18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (4971)

102. mál, fimmtardóm

Pétur Magnússon:

Ég hefi ekki ætlað mér að eyða löngum tíma í umr. um þetta mál. Það hefir verið þrautrætt á síðustu þrem þingum í röð, og ræður þær, sem hv. 5. landsk. hefir flutt hér á þessu þingi um málið, má lesa svo að segja óbreyttar í þingtíðundunum frá 1931 og 1932. Ég segi þetta ekki í ádeiluskyni; ég veit, að það er erfitt að halda langar ræðum um sama málið þing eftir þing án þess að þær verði að mestu endurtekningar. En ég stend nú upp fyrst og fremst af því, að ég taldi mér skylt að bera af hæstarétti þær sakir, sem hv. 5. landsk. hefir borið á hann, bæði í grg. frv. og nú í síðari ræðu sinni. Samt ætla ég mér ekki að fara út í almennu sakirnar, því að hv. flm. hefir ekki gert neinar frambærilegar tilraunir til þess að rökstyðja þær. En í grg. frv. er dómurum hæstaréttar borið það á brýn, að 1930 hafi þeir gefið Alþ. algerlega rangar upplýsingar um atriði viðvíkjandi réttinum. Til þess að sanna þetta er tekin upp í grg. ein setning, sem stendur í álitsskjali dómaranna, og af því svo dregin sú ályktun, að dómararnir hafi gefið þarna rangar upplýsingar. Í álitsskjali dómaranna stendur: „Samskonar ákvæði mun vera lögmælt í flestum nýlegum l. um úrslitadómsstigið utan einræðisstjórnarlanda, og útnefning hæstaréttardómara annarsstaðar a. m. k. fara fram eftir till. hæstaréttar. Í 43. gr. dönsku hæstaréttarl. er samskonar ákvæði og í íslenzku hæstaréttarl. Í Finnlandi skipar ríkisforsetinn hæstaréttardómara skv. till. réttarins. Og sama á sér stað í Svíþjóð, samkv. gamalli venju“.

Þannig er það tilgreint, hvernig fyrirkomulagið sé í nokkrum löndum. Í Danmörku eru samskonar ákvæði og hér um það, að dómurinn skipi sjálfur dómara þegar sæti losnar. Og það mun svo vera, að í flestum löndum utan einræðislandanna hafi æðsti dómstóllinn íhlutunarrétt um dómaraval. Hv. 5. landsk. skilur það ef til vill ekki, að íhlutunarréttur æðstu dómstólanna, t. d. í Finnlandi og Svíþjóð, er miklu víðtækari en íhlutunarréttur íslenzku og dönsku dómstólanna. Hér hefir hæstiréttur ekki annað vald en að segja um umsækjanda, hvort hann sé hæfur eða ekki hæfur til starfans, en í hinum löndunum getur rétturinn bent á menn, og það þættu sennilega alstaðar töluverð tíðindi, ef gengið væri móti vilja réttarins sjálfs um mannaval.

Viðvíkjandi dómaraprófinu má geta þess, að ákvæði um það hefir verið í l. um æðsta dómstól Danmerkur um langan tíma, og víst aldrei komið fyrir, að dómaraefni hafi verið fellt á prófinu. Hér er því ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort hefir hv. 5. landsk. algerlega misskilið þetta atriði, eða þá að hann hefir ekki sýnt nægilega mikla ráðvendni, þegar hann var að greina frá ummælum hæstaréttar um þetta.

