26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (4552)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Það kom fram afarmerkileg upplýsing í ræðu hv. 1. landsk., eftir því sem hún kemur mér fyrir sjónir í augnablikinu, að með þessu landslistafyrirkomulagi er búið að vinna á hvorki meira né minna en það, að nú þarf flokkurinn ekki nema fimm þm. í kjöri utan Reykjavíkur; öllum hinum geta þeir smellt á landskjörslista. Þetta ákvæði á þá aðeins að tryggja, að alltaf séu einhverjir frambjóðendur í kjördæmum. Þetta virðist alveg skýrt af ræðu hans.

Þá kvað hv. þm. landskjörið sýna annað en það, að landsk. þm. hefðu lítið traust. Það situr náttúrlega illa á okkur að segja, að við höfum ekki ágætt traust. En það er öðru máli að gegna um núv. landskjör, sem bundið er við ákveðnar persónur. Þá þýðir vitanlega ekki að sýna aðra en þá, sem líklegt er, að hljóti nokkurt traust. Þó hefir reynslan einhvern veginn orðið sú hjá andstöðuflokkum Framsfl., að komizt hafa fyrst og fremst að menn úr Reykjavík og þeir, sem hafa áhuga á málum Reykjavíkur. (JónÞ: En Framsókn?). Hún hefir miklu fremur haft þá menn, sem höfðu aðalfylgi úti um sveitir; er ég skýlaust dæmi um það, að Framsókn gengur ekki framhjá bændum landsins í vali á landskjörslista. En ég veit ekki til, að í seinni tíð hafi nokkur bóndi komið af lista hinna flokkanna.

Nú vil ég taka eitt dæmi til skýringar um landslista. Ég tek það þar, sem ég þekki bezt til, í Austur-Húnavatnssýslu. Þar hefir verið í framboði þjóðkunnur maður. Vera má, að margir Húnvetningar vildu gefa honum atkv. sín í þeirri trú, að hann næði kosningu. Þessi maður hefir fallið fyrir hæstv. forseta okkar. Hvað verður þá um atkvæðin, sem Sjálfstfl. hefir greitt Þórarni Jónssyni? Þau eru greidd einhverjum manni í Reykjavík, sem e. t. v. engum Húnvetning dytti í hug að kjósa. Þetta dæmi á ekki aðeins við um Húnavatnssýslu, heldur getur líkt staðið á um allt land. Þetta horfir því mjög mikið öðruvísi við en með núv. landskjör.