ekki skapa tekjur, nema maðurinn starfaði í þjóðfélagi og með hjálp margra annara. Og það er einmitt þetta, sem réttlætir tekju- og eignarskatt og útsvar, til að ná hinum „sociala“ hluta tekna einstaklingsins. Um það er náttúrlega alltaf deilt, hvað þjóðfélagið og bæjarfélög hafi rétt til mikils hluta, og hafa t. d. framsóknarmenn lagt meiri áherzlu á þennan hluta, sem þjóðfélagið í heild sinni á þátt í að skapa, heldur en þm. Sjálfstæðisfl. sumir hverjir hafa gert.

Nú þegar þetta er eina dæmið, sem nefnt hefir verið til að sýna fram á, hversu frv. er ótækt, þá sé ég ekki a. m. k. á þessu stigi málsins, ástæðu til að fara að slaka neitt til frá þeim till., sem fram eru fluttar. Hitt er annað mál, að þeir, sem að frv. standa, eru reiðubúnir til alls samtals. Eins og hv. frsm. tók fram, er þeim einmitt áhugamál, að það sé engum gert óbærilegt með sköttum, en að þeir komi hlutfallslega sem jafnast niður, eftir því sem við verður komið. Ef bent verður á eitthvert stórkostlegt ranglæti í sambandi við eitthvað af þessum leiðum, þá munum við taka þau tillit, sem kleift er.

Hv. 3. þm. Reykv. notaði einmitt þetta orð, að þeim tekjuauka, sem nú er nauðsyn að koma á, eigi að dreifa sem jafnast, svo að sem flestir standi undir byrðinni. En hvað er jafnt? Ég var einu sinni í prestaskóla, og mig minnir, að eyrir ekkjunnar væri talinn miklu meira tillag en miklu meiri fjármunir frá þeim, sem meira áttu. Og þetta vii ég einmitt brýna fyrir hv. þm., að jafnt er eingöngu það, sem er hlutfallslega jafnt, en ekki það, sem er jafnt í sjálfu sér. Þessi saga um eyri ekkjunnar er einn hinn ágætasti grundvöllur skattamála. Þessi saga segir, að það eigi að taka hlutfallslega af mönnum eftir getu þeirra, en alls ekki hitt, sem hv. 3. þm. Reykv. hélt fram, að skattar eigi að koma sem jafnast niður á alla, án alls tillits til, hvaða krafta menn hafa til að bera byrðarnar.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, og ég man, að hann orðaði það svo, að það ætti að koma hundraðsálag á alla gildandi tekjustofna og skattstofna ríkisins, - og þá náttúrlega þar með núv. tekju- og eignarskatt. Hann sagði, að núv. skattakerfi hafi verið talið heppilegast, og sé því réttlátast og bezt á því að byggja. Hvað myndi hv. 3. þm. Reykv. segja, ef ég kæmi nú og svaraði öllum hans röksemdum í kjördæmamálinu á þessa leið: Ja, þetta fyrirkomulag, sem hingað til hefir gilt, það hefir verið talið heppilegt, og þarf ekki frá því að breyta. Hvað myndi hann segja þá? Nei, ætli það sé ekki svo, að rétt eins og það er komið á allmikið misrétti um kosningarétt í landinu, þá sé líka komið í ýmsum greinum misrétti í skattamáium. Og ætli maður að heimta réttinn í einu, þá verður maður að veita hann í öðru. Þetta segi ég ekki eingöngu til hv. 3. þm. Reykv., heldur til allra þeirra, sem atkvæðisrétt hafa á þingi. Ég tel einmitt, að þegar þarf að gera svona sérstakar ráðstafanir eins og nú á erfiðum tímum, þá eigi að hyllast til að leggja á háar tekjur, eyðslu og óþarfa, - það skapi mest réttlæti. -

Hv. þm. Vestm. lagði mikla áherzlu á það, að slíkt skattálag sem þetta myndi draga úr framtakssemi manna, og að það væri hert stórum á skattaskrúfunni o. s. frv. Finnst honum ekki líka, að ef hækkaður væri allur tollur á nauðsynjavörum og það gert að höfuðatriði þeirrar tekjuöflunar, sem allir viðurkenna, að nú er nauðsyn á -, finnst honum ekki, að þá kynnu að vera einhverjir, sem þætti hert á skattaskrúfunni og vera íþyngt fullmikið ofan á önnur vandræði? Ýmsir menn hafa nú varla ofan í sig vegna lítillar atvinnu eða engrar atvinnu. Bændur hafa með núv. verðlagi enga möguleika til að komast af. Ætli við þurfum ekki að líta á, að þessum mönnum sé ekki ofþyngt. Mér finnst vorkunnsemin eiga sinn sterka rétt í þessu máli; en ef hún á að koma rétt niður, þá hygg ég, að einhverjum þurfi meir að vorkenna en þeim, sem eru svo ógæfusamir að fá allt að 100 þús. kr. árstekjur.

Eins og ég sagði áður, þá eru margar af þeim röksemdum, sem færðar eru á móti frv. eins og þessu, röksemdir á móti tekju- og eignarskatti, hver sem hann er. En þessar röksemdir flestar hverjar falla úr gildi, þegar um er að ræða, að frv. gildi í eitt skipti og um tekjur síðasta árs, sem þegar er kunnugt, hvernig er háttað.

