24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (4532)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Tryggvi Þórhallsson:

Hv. þm. V.-Húnv. sækir sitt mál venjulega af miklu kappi, og hefir gert það í þetta sinn. Eins og af orðum hans má ráða, þá álítur hann, að það eitt sé sanngjarnt og rétt að fresta málinu enn á ný. En öllum þingheimi er það vitanlegt, að það er nægilega búið að athuga öll aðalatriði þessa máls, og það eina atriði, sem hann vill nú fá frest til að athuga, er fyrirkomulagsatriði, sem hann hefir haft nægan tíma til að athuga áður. Ég vil því mjög eindregið taka undir þá áskorun til hæstv. forseta, að atkvgr. fari fram um málið nú, því að ég sé enga ástæðu til að hafa fundarhlé.