01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (4785)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég ætla að vera fáorður að þessu sinni. Ég er þakklátur hv. n. fyrir að skila nú áliti sínu og fyrir hvernig það er, þó að ég verði hinsvegar að játa, að það hefði vakið meiri ánægju hjá mér, ef nál. hefði komið fram fyrr, svo málið hefði getað gengið í gegnum báðar d. á þessu þingi.

Ég skal taka það fram, að það, sem lagt er til í brtt. hv. n., að auka við land það, sem eignarnámsheimildin á að ná til, og láta það jafnframt koma til skipta bæði milli Garðhverfinga og Hafnfirðinga, munu flestir Hafnfirðingar gera sig ánægða með. Það mun aldrei hafa verið meining Hafnfirðinga að fara í kapp við Garðhverfinga sjálfa um þetta land, en þeim fannst þeir hafa meiri rétt á að fá það heldur en einstakir utanaðkomandi menn. Ef Garðhverfingar hefðu þegar orðið landsins aðnjótandi, hefðu Hafnfirðingar aldrei sagt neitt. Enda kom það fram á fundi, sem bæjarstj. Hafnarfj. hélt með hreppsnefnd Garðahrepps, að báðir aðilar mundu vel við una, ef frv. fengist afgr. með þeim breyt., sem n. leggur til.

Ég held því, að þetta mál sé nú komið á heppilegan rekspöl, þó seint sé. Vonast ég til, að fyrir þessar aðgerðir fái málið fljótari og betri afgreiðslu á næsta þingi, ef það vinnst ekki tími til að afgr. það endanlega nú.