21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

3. mál, landsreikninga 1931

Magnús Jónsson:

Ég vil fyrst víkja aðeins að ræðu hæstv. atvmrh. Það er alveg rétt, að útvarpið okkar getur ekki talizt mjög dýrt, 27 þús. kr. geta ekki talizt mjög há upphæð, og þá ekki 11 þús. kr. Ég efast heldur ekki um, að hæstv. ráðh. geri sitt til að draga úr óþörfum kostnaði við þessa stofnun, því að hann er enginn óspilunarmaður. En ég er hræddur um, að niðurskurður á liðum, sem eru til, verði alltaf pappírsgagn að mestu leyti. Eigi að vera um verulega lækkun að ræða, þarf að breytast rekstrarfyrirkomulaginu sjálfu.

Annars er það mín skoðun, að með þeirri aðstöðu, sem útvarpið hefir, ætti það að geta borið sig, og væri það einkafyrirtæki, efast ég ekki um, að það gæfi gróða, að allri aðstöðu óbreyttri. Þá yrðu ekki hafðir þrír forstjórar, einn fyrir útvarpinu, sem veit ekki sjálfur, hvað hann á að gera, einn fyrir viðtækjaverzluninni og einn fyrir viðgerðarstofunni, og svo þar að auki skrifstofustjóri. Ég er sannfærður um, að allt þetta má reka ódýrar, og það þótt stofnunin væri undir ríkiseftirliti og af henni væri krafizt alls hins sama og nú.

