22.02.1933
Efri deild: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (4217)

20. mál, gæslu landhelginnar og fl.

Jón Baldvinsson:

Ég tók svo eftir, að hæstv. ráðh. segði í ræðu sinni, að landhelgissjóður ætti sem stendur ekkert reiðufé. En í aths. við þetta frv. stendur, að „peningaeign hans sé nú lítil orðin“. Það getur nú verið, að hér sé ekki mikill munur á, en út af þessu vil ég þá spyrja hæstv. ráðh., hvort heldur eigi að taka til greina það, sem hann sagði í ræðu sinni um reiðufé landhelgissjóðs, eða það, sem stendur í aths. við frv. Ég vil spyrja, hvort landhelgissjóður hafi nokkra peninga.

Það hefir áður verið frá því skýrt á Alþingi, að ríkissjóður hafi fengið að láni fé hjá landhelgissjóði á undanförnum árum. Mér þætti því gott að fá að vita, hvort eign landhelgissjóðs stendur inni hjá ríkissjóði, eða hvort þessi lán hafa verið endurgreidd.

Það má að vísu segja, að ekki skipti miklu máli að viðhalda landhelgissjóði sérstökum, eftir því sem fram hefir komið á síðustu tímum, og að það sé réttast, að sektir fyrir landhelgisbrot renni beint í ríkissjóð.