17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (1012)

36. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki halda langa ræðu nú að þessu sinni. Aðalandstæðingur frv. á sæti í landbn., og getum við talazt við þar. Ég vil árétta það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að l. frá því í fyrra hefðu komizt í gegn mótstöðulítið. Hitt er rétt, að frv. var upphaflega borið fram í annari mynd og fékk þá sterkan mótbyr. En hann hvarf, þegar frv. var breytt í það horf, sem það síðar var endanlega samþ. í. Hv. þm. gat um tvö bréf, sem n. höfðu borizt, annað frá mjólkurframleiðanda, hitt frá mjólkursala, og las upp kafla úr öðru þeirra. þeir höfðu snúið sér til Mjólkurfél. Rvíkur með beiðni um að gerilsneyða mjólk þeirra, en það hefði neitað. Við höfum nú aðeins heyrt annan málspartinn, og sjaldan er nema hálfsögð sagan, þegar einn segir frá. Það má vel vera, að þurfi að setja í l. ákvæði um þetta. En ég vil benda á það, að þessir mjólkurframleiðendur geta gengið í mjólkurfélögin hver á sínu framleiðslusvæði, og er ekkert vandara um það en öðrum framleiðendum á félagssvæðinu.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um það, að þessar brtt. kæmu eiginlega ekki heilbrigðiseftirliti við. Þetta er ekki rétt. Það er ekki svo lítilsvert fyrir heilbrigðishlið þessa máls, að ákveðið sé, hvar gerilsneyðingin skuli fara fram. Það má segja, að flóuð mjólk sé gerilsneydd, en sé svo farið óvarlega með hana, getur hún fyllzt af bakteríum og óhreinindum. Það er ekki heldur þýðingarlaust fyrir heilbrigðishlið málsins, að settar séu strangar reglur um eftirlit með því, hvað séu fullkomnar gerilsneyðingarstöðvar. Þótt það sé tekið fram í frv., að gerilsneyðingin megi aðeins fara fram í viðurkenndum mjólkurbúum, má alltaf hugsa sér, að upp risi nýjar gerilsneyðingarstöðvar, og þarf þá að hafa eftirlit með því, að þær séu nógu fullkomnar. Annars skal ég ekki ræða meira um þetta mál hér, þar sem kostur gefst á því í n. að ræða öll helztu ágreiningsatriði þess.