01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (4256)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Vilmundur Jónsson:

Ég get lýst því yfir sem flm. þessa frv., að það hefir aldrei verið hugsun mín, að það fé, sem dregið yrði saman í þessa sjóði, yrði notað til uppbótar á launum lækna. Hinsvegar hefi ég gert ráð fyrir því, eins og hv. frsm. tók fram, að hægt sé að gera héruðin eftirsóknarverð á ýmsan annan hátt en þann, að hækka launin beinlínis, eins og t. d. með því að veita læknunum betra húsnæði, sem getur orðið til þess að bæta starfsskilyrði þeirra, með því að koma upp handa þeim sjúkraskýlum o. s. frv. Einnig mætti kaupa ýmiskonar verkfæri handa héruðunum, sem er dýrt fyrir fátæka lækna að afla sér, svo sem smásjá og fleira annað. Þá mætti gera læknum auðveldari ferðalög, t. d. með því að héruðin eignist mótorbát eða bíl, eftir því hvað betur kynni að henta vegna staðhátta.

Ég vona, að andmæli hæstv. ráðh. verði ekki til þess að hræða hv. þdm. frá að greiða atkv. með þessu frv. Ég fyrir mitt leyti mun ekki — og síður en svo — setja mig upp á móti því, ef nauðsynlegt þykir, að taka greinilegar fram í frv. en gert er, að ekki megi nota þetta fé til persónulegrar launauppbótar handa viðkomandi læknum.

Ég hefi skrifað hér upp hjá mér 4 læknishéruð, sem alltaf geta átt á hættu að standa læknislaus. Það eru Reykjarfjarðarhérað í Strandasýslu, Flateyjarhérað á Breiðafirði, Hesteyrarhérað í Ísafjarðarsýslu og Reykhólahérað í Barðastrandarsýslu, og kunna þau að vera fleiri. Það er alltaf undir hælinn lagt, að hægt sé að fá lækna í þessi héruð, svo lítil og lítilfjörleg eru þau.

Nú hefir Reykjarfjarðarhérað komið sér upp dýrum læknisbústað, sem erfitt er að standa straum af, jafnvel þó að læknir sé í héraðinu, hvað þá ef að því kæmi, að það fengi engan lækni.

Í Flateyjarhéraði er enginn læknisbústaður. Þar er einhleypur maður nú um sinn, en verður varla lengi. Það væri frágangssök fyrir fjölskyldumann að sækja þangað vegna húsnæðisleysisins, en möguleikarnir litlir til að bæta úr því. Hesteyrarhérað hefir nýlega keypt gott hús til læknisbústaðar. Er nýbúið að slá því héraði upp, en ég veit ekki, hvort nokkur hefir sótt þangað. Það má geta nærri, hve erfitt það yrði fyrir héraðið, sem er einir tveir fámennir og fátækir hreppar, að sitja uppi með tómt húsið, ef enginn læknir fæst þangað. Þá er Reykhólahérað með hinn dýra læknisbústað sinn. Þar er nú einhleypur læknir, sem ekki er hægt að heimta af mikla húsaleigu, með því að hann hefir ekki húsnæðisins þörf. Svo illa er héraðið stætt af þessum sökum, að það hefir orðið að sækja til þingsins, og hefir því verið gerð nokkur úrlausn, ef ég man rétt.

Verkefni sjóðanna er, eins og hv. þdm. sjá, yfrið nóg. Það er meginhugsun frv., að fé, sem dregið yrði saman í þessa sjóði, verði fyrst og fremst notað til þess að koma upp læknisbústöðum í héruðum, sem svona illa eru stæð, og að létta undir með rekstri þeirra, sem fyrir eru.