11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Bernh. Stefánsson):

Ég er hv. 1. þm. N. M. ekki sammála um, að afhending hafi ekki farið fram. Það er einmitt upplýst, að afhending hefir farið fram. En á hinu er talinn nokkur vafi, hvort sú afhending hefir verið svo formleg sem æskilegt hefði verið. (HStef: Hverskonar afhending er það ?). Ég kalla það afhendingu, þótt hún sé e. t. v. ekki formleg, þegar form. n., sem gengst fyrir byggingu hælisins, lýsir yfir því í heyranda hljóði, að hælið sé hér með afhent ríkinu, og landstj. skipar síðan n. til að stjórna því. Það kann að vanta á, að þetta sé skjalfest og hælið ekki talið með eignum ríkissjóðs. Nú fannst mér hv. þm. aðallega tala um, að enginn aðili væri til þess að afhenda hælið. Ef svo er, þá þarf ekki annað til þess að fullnægja þessari brtt., en að á næsta LR. verði hælið talið með eignum ríkissjóðs. Ef enginn mótmælir því, þá er það sjálfsagt fulltryggt og gilt, að þessi bygging er eign ríkissjóðs; mér er ómögulegt að sjá annað. Fari það svo, að enginn þykist hafa vald til þess að afhenda hælið, eins og hv. þm. Dal. er hræddur um, þá er þetta ábyggilega alveg nægilegt. Það er víst gömul regla, að það, „sem enginn annar á, það á kóngurinn“, — og kóngurinn er hér sama og ríkið.