Á milli ráðherranna og yfirskoðunarmanna hefir annars yfirleitt verið hið bezta samkomulag, eins og sjá má af aths. okkar og svörum þeirra og úrskurðunum. Ég held, að ekki kastist í kekki um eina einustu aths. Mér skildist á svörum hæstv. forsrh. viðvíkjandi 23. aths., launagreiðslu til yfirmanns pósthússins í Rvík., að hann ekki vilja lofa neinu góðu. Hæstv. ráðh. ber því við, að hér sé um að ræða mann, sem hafi starfað svo lengi, að þetta hafi þótt sanngjarnt. En fyrir þessu er engin heimild í l. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að ef þessi regla ætti að verða algild, myndi fjöldinn allur af starfsmönnum í æðstu embættum fá þegar í upphafi fullkomin laun. Hvað ætti t. d. að segja um landlækni, biskup, menn, sem áður eru búnir að sitja lengi í embættum innan sinnar greinar? Ég vil grípa nær mér sjálfum. Ég var búinn að sitja langa lengi í embætti sem dócent við háskólann, — hví fékk ég þá ekki full prófessoralaun þegar ég var skipaður prófessor? Mín kennsla breyttist í engu, en það voru engin l. fyrir því, að mér bæru full laun þá þegar. — Annars væri æskilegt, ef fleiri væru, sem þannig væri ástatt um, að hæstv. stj. benti yfirskoðunarmönnunum á þá, því að það er erfitt verk að leita uppi, hvort þessi eða hinn hefir fengið greidd laun umfram lagaheimild. Myndi það spara mikla fyrirhöfn, ef stj. léti í té slíkar upplýsingar, af því að þetta á að koma fyrir þingið og það þá að samþ. slíkar ráðstafanir eða ekki. — Viðvíkjandi endurgreiðslunni var það alveg rétt, sem hæstv. atvmrh. sagði, og eins og ég tók fram, að það mál er í raun og veru úr sögunni, þar sem við höfum svarað, að eftir atvikum mætti við svo búið standa. Og það, að ég gerði það, var af því, að ég álít upphæðina ekki neitt aðalatriði. En af því að hæstv. forsrh. og hv. þm. Dal. vildu halda því fram, að hér hefði verið farið talsvert stíft í úrskurðinn um þessa endurgreiðslu, þá vil ég taka það fram, að ég tel þvert á móti farið mjög vægt í sakirnar. Getur hver sannfærzt um þetta með því að athuga aths. og svörin. Bifreiðakostnaðurinn hefir t. d. verið kr. 2400. En endurgreiðslan er ekki ákveðin nema tæpar 500 kr. Nú er mér ekki kunnugt um, að útvarpsstjórinn eigi að hafa nokkurn bíl til notkunar, og ég veit ekki, hvort hann ímyndar sér, að það sé í notkun útvarpsins, þegar hann fer í bifreið heiman frá sér og niður á útvarpsstöð. Það yrðu laglegir reikningar, sem ríkissjóður þyrfti að greiða, ef slíkri reglu væri fylgt um alla starfsmenn þess. Ég ætti þá t. d. að fá mér bíl þegar ég fer í tíma í háskólann. Annars er mér ekki kunnugt um, hvaða sérstöðu hann hefir, að hann skuli geta tekið bifreiðar til eigin nota og látið svo skrifa allt saman hjá útvarpinu. Ég skal játa, að slíkt gæti að vísu komið fyrir, en það ætti að vera undantekningartilfelli, og gæti maður ímyndað sér, að sú upphæð næmi aldrei meira en 100 kr., eða einhverju slíku smáræði. Ég veit, að komið hefir fyrir, að háskólinn þyrfti á bifreið að halda 2—3 sinnum á ári. Það er ósambærilegt að taka hér sem dæmi vegamálastjóra og landsímastjóra, menn, sem vinna meira og minna að sínu starfi úti um allt land. Útvarpsstjórinn er aftur á móti embættismaður í Rvík og hefir þar enga sérstöðu. Ég álít því farið vægt í sakirnar að úrskurða, að aðeins 500 kr. skuli endurgreiddar af þessum 2400 kr. — Eins og menn sjá, þá er hér líka um að ræða ferðakostnað stúlku frá Ameríku. Ég býst nú við, að álitamál geti orðið um þessa ráðstöfun. Hér er fullt upp af fólki, en samt er rokið til og sótt stúlka í aðra heimsálfu til þess að gegna þessu starfi. Svo ætlar útvarpsstjórinn að telja fólki trú um, að þetta hafi verið gert vegna þess, að sérfræðing hafi þurft til þess að tína fréttir upp úr blöðum og taka á móti útlendum skeytum! Þetta nær engri átt, og hefði slík ráðstöfun verið borin undir forsrh. áður en hún var framkvæmd, þá hefði hann sagt þvert nei, hvað sem hann segir nú. Ég ímynda mér, að ekki þurfi neitt sérstaklega miklu meiri kunnáttumann til þess að taka á móti enskum skeytum en t. d. þýzkum. Mér er kunnugt um, að maður hefir starfað að því í hjáverkum sínum að taka niður þessi þýzku skeyti, og veit ekki einu sinni, hvort hann hefir fengið nokkra borgun fyrir. En eftir áliti útvarpsstjórans ætti að þurfa til slíks starfa sérfræðing, sem dvalið hefði í Þýzkalandi svo og svo lengi.

