29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3558)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jón Jónsson:

Ég hefi ekki tekið þátt í umr. um þetta mál og ætla að láta það afskiptalaust að mestu, því að ég lít svo á, að hér sé um smámál að ræða, sem skipti litlu fyrir landbúnaðinn. Það, sem hér er farið fram á, er að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarvörum, og eins og hv. 4. landsk. benti t. d. á, þá munar það hvorki til né frá fyrir bændur, hvort það er fellt niður eða ekki, þar sem það mun ekki nema meira en 10-15 aur. á hvern dilk, en slíkt dregur ekki langt.

Það var alveg réttilega tekið fram af flm. frv., að gjald þetta kemur mjög illa niður, þar sem það lendir eingöngu á þeim, sem sæta verða hinum erlenda markaði, en hinir sleppa, er selt geta afurðir sínar á innlendum markaði.

Hvað snertir brtt. á þskj. 220, þá verð ég að andmæla henni. Ég vil alls ekki fá þau hlunnindi, sem frv. felur í sér, ef hún á að fljóta með, því að hún hefir í för með sér 300 þús. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóðinn. Samkv. síðasta yfirliti yfir tekjur og gjöld ríkisins nam útflutningsgjaldið um 1 millj. kr., en hér er farið fram á að lækka það um 1/3 part. Ég fæ ekki séð, að ræktunarsjóður sé svo öflugur, að hann megi við því, að felld verði úr lögunum frá 1925 þau ákvæði, sem brtt. hv. 1. þm. Reykv. fjallar um. Ég legg því mikla áherzlu á það, að hún verði felld. Mér liggur raunar í léttu rúmi, þó slík yrðu einnig afdrif þessa frv., enda geri ég ráð fyrir því, að það verði tæplega að lögum, þó það verði samþ. hér í þessari hv. d. Ég veit, að innan skamms er von á till. hér í þinginu um hjálp handa bændastéttinni. Þær vona ég, að verði samþ. á þessu þingi, og ef það verður, þá munu þær verða bændum mjög til stuðnings á þessum vandræðatímum. En brtt. hv. 1. þm. Reykv. er svo stórfelld, að hún má ekki ná fram að ganga.