19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (4692)

134. mál, jarðræktalög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég verð enn að láta í ljós undrun mína á því kappi, sem lagt er á að kippa burt tilhlutunarvaldi ríkisstj. gagnvart Búnaðarfélaginu. Undrun mín er sprottin af því, að mér virðist þeir, sem að standa, ættu miklu fremur að leggja kapp á hið gagnstæða.

Eins og kunnugt er, hefir verið mjög gott samkomulag á milli þings og Búnaðarfélagsins allar götur frá því 1923, svo að hvorugur aðili hefir kvartað. Þingið hefir sýnt félaginu mikið traust með því að veita fé til landbúnaðarins og fela félaginu framkvæmdir í búnaðarmálum. Mætti segja, að Alþingi hefði afsalað sér miklu valdi í þessum málum og lagt það í hendur Búnaðarfélagsins. Bændur myndu sízt fagna því, að snurða hlypi á þetta góða samkomulag, og óvíst, hvort hægt væri að bæta úr því aftur. En ef þessi lög yrðu samþ., þá getur vel farið svo, að sambandið yrði ekki eins traust og áður. Ennfremur vil ég benda á, eins og hv. þm. Str. hefir áður bent á, að það er óheppilegt að flytja þetta mál á þingi, þar sem búnaðarþingið stóð ekki saman um þessar kröfur, og hér á Alþingi verða skoðanirnar skiptar, svo að það er ekki ástæða til að stofna þessu máli í hættu. Á búnaðarþinginu voru nokkur atkvæði á móti þessu, og þegar sakir standa svo, að í báðum stofnununum, Alþingi og Búnaðarfélaginu, eru skiptar skoðanir, þá er ekki rétt að stofna samstarfinu, sem hefir verið ágætt, í voða út af þessu.

Andmæli mín gegn þessu frv. byggjast eingöngu á umhyggju fyrir landbúnaðinum. Ég held, að samstarfinu sé með þessu hætta búin, og það er grundvöllurinn fyrir þeim andmælum, sem ég hefi hreyft og mun hreyfa.

Ég álít, að það nái ekki nokkurri átt að vísa ekki málinu til nefndar, ef það verður ekki þegar fellt við þessa umr. Ég geri það því að till. minni, að því verði vísað til landbn.