30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég verð að játa það á mig, að hv. þm. V.-Húnv. hefir á réttu að standa um eitt atriði, sem okkur hefir borið á milli. Ég sagði, að sparnaðurinn af till. hans, ef samþ. væru, mundi nema 83 þús., en hann heldur fram, að hann nemi ekki nema 63þús., og mun það rétt. Ég hafði tekið eina töluna tvisvar við samlagninguna, og olli það hinni röngu útkomu. Í þessu atriði gengur hv. þm. með sigur af hólmi; sparnaður hans er óverulegri heldur en ég hafði haldið.

Hvað tekjuaukunum viðvíkur, þá gerði ég á móti þeim m. a. þessar 200 þús. kr. vaxtarýrnun hjá ríkissjóði. Þegar ég talaði um tekjuaukana gerði ég á móti þeim allar kreppuráðstafanir þessa þings, og ein af þeim er að innheimta ekki vexti hjá Búnaðarbankanum. Hér hefi ég því enga peninga ætlað að nota tvisvar, eins og hv. þm. talaði um; hann hefir bara ekki tekið eftir, að ég lagði tekjuaukana á móti kreppuráðstöfunum, og að vaxtarýrnunin er þar innifalin.

Hv. þm. N.-Ísf. hyllir mjög Bandaríkin fyrir að spara eina billjón dollara á ríkisbúskapnum. Það er náttúrlega töluvert mikill sparnaður. En svo vill hv. þm. feta í spor Bandaríkjanna með því að veita 20 þús. kr. til öldubrjóts í Bolungavík. (JAJ: Það er skilyrðisbundið.) Já, það er beðið um styrkinn með því skilyrði, að þorpið leggist ella í eyði. En hvers vegna þessi eyðilegging vofir yfir svo geigvænlega einmitt nú, það fæ ég ekki skilið.

Annars er það misskilningur, að ég hafi haldið fram, að önnur ríki sýndu engan vilja á útgjaldalækkun. Ég sagði aðeins hitt, að ríkin sýndu meiri og vaxandi vilja á því að auka atvinnumöguleika þegnanna og gerðu það jafnvel með lánum eins og hér er talað um í 22. gr. fjárl. Og t. d. Bandaríkin hafa nú gengið lengra í slíkum ráðstöfunum en nemur þeim niðurskurði, sem hv. þm. talaði nm. En þó verð ég að segja það, að tveggja millj. kr. niðurfærsla, sem varð hér á útgjöldum ríkissjóðs á síðasta ári, er hlutfallslega meiri en orðið hefir í nokkru öðru landi, sem ég veit um.