29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Halldór Steinsson:

Þetta mál hefir nú verið allmikið rætt, en þrátt fyrir það hefi ég ekki heyrt neitt á það minnzt, á hvern hátt á að bæta ríkissjóði upp þá tekjurýrnun, sem bæði frv. og brtt. hv. l. þm. Reykv. valda honum. Hér er um að ræða hvorki meira né minna en á fjórða hundrað þús. kr. tekjurýrnun, og fæ ég ekki séð, hvernig ríkissjóður fær á þessum tímum risið undir slíku. Það væri sannarlega ekki vanþörf á því að benda á leiðir til þess að bæta upp þennan tekjumissi ríkissjóðs, en á það hefir ekkert verið drepið. Ég vil því endurtaka það, sem ég tók fram við fyrri umr. málsins: að ég vildi gjarnan heyra till. í þá átt, og ennfremur það, hvernig hæstv. fjmrh. lítur á þetta mál. Mig furðar á því, að hann skuli ekki sýna sig hér í þessari hv. þd., þegar slíkar skerðingar á tekjum ríkissjóðs eru á dagskrá. Ég sé mér því ekki fært að samþ. þetta frv. eða brtt., meðan hvorki hæstv. ráðh. né aðrir þdm. benda á ráð til þess að bæta ríkissjóði tekjumissinn.