Þá er einn liðurinn enn, og það er ferðakostnaður útvarpsstjórans. — Um hann var ekkert úrskurðað, ekki einu sinni til viðvörunar framvegis. Ég get vel ímyndað mér, að þessi ferðakostnaður hafi verið réttmætur og að útvarpsstjórinn, úr því að hann er nú einu sinni til, hafi þurft að fara í einhverjum erindagerðum stofnunarinnar. En gallinn er sá, að ekki er gerð nein grein fyrir, til hvers þessi ferð var farin, og alls engar upplýsingar um tilgang hennar. Þetta getur alveg eins hafa verið pólitískur leiðangur hv. þm. Dal. sjálfs eins og í þarfir útvarpsins. Aftur á móti fylgdi öðrum ferðakostnaðarreikningi starfsmanns útvarpsins, vélaverkfræðingsins, nákvæm sundurliðun á hinum einstöku liðum og fullkomin skýrsla um förina. Við þessu var vitanlega ekki hreyft andmælum. En maður getur alveg eins búizt við, eftir reikningi útvarpsstjórans að dæma, að hann hafi aldrei farið neitt, og er ég þó ekki að gefa það í skyn, en ég verð að efast um, að hann hafi farið í þágu útvarpsins. — Risnuféð skal ég langmest afsaka. Mér finnst það sé eini liðurinn, sem ekki beri á sér gripdeildablæ. Ég skal viðurkenna, að þegar maðurinn er nú í þessari stöðu, þá getur hann oft verið í vafa um, hvort hann eigi ekki að taka á móti erlendum gestum frá útvarpsstöðvum. Embættismaðurinn getur vel hafa haldið, að honum bæri að greiða þetta af sínu fé, í stað þess að vísa gestum til forsrh., því að honum er veitt fé til risnu. Þetta finnst mér afsakanlegt og ég hefði ekki hreyft mótmælum við því. Ég er ekki viss um, nema gott væri, að útvarpsstj. annaðist þetta að nokkru leyti. Annars sagði hæstv. ráðh., að oft væru úrskurðaðar svona endurgreiðslur. Ég verð að álíta, að slíkt sé mjög óvanalegt, og ef það er gert, þá stafar það einungis af því, að álitamál er, hvort embættismanninum hefir borið að greiða upphæðina. En það á ekki að vera álitamál, hvort embættismaður á að taka bíla þegar honum sýnist og láta stofnunina, sem hann veitir forstöðu, greiða allt saman, eða ferðast eins og honum sýnist og láta stofnunina borga brúsann. Það er engin vörn, þótt hv. þm. Dal. segi í bréfi til ráðuneytisins, að sér hafi ekki verið „boðinn neinn varnaður á“ í þessu efni. Það gætu orðið löng skipunarbréf, ef þar ætti að tína allt til, sem embættismönnunum væri bannað að gera. Yfirleitt er búizt við, að embættismenn eigi í fórum sínum það, sem kallað er sómatilfinning, og þótt ekki sé tekið fram, að þeir megi ekki gera þetta og hitt, þá taki þeir það ekki sem leyfi.

Þá svöruðu þeir báðir, hæstv. forsrh. og hv. þm. Dal., því, sem ég sagði um útvarpstækin. Lögðu þeir megináherzluna á, að þetta hefði verið nauðsynlegt. Þetta kemur ekki málinu nokkurn skapaðan hlut við. Ég er alveg sammála um, að sjálfsagt er, að sjúkrahúsin fái móttökutæki. En ég álít algerlega óhæfilegt, að forstöðumaður einnar stofnunar skuli leyfa sér að láta sitt fyrirtæki greiða það, sem því ekki kemur hið minnsta við. Og mér líkar það illa, að verið er að hælast um í blöðum, að ráðh. hafi gefið þessa stórgjöf, en svo er „gjöfin“ þannig, að hælin eiga að borga allt saman. Það er sannarlega enginn að efast um, að þarna eigi að vera viðtæki, en það var fyllilega óleyfilegt af útvarpsstjóranum að ganga inn á þessa tilhögun, þótt það væri fyrir jafngóðan vin og Jónas. Um endurgreiðsluna á þessu ræði ég ekki neitt í þessu sambandi. Um hana kom ekkert fram í svörum ráðh. og endurgreiðslan hefir því farið fram síðan, og er gott að einhver árangur hefir orðið af þessari rekistefnu.

