30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

1. mál, fjárlög 1934

Bernharð Stefánsson:

Hv. þm. V.-Húnv. var áðan að tala um hringingar. Mér fannst nú hringja dálítið undarlega í honum sjálfum, einkum þegar þess er gætt, að hann er endurskoðandi síldarverksmiðjunnar á Siglufirði, og það er því skylda hans að hugsa um hennar hag og hag ríkissjóðs í sambandi við hennar starfsemi. Er hann nú alveg viss um, að það sé hagur síldarverksmiðjunni og ríkissjóði, að það dragist að byggja öldubrjótinn á Siglufirði og að bryggjur verksmiðjunnar séu hafðar í stöðugri hættu ár eftir ár? Ég gæti haldið, að það væri dálítið vafasamt.

Hv. þm. var að hælast um yfir því, að till. mínar hefðu verið felldar hér fyrr á þingi; virtist hann treysta því, að svo færi enn. Virtist mér hann þess vegna telja mjög mikinn óþarfa af mér að vera að mótmæla því nú, að þeir liðir, sem ég árangurslaust flutti till. um hér í d., en komust svo inn í hv. Ed., væru teknir út hér aftur. En ef hv. þm. treystir því svo mjög, að hv. þm. hér í Nd. greiði atkv. nákvæmlega eins og í vetur, því má þá ekki búast við, að þm. í hv. Ed. geri slíkt hið sama? Ein af þessum till. mínum féll ekki með nema eins atkv. mun hér í hv. d. og var svo samþ. í hv. Ed. Ef farið er að breyta fjárl. hér vegna þessarar till., fara þau aftur upp í Ed., og má þá gera ráð fyrir, eftir hugsunargangi hv. þm. V.-Húnv., að þar verði liðurinn tekinn upp aftur. Fer þá frv. í Sþ., og ef gengið er út frá óbreyttri afstöðu allra hv. þm., þá er sjáanlegt, að hv. þm. fengi ekki þennan lið tekinn út aftur þar. Þess vegna er, eftir hugsanaferli hv. þm. sjálfs, þýðingarlaust fyrir hann að flytja þessa till. Þó hann fengi hana samþ. hér í d., myndi sá liður, sem hann vill fella niður, standa í fjárlagafrv. að lokum samkv. hans eigin áliti.

Þá talaði hv. þm. um sérstaka frekju hjá mér í sambandi við till., sem ég hefði áður borið hér fram um ábyrgðarheimild vegna tunnuverksmiðju á Siglufirði. Sagði hann, að viðar væru tunnuverksmiðjur, og taldi, að þau fyrirtæki ættu að vera jafnrétthá. Ég vil benda á það, sem hv. þm. hlýtur að vera kunnugt, að það er hvergi tunnuverksmiðja með samskonar fyrirkomulagi og á Siglufirði. (HJ: Eru tunnurnar þar ekki eins og aðrar tunnur?) Jú, nema hvað þær hafa reynzt óvenjulega góðar. En fyrirkomulag verksmiðjufélagsins er með dálítið sérstökum hætti, þar sem kaupgjald mannanna, sem að tunnusmíðinni vinna, er fyrsta áhættufé fyrirtækisins, eins og ég ljóslega sýndi fram á í vetur. Ég held, því, að það hljóti að vera einhverjar aðrar ástæður til þess, hvað mikið kapp hv. þm. leggur á að koma þessum liðum út af fjárl., sem ég hefi sérstaklega gert að umtalsefni, heldur en honum þykir rétt að láta uppi.