Ég endurtek það, sem ég áður sagði, að ég mun ásamt mörgum öðrum fús til að athuga ýtarlega, hvernig hækkun tekju- og eignarskattsins eigi að vera til frambúðar, og hvaða ný tillit þurfi að taka til þess að hindra það, að stórfellt ranglæti skapist. Og ég tek enn undir það, sem hv. frsm. sagði, að okkur er áhugamál, að það verði enginn fyrir hraklegri rangsleitni. Að vísu er það rétt, að það sýna margir áræði nú í vondu árferði, en ég kalla það enga ofsókn eða að sá maður sé hundeltur, sem hefir einmitt í þessu vonda árferði aflað 30 þús. kr. yfir árið, þó að hann fái 2 þús. kr. álag til ríkisins.

Hv. þm. Vestm. nefndi það nú eins og í gær, að ríkisstj. hefði ekki fært niður útgjöldin svo sem vænta mátti, og skal ég ekki bera þá sök að öllu leyti af stj. En ég vil benda á, að á síðasta ári tókst stj. að færa útgjöldin niður frá því árið áður um 2 millj. 160 þús. kr. Þetta er þó eitthvað, þótt stj. kunni kannske að vera sek um að hafa sleppt einhverjum sparnaði, sem kleifur var; en flest mun það vera í smærri atriðum. Bjargráð það hið oftnefnda, að leggja niður vissar ríkisstofnanir, er ekkert bjargráð. Hvað gefur skipaútgerð ríkisins af sér, þó að Eimskipafélagið færi með þau sömu mál fyrir ríkið? Ríkið yrði að leggja stórfé með þessari útgerð eins og áður. Það dugir ekki alltaf að slá tveimur stofnunum í eina stofnun, gjöldin geta vaxið nokkurn veginn jafnt með stofnuninni sjálfri.

En fjarstæðust af öllum sparnaðarráðstöfunum, sem ég hefi heyrt nefndar, er sú, að leggja niður tóbakseinkasöluna. Sú sparnaðarráðstöfun mundi sennilega gefa í ár 450 þús. kr. tekjurýrnun, m. ö. o., ríkið yrði svipt 450 þús. kr. tekjum.

Nei, margt þetta tal um ríkisstofnanir er ekki á rökum byggt. Þær hafa sínu starfi að sinna og gefa sínar tekjur, sem myndu hverfa með stofnununum.

Hv. þm. Vestm. spyr m. a. um eyðslu og ósparnað. Hvað kostar yfirstjórn peningamála þessa peningalausa lands? Ekki lasta ég hann fyrir að spyrja, - en hvaða ráð eru til að draga úr þessum launum? Till. hafa ekki komið fram um það, nema þetta frv., sem einmitt fer fram á að lækka nokkuð laun þeirra, sem hæst launin hafa. Svo að hv. þm., sem kvartar um það, að kostnaður við peningastofnanir í launum sé allt of mikill, hann ætti að geta fylgt þeirri almennu launatilfærslu, sem felst í aukningu tekju- og eignarskattsins.

Ég fyrir mitt leyti hefi verið því fylgjandi, og mun verða fylgjandi því á þessu þingi, að það sé ekki verið að klípa verulega af einhverjum einstökum flokki manna og skilja alla hina eftir. Sumir vilja taka af starfsmönnum í þjónustu ríkisins, en skilja eftir þá, sem eru í þjónustu einstaklinga. Mér þykir miklu réttara að fara þessa leið, sem frv. gerir ráð fyrir, að lækka laun sem flestra um tiltölulega jafnan hundraðshluta, og um vaxandi hundraðshluta eftir því sem þau eru hærri. Og þessi aðferð um þá almennu launalækkun, sem hv. þm. virðist nú lýsa eftir, er því forsvaranlegri, þar sem tekjurnar, sem við þetta aflast, eiga að ganga til að lyfta einum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, svo að hann verði betri skattstofn og öruggari í hvívetna en verið getur með áframhaldandi ófarnaði þeim, sem nú hefir yfir gengið.

Hv. þm. Vestm. kvaðst vænta þess, að þeir, sem að þessu frv. standa, muni taka með velvild öllum umr. og aths. Ég tek það fram, að þetta viljum við gjarnan gera. Ég stend ekki hér til þess að segja, að svona skuli það vera og á engan annan hátt. Röksemdir koma úr ýmsum áttum, og okkur er skylt að taka tillit til þeirra eins og þær eiga skilið. Ef okkur verður sýnt fram á, að þessi aðferð muni íþyngja vissum hluta manna meira en nokkur önnur til að ná sama tilgangi, þá munum við vitanlega taka tillit til þess, en í umr. eins og þær hafa verið í dag hefir ekki neitt það komið fram, sem fælir mig frá að fara þessa leið og telja hana réttlátasta af þeim leiðum, sem nefndar hafa verið. Annars finnst mér það eftirtektarvert, hvernig þessum till. hefir verið tekið með tilliti til þess, hvernig tillögunum um jafnan kosningarrétt landsmanna hefir verið tekið undanfarin ár. Í báðum tilfellunum er um hagsmunastreitu að ræða og jafnframt réttlætismál, hagsmunastreitu, sem æskilegast væri, að leyst yrði á þann hátt, að sem mest réttlæti fengist fyrir alla. Ég fyrir mitt leyti mun fylgja því, að það réttlæti fáist, sem hagkvæmast má verða bæði í skattamálum og þjóðskipulagsmálum, eftir því sem mín geta leyfir.