04.12.1933
Neðri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (1095)

52. mál, varðskip landsins

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Seyðf. vildi halda því fram, að ákvæðin í brtt. minni fælust í frv. sjálfu. En þetta er misskilningur. A. m. k. eru miklar líkur til þess, að starfsmenn á varðskipunum mundu segja, að í frv. væri einungis átt við þau föstu laun, sem starfsmenn strandferðaskipanna væru ráðnir fyrir. Þeir mundu því mótmæla því, að slíkir samningar, sem gerðir væru eftir á, væru gildandi fyrir sig. Þetta fyrirkomulag um strandferðaskipin er alveg réttmætt og eðlilegt. Það sést bezt á því, að þetta hefir orðið að samkomulagi á milli starfsmanna á strandferðaskipunum og forstjóra þeirra. Af þessum ástæðum vil ég heldur ýta undir, að slíkt skipulag verði látið haldast heldur en að draga úr því. Með því að setja ákvæði í frv. um þessi lækkuðu laun, þegar skipin eru uppi, er dálítið meiri trygging fengin fyrir því, að þetta fyrirkomulag haldist áfram hjá strandferðaskipunum. Þess vegna er það, að ég hefi komið með þessa brtt., að ég vil hafa fyrirkomulagið í þessu efni eins og það er. Því að ef varðskipin gætu andmælt þessari lækkun, þá mundi síður verða hægt að fá tilsvarandi lækkun á launum starfsmanna strandferðaskipanna. Það væri heldur ekki réttmætt að lækka laun þeirra, ef starfsmenn varðskipanna hefðu með því móti hærri laun.

Ég get vel skilið aðstöðu hv. þm. Seyðf., út frá þeirri forsendu, að hann vill yfirleitt hækka laun, að hann er ósamþykkur því, að fyrirkomulag það, sem tekið hefir verið upp um lækkun launa við strandferðaskipin, sé látið gilda yfirleitt um öll skipin, strandferðaskipin og varðskipin, þegar þau liggja uppi. En mér finnst ekki síður rétt að styðja þann sparnað í þessu efni, sem ekki er ósanngjarnari en það, að starfsmenn strandferðaskipanna hafa gengið inn á samninga um þessa kauplækkun af fúsum vilja. Ég held fast við það, að ástæða sé til að samþ. þessa till. mína, en mun annars greiða atkv. á móti frv.