03.03.1933
Efri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

30. mál, útflutningur hrossa

Pétur Magnússon:

Ég get ekki neitað því, að mér finnst setning þessara bráðabirgðalaga orka mjög tvímælis. Á síðasta þingi var deilt allmjög um það, hvort leyfa skyldi útflutning hrossa á tímabilinu frá 15. okt. til 1. marz, nema undir sérstökum kringumstæðum, eða banna hann með öllu. Og ég held, að það hafi verið flestir, er litu þannig á, að útflutningur hrossa á þessu tímabili væri óviturlegur og gæti orðið hættulegur fyrir hrossamarkaðinn. Þessari skoðun virtist því meiri hl. þingsins fylgjandi, eins og lögin frá 23. júní 1932 bera með sér. En þrátt fyrir þetta gefur stj. út bráðabirgðalög þau, sem hér liggja fyrir, nokkrum vikum seinna. Mér virðist því rétt, að stj. gefi skýrslu um það, hvaða nauður rak hana til þess að setja bráðabirgðalög þessi. Geti hún ekki fært sönnur á, að þau hafi verið nauðsynleg fyrir þjóðfélagið í heild, virðist mér, að setning þeirra sé vart verjandi. Vænti ég því, að hæstv. ráðh. gefi upplýsingar um það, að hve miklu leyti lögin hafa komið að notum, og jafnframt, hvaða upplýsingar stj. hafi fengið um sölumöguleika hesta erlendis, svo að hún fann ástæðu til þess að ganga í þessu efni gegn vilja þingsins.