29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (3559)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég tek til máls aðallega út af ummælum hv. 3. landsk., þar sem hann hélt því fram, að ræktunarsjóður væri ekki svo öflugur, að hann þyldi að missa þær tekjur, sem honum eru ætlaðar með lögunum frá 1925. Ég ætla, að þarna sé um misskilning að ræða hjá hv. þm., því þó þau ákvæði laganna yrðu felld úr gildi, sem brtt. mín leggur til, að felld séu, þá snertir það ekki þá einu millj. kr., sem ræktunarsjóði er ætluð með þessum lögum, ef frv. á annað borð verður samþ. og útflutningsgjaldið af landbúnaðarvörum verður afnumið, því einmitt það á samkv. lögunum frá 1925 að ganga til ræktunarsjóðs. Hinsvegar á útflutningsgjaldið af sjávarafurðum alls ekki að ganga til ræktunarsjóðs. Þessi brtt. mín kemur því ekki ræktunarsjóði við.

Ég vil auk þessa leiða athygli hv. þdm. að því, að það er ólíku saman að jafna með þessar tvær till. Annarsvegar er lagt til, að allt útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum sé fellt niður, en hinsvegar aðeins 1/3 af útflutningsgjaldi sjávarafurða. Ég hygg því, ef það þykir sanngjarnt að fella alveg niður gjald af landbúnaðarafurðum, þá verði erfitt að sýna fram á, hver sanngirni er í því að neita með öllu niðurfærslu á útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum, sem ég hygg, að ekki hafi verið meint, að ætti að gilda til frambúðar, fremur en útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, heldur hafi hvorttveggja gjaldið átt að vera til bráðabirgða.