15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (4066)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Bernharð Stefánsson:

Við fyrri hl. þessarar umr. vék háttv. frsm. n. því til mín, að ég gæti gefið upplýsingar um það, hvernig ástatt væri fyrir mjólkursamlagi Eyfirðinga á Akureyri. Hann sagðist búast við, út af brtt. á þskj. 676, að öll mjólkurbúin hér sunnanlands mundu verða þess styrks aðnjótandi, sem frv. getur um, eftir sem áður. M. ö. o.: að ekkert þeirra mundi geta starfað á heilbrigðum grundvelli, ef viðbótarstyrkur þessi verður ekki samþ. En háttv. frsm. bjóst þá við, að mjólkursamlag Eyfirðinga væri hið eina mjólkurbú, er kæmist af án viðbótarstyrks. Út af þessu vil ég nú fyrst og fremst taka það fram, að mér er ekki fyllilega ljóst, hvað háttv. till: menn meina með orðunum „heilbrigðum grundvelli“ — hvað þeir skilja við þessi orð, að reka fyrirtækin á heilbrigðum grundvelli. Hitt þykist ég skilja, þótt ekki sé það beinlínis játað, að þessari till. er stefnt gegn mjólkursamlagi Eyfirðinga. Ég get búizt við því, þótt ég viti það ekki gerla, að mjólkursamlag Eyfirðinga sé e. t. v. eitthvað betur sett fjárhagslega heldur en sum önnur mjólkurbú á landinu. En ég fullyrði það, hvað sem þessu kann að líða, að það hefir ekki að neinu leyti betri aðstöðu til starfsemi sinnar heldur en önnur mjólkurbú. Norður í Eyjafirði er sízt betri aðstaða í þessu efni heldur en á Suðurlandsundirlendinu og í Borgarfirði. Í fyrsta lagi er markaðurinn fyrir afurðirnar sízt betri á Akureyri heldur en hér í Rvík. Það vita allir. Og í öðru lagi er töluverður aðstöðumunur að því leyti, að mjólkurbúin hér á Suðurlandi geta yfirleitt gengið hindrunarlaust allt árið. En í Eyjafirði eru erfiðleikar oft og einatt miklir á því að koma mjólkinni til samlagsins. Það hafa verið góðir vetur undanfarið, en samt hefir orðið að aka mjólkinni á sleðum og mikið af henni alls ekki komizt til samlagsins tíma og tíma úr vetrinum.

Ef því svo er, að mjólkursamlag Eyfirðinga er eitthvað betur sett en önnur mjólkurbú á landinu, sem ég skal þó ekki segja um hvort er, þá getur það ekki verið fyrir annað en það, að þar hafi verið gætt meiri fyrirhyggju um stjórn og rekstur fyrirtækisins heldur en annarsstaðar hefir verið gert. Og í öðru lagi kannske vegna þess, að félagsmenn hafi sýnt meiri sjálfsafneitun og ekki krafizt eins mikilla útborgana fyrir afurðirnar, heldur látið sér lynda, að lagt hafi verið til hliðar fé, til þess að tryggja fyrirtækið. Það er þá vist meiningin með þessari till., að mjólkursamlag Eyfirðinga og félagsmenn þess eigi að gjalda þess, ef svona er sem ég sagði, að meiri fyrirhyggju í rekstri og sjálfsafneitun félagsmanna hafi gætt hjá þeim heldur en meðal annara mjólkurbúa á landinu. Ég skal út af fyrir sig ekkert kvarta um þetta, en aðeins benda á, hvað hlýtur að liggja til grundvallar fyrir þessari till. Annars verð ég að segja það, burtséð frá þessari till., að ég kann ákaflega illa við þann anda, sem fram kemur í þessari till., sérstaklega vegna þess, frá hvaða mönnum hún er komin. Ég gæti betur unað því, að slík brtt. hefði komið frá einhverjum öðrum mönnum. Þessir menn vilja sem sé ekki láta veita þennan viðbótarstyrk til mjólkurbúanna sem viðurkenningu fyrir það, að hafa lagt út á nýjar brautir í þessu efni, né heldur sem endurgjald fyrir að hafa orðið að taka á sig aukakostnað, er óhjákvæmilega leiðir af því að ráðast í slíkar framkvæmdir áður en innlend reynsla er fengin í því efni. Nei, það vilja þeir ekki. Og alls ekki má hann vera til þess að stuðla að heilbrigðum atvinnurekstri, eftir þeirra skoðun. Það, sem þeir vilja, er, að ef eitthvað verður um þetta, að viðbótarstyrkur verði veittur, þá verði hann fátækrastyrkur og því skilyrði bundinn, að þau fyrirtæki, sem fá hann, verði rekin á óheilbrigðum grundvelli.