Hv. þm. V.-Húnv., samstarfsmaður minn við yfirskoðunina, sagði hér nokkur orð um bókhaldið og var mér sammála um flest. Hv. þm. sagði, að bókhald þetta væri til stórbóta frá því, sem verið hefði. Ég skal nú ekki fara mikið út í það. Annars er ekkert undarlegt við það, þótt þetta bókhald sé til einhverra bóta. Það er sjálfsagt eins með það og annað, að það tekur einhverjum umbótum. Reikningar ríkissjóðs nema tugum þúsunda, og væri hætt við, að ekki gengi allt sem bezt, ef aldrei væru gerðar neinar umbætur á bókhaldinu. En annars er dálítið furðulegt, að úr því settir eru vísindamenn í þessari grein til að koma bókhaldinu í gott horf, þá skuli það samt ekki vera í lagi. Mér skildist hv. þm. færa eina vörn fyrir fyrirkomulagið, og hún var sú, að það gæti tekið umbótum og að þægilegt væri að bæta úr því ennþá. Þetta er vitanlega alveg satt, en eldra fyrirkomulagið var líka hægt að bæta. Misfellurnar hafa orðið vegna þess, að menn höfðu ekki full tök á bókfærslunni. En eftir situr þó þetta dæmalausa fyrirbrigði, að hægt skyldi vera að fella niður 10 þús. kr. án þess að vart yrði við það í sjóðnum. Það er sýnilegt að kerfið er ófært, eða hefir einhverjar þær smugur, sem gera það alveg ófært. Ég er viss um, að hv. þm. er mér sammála um þetta. Ég man, hve undrandi hann varð, þegar ekki var hægt að fá upplýsingar um, hve mikið ætti að vera í sjóði.

Við hv. þm. Dal. þarf ég fátt að segja. Ég hélt, að hann myndi bera hér fram veigamiklar varnir í sínu máli, en hann byrjaði nærri hvern kafla á því, að hann ætlaði ekkert um hann að segja. Mér skildist hann ekki vilja gera pólitísku hliðina á þessu máli að umtalsefni. Ég get vorkennt honum það, eins vitaópólitískur og hann er(!), ef það skyldi nú blandast einhver pólitík inn í málið! Nei þetta mál hans hefir verið pólitískt frá upphafi. Ég hefi ekki byrjað á slíku. Honum var veitt embættið einungis vegna þess, að hann var pólitískur, og þar með var pólitíkin leidd inn í málið. Hv. þm. hafði engan annan kost en þann, að hann var pólitískur. Ekki hafði hann bókhaldsþekkingu til þess að geta verið skrifstofustjóri, ekki rödd til þess að vera þulur, ekki vélaþekkingu til þess að standa fyrir vélum útvarpsins, — hann hafði ekkert nema þetta eina: að vera þrælpólitískur. Svo stendur þessi maður alveg grallaralaus yfir því, að menn skuli vera að blanda pólitík inn í þessa stöðu hans.

Hv. þm. þóttu gáfur mínar vera ærið bágbornar og að ég myndi ekki hæfur til að kenna prestaefnum landsins. Mér þykir vænt um, að hann er kröfuharður í þeirra garð, sem eiga að búa prestaefnin undir embætti sitt, en annars er mitt embætti ekki hér til umræðu. Þá sagði hann, að ég teldi menn ekki eiga að veita fyrirtækjum forstöðu, nema þeir væru færir um að vinna öll störfin við þau. Ég get borið það undir hv. þdm., hvort ég hefi nokkurn tíma talað þessi orð. Það, sem ég sagði, var, að mér fyndist mega gera þá kröfu til útvarpsstjórans, að hann gæti unnið eitthvert verk. Og svo taldi ég upp störfin; ekki til þess að fárast yfir því, að hann ynni þau ekki öll, heldur til að leita með logandi ljósi að einhverju starfi handa honum. Ég þekki það ekki, að yfirmaður yfir ekki stærri stofnun en útvarpinu eigi ekki að vinna neitt. Útvarpið er ekki nein stórstofnun, þótt hv. þm. vilji láta svo í veðri vaka. Þetta er smáfyrirtæki. (ÓTh: Þetta er rangsleitni; hann gat vel orðið dyravörður). Nei, ekki meðan hann er þm.

