21.11.1933
Efri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (1002)

44. mál, húsnæði fyrir Tónlistarskóla Íslands í þjóðleikhúsinu

Flm. (Magnús Jónsson):

Fyrir nokkrum dögum var samþ. hér í d. þáltill. um að fela stj. að rannsaka, hvort ekki væri hægt að koma 2 söfnum fyrir í þjóðleikhúsinu, og var meiningin, að húsnæðið yrði aðeins notað í þessum tilgangi á meðan þjóðleikhúsið væri enn ekki tekið til þeirra notkunar, sem það aðallega er ætlað til. Veit ég ekki, hvað mikið húsnæði kann að vera laust í þjóðleikhúsinu þangað til, en ég gæti ímyndað mér, að það væri meira en fyrir þessi söfn. Það sést utan á húsinu, að það hefir mikið húsrými innan veggja. —

Að því leyti er þessi till. annars eðlis en till., sem samþ. var hér um daginn, að hér er um stofnun að ræða, sem mundi eiga rétt til að hafa samastað í þjóðleikhúsinu, jafnvel eftir að leikhúsið tekur til starfa.

Tónlistarskólinn var stofnaður fyrir 3 árum og bætti þá úr mikilli þörf, sem ég skal ekki fara frekar út í, en aðeins benda á það, hve þarflegt það er, að menn geti lært hér meðferð ýmiskonar hljóðfæra, svo að við þurfum ekki að sækja tónlistarmenn til útlanda í tugatali.

Eftir að þjóðleikhúsið er tekið í notkun, þarf það á stórri og fullkominni hljómsveit að halda, og ef ekki á að sækja þá krafta til útlanda, verður tónlistarskólinn að ala þá upp, svo að það fer vel á, að honum verði einmitt gefinn samastaður í þjóðleikhúsinu, þar sem starf skólans verður svo nátengt því. Með þessari till. er þó ekki farið fram á meira en aðeins að fela stj. að rannsaka möguleikana til að koma þessu við, jafnhliða því, sem stj. lætur rannsaka, hvort fært sé að útbúa geymslupláss fyrir söfnin í þjóðleikhúsinu. Ég vænti þess, að hv. d. taki till. vel engu síður en hinni till., ekki sízt þar sem hér er um stofnun að ræða, sem stendur í sérstöku sambandi við hið væntanlega þjóðleikhús sjálft, eins og ég hefi nú bent á.