11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

117. mál, barnavernd

Vilmundur Jónsson:

Ég skal geta þess, að ég hringdi rétt í þessu til eins manns í barnaverndarráðinu, séra Ásmundar Guðmundssonar dócents, sem kannaðist ekkert við þessa tillögu og óskaði mjög eftir því, að barnaverndarráðið fengi hana til athugunar. Mér skildist líka á bréfinu, sem hv. þm. las upp, að ráðið ætti að afla sér frekari upplýsinga en þeirra, sem nú liggja fyrir.

Mér virðist, fljótt á litið, sem það gæti orkað tvímælis, hvort rétt sé að samþ. þessa till. eins og hún er nú. Ég ætla, að barnaverndarnefndir utan Reykjavíkur geti haft eftirlit með kvikmyndasýningum, þó að það kunni að vera ofverk barnaverndarnefndarinnar í Reykjavík, og ef slíkur eftirlitsmaður yrði skipaður í Reykjavík, tel ég, að hann eigi að skipa eftir tillögum barnaverndarnefndarinnar þar eða barnaverndarráðs. Vil ég því ítreka ósk mína um það, að málið verði tekið út af dagskrá, til þess að hægt sé að leita umsagnar barnaverndarráðs um þetta atriði.