Þá vil ég aðeins minnast á 4. gr. frv., því að í henni er eina nýmælið frá því, sem hv. þm. hefir áður lagt til í þessu frv. Það leynir sér ekki og hefir komið skýrt fram í ræðum hv. flm., að hann álítur, að sú tilhögun sé heppilegust, að sá pólitíski flokkur, sem á hverjum tíma hefir meirihlutavald á þingi, ráði því og hver úrslit verða á hverju máli, sem fer til æðsta dómstólsins. Ég efast ekki um, að þetta byggist á „lífsskoðun“ hans, og það verður maður að játa, að það er talsvert „þjóðleg“ hugsun, sem liggur hér til grundvallar. Til forna var það svo, eins og hv. flm. benti á, að sá, sem sterkastur var, hafði sitt mál fram fyrir dómstólunum. Völd og frændafylgi réðu mestu um úrslit mála fyrir hinum fornu íslenzku dómstólum. Hv. flm. vitnaði í þetta sem fyrirmyndartilhögun og sem sanna ímynd þess lögfrjálsa fyrirkomulags. Og ég verð að segja, að það eimir eftir af þessari skoðun ennþá hjá fleirum en þessum hv. þm. Ég hefi rekið mig á ýmsa gamaldags menn, sem lifa í þeirri trú, að um úrslit dómsmála ætti málstaðurinn að hafa lítið að segja, málfærslan öll væri sem tafi á milli málfærslumannanna, þar sem lögkrókar og „sniðugheit“ væru sterkustu leikirnir og réðu úrslitum. En sem betur fer er þessi fáráðlingsháttur orðinn mjög sjaldgæfur. Allir sæmilega hugsandi menn eru á einu máli um það, að málstaður eigi að ráða úrslitum dómsmálanna, en ekki aðstaða aðilanna í þjóðfélaginu. Það leynir sér því ekki og þýðir ekki fyrir hv. flm. að draga dul á það, að það er hann, sem er afturhaldsmaður í þessu efni. Hann er að gera tilraun til að koma þessum málum í það horf, sem undantekningarlaust allar þjóðir hafa horfið frá, nema þessar tvær þjóðir, sem hann nefndi, og er þó mjög ólíku saman að jafna þar og hér, enda gildir þar allt annað kosningafyrirkomulag en hér er stungið upp á.

Svo er annað í þessu sambandi, sem mér finnst, að hv. flm. rugli alltaf saman. Það er pólitískur dómstóll og að í dómstóli sitji dómarar, sem hafa pólitíska skoðun. Nú á tímum er í raun og veru ómögulegt að gera þá kröfu til fullorðinna og hugsandi manna, að þeir hafi enga pólitíska skoðun. Það eru þá a. m. k. ekki aðrir menn en þeir, sem eru ekki til neinnar fyrirmyndar og ekki mikill fengur í að fá þá inn í æðsta dómstól landsins. Nei, pólitískir verða dómstólarnir þá fyrst, er pólitískrar skoðunar dómaranna gætir í dómum þeirra. En meðan dómararnir dæma eftir lögunum og fara eftir því, sem þeirra samvizka og sannfæring býður, þá er ekki hægt að áfellast þá, þótt þeir hafi pólitíska skoðun.

Ég get tekið það fram, að ég fyrir mitt leyti óska þess, að inn í æðsta dómstólinn komist menn, sem hafa aðra pólitíska skoðun en hv. flm. telur núv. hæstaréttardómara hafa. Þá væri rétturinn ekki eins útsettur fyrir þá óréttmætu kritík, sem hann hefir orðið fyrir, eins og hann er nú, því að það er tiltölulega auðvelt að gera dómstólana tortryggilega, þegar hamrað er á því, og það máske með réttu, að allir dómararnir séu sömu pólitískrar skoðunar, og þegar sí og æ er hamrað á því í útbreiddu stórblaði og reynt að útbreiða það á svívirðilegasta hátt, að dómararnir hafi gert sig seka í vísvitandi ranglæti. Hitt nær aftur engri átt, að dómararnir séu eingöngu valdir með tilliti til pólitískrar skoðunar. Þar verður að líta á margt fleira.

Það er undarlegt að heyra það endurtekið dag eftir dag, að síðasta skipun, sem gerð var á einu dómarasætinu í hæstarétti, sé pólitísk, því að það embætti var veitt manni, sem ég veit ekki betur en nokkurnveginn óskipt skoðun sé um, að sé einn af lærðustu, ef ekki allra lærðasti lögfræðingur landsins. Það er a. m. k. óhætt að segja, að það var ekki nema einn lögfræðingur, sem komið gat til mála að keppa við Einar Arnórsson um þessa stöðu, og hv. 5. landsk. skýrði frá því, að sá maður hefði verið ófáanlegur til að taka sæti í réttinum. Síðan kemur þessi látlausa gagnrýni út af því, að þessum manni hafi verið veitt embættið, vegna þess að hann hafi áður tekið þátt í pólitískum störfum. Hv. 5. landsk. veit það jafnvel og ég, að hann hefir aldrei verið æsingamaður, en jafnan haft orð á sér fyrir að líta óhlutdrægt á menn og málefni; það þekkir hv. 5. landsk. vel.

Að endingu vil ég svo taka það fram, að ég hélt, að hv. 5. landsk. vissi það af eigin reynslu, að það er ekki einhlítt að fá dómara með sömu pólitískri skoðun og valdhafarnir hafa til þess að fá sínum málum framgengt. Hann ætti að vita það af reynslunni, að góður málstaður hefir meira að segja en hitt, að dómararnir séu skoðanabræður manns í stjórnmálum.