Hv. þm. Dal. er alltaf að tala um vanþekkingu mína í útvarpsmálum. Það er eins og hann haldi, að þetta sé hinn óttalegi leyndardómur. Ég skil ekkert í vélum útvarpsins og ekki heldur í vélum nýju landssímastöðvarinnar, en samt verður að gera þá kröfu til þm., að þeir geti myndað sér einhverja skoðun á þessum starfsgreinum og hver muni vera hinn hæfilegi rekstrarkostnaður þessara fyrirtækja. Og ef mín vanþekking er svona mikil, þá hefði hv. þm. átt að leiðrétta eitthvað hjá mér. (JónasÞ: Hv. þm. getur e. t. v. komizt á næsta námskeið hjá okkur). Hv. þm. ætti að læra á þeim sjálfur. (JónasÞ: Ég hefi umsjón með þeim. — ÓTh: Það er líklega álíka forstaða og fyrir útvarpinu).

Í þessu efni þýðir ekki að bera kostnaðarhliðina saman við útvarp í öðrum löndum. Það er algengt, að embættismenn, sem vilja fá launahækkun, vitna í þessi og þessi kostakjör, sem menn hafi annarsstaðar. Tökum t. d. ljósmæðurnar. Haldið þið, að það sé munur þar, sem þær hafa há laun, síma, bifreiðar og annað þessháttar. Nei, við verðum að taka útvarpið okkar eins og það liggur fyrir og athuga möguleikana til sparnaðar, án þess þó að valda skaða með því. (BSt: Hvernig er það með prófessorana?) Í Danmörku hafa þeir helmingi hærri laun en hér, kenna sumir hverjir eina stund á viku, hafa öll vísindaáhöld, sem þeir þurfa, og allt þessháttar. (HV: Kenna 10 mínútur á dag). Já, og hafa þó nóg að gera við sín vísindastörf. (BSt: Það eru miklir starfsmenn). Og vinna stórkostleg störf. — Þá fór hv. þm. að gera eldhúsdag, og hélt ég, að hann myndi nú tæta mig alveg í sundur, en ósköpin voru þá ekki önnur en þau, að í einni aths. okkar muni ekki vera fylgt 1. um endurskoðun, þar sem tekið er fram, að fylgja skuli til okkar endurskoðunarmanna skýrsla hinnar umboðslegu endurskoðunar. En hæstv. atvmrh. var skilningsbetri á þetta en hv. þm. Dal., því að hann tók þetta strax til sín, eins og rétt var. Þetta var því eldhúsdagur á hæstv. ráðh., sem 1. samkv. á að leggja þessa skýrslu fyrir yfirskoðunarmennina. En ég vil enn vekja athygli á því, að þessi aths. okkar hefir nú borið þann árangur, að sem óðast er verið að greiða tækin. (JónasÞ: Það var búið áður). Það er undarlegt, að hæstv. ráðh. skyldi þá ekki láta þess getið. Ég skal lesa svarið við aths. fyrir útvarpsstjórann: „Útvarpstæki til spítala og heilsuhæla eru greidd af útvarpinu eftir fyrirmælum dómsmálaráðuneytisins, en ekki færð til útgjalda, heldur talin með útistandandi skuldum“. Það er því auðséð, að tækin hafa verið greidd síðar.

Ég held það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að svara í þessu sambandi. Hv. þm. var eitthvað að tala um, að þessar aths. endurskoðunarm. LR. væru einskonar framhald af þeim ádeilum, sem birzt hefðu í Morgunblaðinu. Ég verð nú að segja, að mér þykir dálítið hart, ef yfirskoðunarmenn LR. mega ekki gera aths. út af þeim atriðum, sem eitthvað kann að hafa verið minnzt á í blöðum áður. Enda hefir aldrei verið fylgt slíkri reglu, og má í tilefni af þessu minna á þá langloku um Laugarvatnsskóla, sem dómsmrh. Framsfl. lét birta í aths. við LR. og var síðan endurtekin í Tímanum, og líklega þar á eftir sérprentuð í þúsundum eintaka og dreift út um landið.

Ég hefi aðeins 2 ræður við þessa umr. og verð því að láta ósvarað að mestu leyti því, sem kann að verða sagt af andmælendum mínum hér á eftir.