20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jón Baldvinsson:

Ég vil aðeins leiðrétta misskilning, sem ég heyri, að er ríkjandi í þessu máli hjá hv. frsm., viðvíkjandi iðnaðarsmjörlíkinu, sem brauðgerðarhús og kexkökugerðir nota. (JónÞ: Fer það ekki allt í magann?). Jú, að vísu, en frá því að vera hráefni og til þess að það er komið í magann er það meðhöndlað á ýmsan hátt, sem ég býst við, að hv. þm. sé ófróður um. Þar er því dálítið á milli. Ef það yrði t. d. ákveðið, að allt smjörlíki skuli blandað 4—6% af smjöri, þá hefir það enga þýðingu að því leyti, sem tilganginn með frv. þessu snertir, því brauðgerðarhúsin blanda þetta iðnaðarsmjörlíki sjálf með sjálfsagt 30—50% af smjöri, hvert á sinn hátt og eftir reglum, er þau fylgja. Þessi skipun um blöndun útlends iðnaðarsmjörlíkis mundi verða til þess eins, að ekki mundi verða fært að flytja það inn. Vera má, að á því sé heldur ekki nein þörf. En möguleiki til að flytja inn útlent smjörlíki verkar þó sem hemill á verðhæð innlends smjörlíkis og er frá því sjónarmiði nauðsynlegt. Að vísu hefir hæstv. ráðh. lýst því nú, að varlega mundi með þessa heimild farið af sinni hálfu. En slík yfirlýsing getur þó ekki talizt næg trygging. Það kemur ráðh. eftir ráðh. Og síðari tíma ráðh. geta vitnað í 1., en talið sig óbundna af þeim umr., sem hér hafa farið fram nú. Ég álít, að það sé eingöngu misskilningur að vera að heimta þessa blöndun á smjörlíki því, er brauðgerðarhúsin nota, því þau nota miklu meira smjör til blöndunar því en það, sem heimtað er í þessu frv. Og ef það smjörlíki, sem inn er flutt í þeim tilgangi, er blandað erlendu smjöri, þá mundi það aðeins verða til að draga úr notkun innlends smjörs, og er þó tilgangur lagasmíðis þessa víst fyrst og fremst sá, að auka markað fyrir innlenda smjörframleiðslu. — Að blanda það erlent smjörlíki, sem inn er flutt, íslenzku smjöri, mundi verða erfitt í framkvæmd, og eftirlit með því nær óframkvæmanlegt. Enn má geta þess, að nokkur hætta er á, að sumir bakarar mundu láta sitja við hina lögskipuðu ríkisblöndun. Gæti það orðið til þess, að 1. verkuðu þveröfugt við tilgang sinn.

Ég vil því vona, að hv. deild taki þetta til athugunar og komist við það að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að samþ. brtt. mína. Hún ein tryggir það, að ekki verður lokað fyrir innflutning smjörlíkis. Hefi ég sýnt fram á, að það er nauðsynlegt til að halda verði hæfilega niðri á þessari vöru, en að óþarfi er að loka fyrir innflutninginn vegna blöndunarinnar.