17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (1079)

25. mál, talstöðin í Papey

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Fyrir nokkrum árum var komið upp talstöð í Papey eystra. Þessi stöð var reist með tilliti til þess, að hægt væri að ná veðurskeytum frá eynni, sem liggur vel til veðurathugana. Það dróst nokkuð lengi að koma stöðinni upp, og meðan á því stóð var sett upp veðurathugunarstöð á Vattarnesi. Þrátt fyrir það telur veðurstofan hér mjög nauðsynlegt að ná veðurskeytum frá Papey gegnum talstöðina, en það hefir ennþá ekki verið hægt sökum fjárskorts veðurstofunnar. Stöðin hefir þar af leiðandi verið svo lítið notuð, að landssíminn hefir nú í hyggju að leggja hana niður. þó að þessi stöð væri upphaflega sett þarna vegna veðurskeyta, þá má einnig hafa önnur not af henni. Papey liggur í skipaleið og leið fiskibáta af Austfjörðum. Bátar alla leið norðan úr Neskaupstað sækja suður undir Stokksnes á vetrarvertíðinni, en hún er frá því í febrúar þar til í apríl. Þetta er löng leið og torsótt, og eru góðir bátar af þeirri gerð, sem algengust er þar, um 12 klst. hvora leið í sæmilegu veðri. Á þessum tíma árs eiga bátarnir oft við illviðri og myrkur að etja, og kemur oft fyrir, að þeir verði að nauðlenda. Þá er það ósjaldan, einkum í norðaustanveðrum, að bátar leita lægis undir Papey. Stundum liggja þeir þarna marga daga veðurtepptir, og áður en talstöðin kom gátu þeir ekkert látið af sér vita.

Það eru því almenn tilmæli sjómannanna eystra, er sækja á þessar slóðir, að talstöðin í Papey verði ekki lögð niður, og að þeirra tilhlutun flyt ég þessa þáltill. Landssímastjóri hefir boðið bóndanum í Papey stöðina með því móti, að hann kostaði rekstur hennar sjálfur, en um það hafa ekki náðst samningar enn, og er óvíst, að þeir komist í kring. En ég teldi það illa farið, ef stöðin gæti ekki starfað á næstu vertíð. Það eru dæmi þess, að bátar hafa lagt frá Papey út í hálfófæran sjó, sökum þess, að engum boðum var hægt að koma til lands, og veit ég um tvö slys, sem af því hafa orðið. Ég geri ráð fyrir því, að síðar mætti reyna að koma á einhverju samkomulagi, svo að stöðin þyrfti ekki framvegis að vera kostuð að öllu leyti af landssímanum. Það er hugsanlegt, að veðurstofan tæki þátt í kostnaðinum og að Slysavarnafélag Íslands fengist til að leggja eitthvert fé fram til hennar. En ég hefi enga von um, að þetta samkomulag takist fyrir næstu vetrarvertíð, og þess vegna er það nauðsynlegt, að landssíminn reki stöðina til bráðabirgða.

Ég vil aðeins bæta því við, að auk þeirra ástæðna, sem ég hefi bent á hér að framan, er Papeyjarheimilið mjög afskekkt. Eyjan liggur úti í reginhafi og oft engar samgöngur við land um langan tíma. En ef stöðin er, er miklu auðveldara að fá aðstoð úr landi, ef eitthvað amar að. En aðalatriðið í þessu máli er það, að stöðin getur orðið sjómönnum á þessum slóðum til ómetanlegs gagns.

Að endingu vænti ég þess, að hv. d. sjái þá miklu nauðsyn, sem hér liggur fyrir hendi, og geti fallizt á till.