12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3881)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Steingrímur Steinþórsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. frsm. minni hl. mælti hér áðan út af því, sem ég varpaði fram, að það gæti komið til mála að gera stjórnmálaflokka eða stjórnir flokkana ábyrga fyrir því, ef l. væru brotin. Hann taldi, að það mundi koma að litlu haldi, þó einhverjar sektir kæmu eftir á, þegar búið væri að brjóta l. Mér þótti þessi röksemdafærsla undarleg, og þá einkanlega, þegar hún kom frá einum af lögreglustjórum þessa lands. Með sama rétti mætti segja, að það sé gagnslítið að hegna mönnum, þótt þeir stælu eða fremdu morð eða einhver almenn brot á borgaralegum 1. En til þess eru slíkar hegningar, að hindra, að slík brot verði framin eftirleiðis, meira en að þær eigi að skoðast sem hegning á þá sérstöku persónu, sem um er að ræða. Ég tel þetta því mjög lítilsverða mótbáru.

Þá sagði hv. frsm., að það yrði mjög erfitt að hafa eftirlit með þessum merkjum, og einkanlega þeim, sem væru að meira eða minna leyti ósýnileg. Ég játa náttúrlega, að þau merki, sem borin yrðu þannig, að þau væru ekki sýnileg, mun verða erfitt að hafa eftirlit með að ekki séu misnotuð. En þau eru þá og miklu ósaknæmari en hin, því þau, sem eru ósýnileg, vekja heldur ekki þá hættu, sem þessu frv. er ætlað að forða, að brjótist út. Þar væri að vísu um brot að ræða, en meinlítið, því það skapar ekki sömu möguleika til óróa.

Ég man ekki fleiri rök, sein hv. frsm. hafði fram að færa gegn því, að frv. verði samþ.

Út af því, sem hv. þm. Ak. sagði, hefi ég ekki ástæðu til að segja neitt, því hann viðurkenndi í aðaldráttum og á sama grundvelli og við flm. það gagn, sem af frv. gæti orðið í vissum tilfellum.