Ég man nú reyndar ekki eftir því, að þegar ríkið hefir veitt atvinnurekstri, sem tilheyrir landbúnaðinum, stuðning, þá hafi það verið gert í þessu formi, sem hér er farið fram á í þessari till. Ríkið telur það þess vert að styðja að aukinni jarðrækt í landinu og veitir drjúgan styrk til þess. Bændur, sem njóta hans, eru mjög mismunandi efnum búnir. Má segja um suma þeirra, að þeir geti rekið bú sín á heilbrigðum grundvelli. Sumir þeirra kannske ekki. En styrkur þessi er greiddur út á unnin dagsverk, án tillits til þessa. Það hefir verið mikið talað um þetta mál í sambandi við frystihúsin, og það er vist með tilliti til þess, sem þessir hv. þm. hafa borið fram þessa brtt. En á það má benda, þegar þetta er borið saman, að mjólkurbúi með tilheyrandi tekjum er tiltölulega miklu dýrara að koma upp heldur en frystihúsi. Og í annan stað sé ég ekki beint, hvernig frystihúsum sem slíkum á að geta vegnað verr fyrir það, þó að þessi till. um mjólkurbúin verði samþ. Ég sé ekki, hvaða samband er þarna á milli. Mér finnst, að þessir hv. þm. hefðu getað flutt einhverjar sjálfstæðar till. um það, ef þeir telja þörf á því, að frystihús verði studd frekar heldur en hefir verið gert.

Þær röksemdir, sem fram hafa komið hjá hv. flm., líkjast því leiðinlega mikið, að till. þeirra væri sprottin af vissri tilfinningu, sem er að vísu algeng meðal mannanna, en ég vil þó ekki nefna hér. (StgrS: Hún kemur víst ekki fram hjá hv. 1. þm. Eyf. nú). Nei, alls ekki. Ég veit alls ekki, hvernig á að setja hana í samband við það, sem ég hefi sagt. Ég mæli ekki Kaupfélag Eyfirðinga undan því, að taka á sig það, sem ríkissjóður mundi annars gera, ef frv. yrði samþ. óbreytt. Ég bendi aðeins á þá staðreynd, á hvaða grundvelli og hvernig þetta kemur fram hjá hv. flm. brtt. Ég býst við því, að þótt þeir geti unnið þetta þrekvirki, að taka mjólkursamlag Eyfirðinga undan, en veita hinum búunum öllum viðbótarstyrk, getum við Eyfirðingar kannske rekið okkar mjólkurbú áfram fyrir því. En það sannar þó ekki, að rétt sé að gera þennan greinarmun á þessum grundvelli, sem flm. tala um. Það væri náttúrlega vel, að þær sveitir, sem svo illa eru settar, að þær geta ekki framleitt annað en sauðfjárafurðir, gætu komið á hjá sér fjölbreyttari framleiðslu. Slíkt er sjálfsagt að styðja eftir því, sem við verður komið, og ég efast ekki um að í framtíðinni verði unnið að því að gera atvinnuvegina fjölbreyttari í landinu yfirleitt. En að það sé sérstaklega heppileg leið til þess, að þó að menn hafi hugmynd um, að í einhverri sveit sé ekki allt á hausnum, þá eigi að sparka í hana, það held ég alls ekki, heldur fari því fjarri.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira og ætla ekki að leggja kapp á þetta mál. En ég vildi aðeins láta hv. flm. brtt. vita, að ég hefi tekið eftir því, hvað fyrir þeim vakir.