04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

32. mál, ullarmat

Frsm. (Lárus Helgason):

Um þetta frv. er ekki margt að segja fyrir n. hönd. Eins og sést á nál., leggur n. til að samþ. það óbreytt. Að vísu hefir einn nm., hv. þm. Borgf., skrifað undir nál. með fyrirvara, sem ég geri ráð fyrir, að hann geri sjálfur grein fyrir.

Eins og hv. þdm. hafa tekið eftir, þá er hér um tiltölulega litla breyt. að ræða á ullarmatslögunum. Aðalbreyt. er þessi, sem felst í 2. gr. frv., að einn af 4 yfirullarmatsmönnum verði formaður þeirra. Það virðist ofureðlilegt, að til þessa ráðs sé gripið, þar sem margsinnis hefir komið í ljós, að ullarmatið er ekki alltaf framkvæmt eins og æskilegt væri, svo að full þörf er að samræma það betur. Virðist þetta helzta ráðið, sem er fyrir hendi, að skipa einn mann til að hafa aðaleftirlit. Hér er ekki út í stórt lagt. Yfirmatsmenn hafa áður haft 400 kr. árslaun, en hér er lagt til að bæta 400 kr. við þennan eina mann, m. a. af því, að búizt er við, að hann hafi meiri ferðalög.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu fyrir þessu máli. Hæstv. stj. hefir í aths. sínum við frv. skýrt svo greinilega frá tilganginum með því.