08.05.1933
Efri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. S.-M., að ég hafi talað á móti því, að ábyrgðarheimild ríkissjóðs verði miðuð við ákveðna tölu, heldur þvert á móti, en ég talaði á móti því, að samþ. væri sú tala, sem meiri hl. n. leggur til, að ákveðin verði. Ég hélt því fram, að það væru ekki nægileg rök fyrir því að lækka heimildina úr 7 millj. kr. Þó svo færi, að lánsupphæð til virkjunarinnar yrði eitthvað lægri en 7 millj., þá tel ég það ekkert ólán. En hitt væri ólán, ef ábyrgðarheimildin yrði ákveðin svo lág, að málið þyrfti að stranda á því. Af þessari ástæðu tel ég réttara að láta 7 millj. kr. upphæðina standa óbreytta heldur en setja málið í hættu með því að færa ábyrgðarheimildina niður í 4 millj. kr.