25.04.1933
Efri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller:

Ég skal ekki tefja hv. d. lengi. Vil þó sérstaklega út af ummælum hæstv. ráðh. víkja að skemmtanaskattinum. Ég vil vekja athygli á því, að ég efast um, að ríkissjóður fái auknar tekjur af því, þó að skemmtanaskatturinn verði hækkaður um 100%. Það gæti farið svo, að tekjurnar rýrnuðu í stað þess að vaxa. Ég hefi dálítið kynnt mér þetta í tilefni af afstöðu minni til þjóðleikhússins.

Hv. 5. landsk. sagði, að kvikmyndahúsrekstur væri sá mesti stórgróði, sem hér væri um að ræða. Ég veit, að hv. þm. hefir sagt þetta út í bláinn, eða a. m. k. ekki rannsakað það neitt, hvernig þessi rekstur hefir gengið þessi síðustu ár. Það er að vísu svo, að þessi rekstur heitir að bera sig nokkurn veginn, en það er tæpast hægt að segja meira. Ég hefi athugað þetta út af því, að talað hefir verið um þann möguleika að ljúka byggingunni þannig, að hægt verði að reka þar kvikmyndahús, sem svo gæti unnið fyrir sér og jafnvel aflað sér ágóða, sem gæti gengið til þess að halda áfram byggingunni. Það var í ráði að fara fram á það við Alþingi og hæstv. stj. að veita ríkisábyrgð fyrir láni til þessa fyrirtækis. Og ég geri ráð fyrir því, að þess verði farið á leit. En hvað sem menn segja um þessa byggingu, þá er enginn ágreiningur um það, að henni verði að ljúka og henni verði lokið samkv. þeim tilgangi, sem byrjað var á henni. Það dettur engum í hug að hætta við að byggja leikhúsið; það er aðeins spurningin, hvenær það verður framkvæmt, en ekki hvort það verði framkvæmt.

Mér virðist það hæpið af hæstv. stj. að halda því svo fast fram, að þessi tekjustofn verði lagður undir ríkissjóð, vegna þess að hann er ekki svo stór, að það muni öllu fyrir ríkissjóð, þó að hann missti hann. En þar sem verið er að tala um að taka tekjur frá ríkissjóði og leggja til annara hluta, þá er það að snúa við málefninu, því að sannleikurinn er sá, að þessi tekjustofn hefir verið tekinn frá öðrum hlutum og lagður undir ríkissjóð. Þessar tekjur voru ætlaðar þessari stofnun þegar lögin voru sett, og þær voru alls ekki teknar frá ríkissjóði. Þótt stj. hafi ætlað sér að hækka skattinn til þess að fá auknar tekjur af honum með því móti, er þó hugsanlegt, að þjóðleikhússjóðurinn fengi einmitt að halda sínum tekjum, en ríkissjóður fengi hinsvegar í sinn hlut þann aukningarmismun, sem kemur fram við það, að skatturinn er hækkaður. Ríkissjóður þarf því ekki að verja hreiður sitt af svo miklum áhuga og hæstv. ráðh. gerði, því að ekkert er þessu til fyrirstöðu, að tekjuaukningin verði áskilin til handa ríkissjóði. Ég býst þó ekki við því, að því fáist framgengt, að skatturinn renni aftur til þjóðleikhússins, og ég er svo lítillátur, að ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir hans góðu ummæli um það, að svo muni verða gengið frá þjóðleikhúsinu, að það liggi ekki undir skemmdum vegna veðra. Lætur nærri, að sjóðinn vanti ekki nema 30 þús. kr. til þess að hægt sé að ganga svo frá þjóðleikhúsinu, eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði, og ég hefi heldur aldrei efast um, að stj. mundi sjá sér fært að leggja í þennan kostnað, hvort sem skatturinn rennur áfram í ríkissjóð eða ekki, og ég þarf auðvitað ekki að taka það fram frekar en ég hefi gert, að mér þætti æskilegast, ef fært þætti að skatturinn rynni algerlega til þjóðleikhússins aftur.

Enda þótt það kunni að þykja illa fallið, að ég mæli á móti því, að 3. liður frv. verði felldur niður, vegna afstöðu minnar til 2. liðs, sem ég hefi lýst, verð ég þó engu að síður að gera þetta. Hér er um miklu meira fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð en samkv. 2. lið, og hagur ríkissjóðs skerðist meira og tilfinnanlegar við niðurfelling liðsins en þótt hann væri sviptur skemmtanaskattinum. Það er og vitanlegt, að framkvæmdirnar samkv. þessum lið, að því leyti, sem húsbyggingar í kaupstöðum snertir, verða aðallega hér í Rvík, því að hér lendir aðalupphæðin. Hinsvegar er síður en svo, að horfur séu á, að húsnæðisskortur sé hér yfirvofandi, því að til þess eru þvert á móti meiri líkur, að bærinn yfirbyggist og húsnæði verði hér yfirfljótandi í náinni framtíð. Það verður því að telja óheppilegt í meira lagi að vera að ausa fé til bygginga hér í bænum. Ef safna á fé með sköttum og tollum til að byggja fyrir, er og farið út fyrir tilgang l. um verkamannabústaði, því að svo var ráð fyrir gert upprunalega, að sjóðir, sem stofnaðir yrðu samkv. þeim 1., störfuðu fyrir lánsfé. Framlag ríkissjóðs átti að renna til þess að borga vaxtamismun. Frá þessari grundvallarreglu er horfið, ef fara á að skattleggja þjóðina í því augnamiði að byggja íbúðarhús handa einstökum flokkum þjóðfélagsins. Er mikill munur á því og að létta undir með þeim, sem erfiða aðstöðu eiga í þessum efnum, með því að veita þeim heppilegri lánskjör en þeir ella hefðu getað fengið. Sama er að segja um byggingar- og landnámssjóð að því er þetta snertir. Hinsvegar vita allir, að erfitt er að fá slíkt lánsfé, sem ætlazt er til, að verði aðalstarfsfé þessara sjóða, og mundi því starfsemi sjóðanna af þeim ástæðum stöðvast að meira eða minna leyti á næstu tímum, nema þessi nýja stefna sigri, sem hér hefir brytt á, að skattleggja landsmenn til þess að kosta byggingar handa sérstökum flokkum þjóðfélagsins.

Mér finnst það hálf leiðinlegt fyrir hv. 2. landsk. að vera alltaf að minna sína fyrri samherja á hrossakaupin, sem hann gerði við þá út af þessu máli 1931. Hrossakaup eru þess eðlis, að þau eru ekki sérstaklega til þess fallin, að þeim sé hampað, eða að alltaf sé verið að klifa á því, að standa þurfi við þessa gömlu samninga. (JónasJ: Á að svíkja hrossakaup?). Það er hvorugum aðilja þessara samninga til sóma að hafa látið hinn aðilann kaupa sig til samninganna. Samkv. áminningum hv. 2. landsk., sem alltaf er að minna framsóknarmenn á þennan gamla samning, keypti hann Framsfl. til þess að koma á tóbakseinkasölunni, en að hinu leytinu á Framsfl. að hafa keypt hv. 2. landsk. til þessa sama. Áður hafa þessir aðilar haldið því fram, að þeir hafi gert þetta af hreinum „princip“-ástæðum, en það kemur nú upp úr kafinu, að þetta var flokkslegt hagsmunamál og ekkert annað.