29.11.1933
Neðri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (1102)

25. mál, talstöðin í Papey

Eysteinn Jónsson:

Mér finnst kenna nokkurs misskilnings í umr. um þetta mál, og er hann aðallega í því fólginn, að gert er ráð fyrir, að þessi till. fari fram á eitthvað, sem kunni að vera ómögulegt. En svo er ekki. Það er gert ráð fyrir í till., að stöðin verði rekin undir öllum kringumstæðum, þó ekki takist samningar við veðurstofuna um rekstur hennar. Er það fyrst og fremst með afnot sjómanna fyrir augum, og eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið, verður rekin þarna veðurathugunarstöð í framtíðinni. ég vil benda á það, að sjútvn. fékk nýlega tilmæli um það frá skipstjórafélögunum í Rvík og Hafnarfirði, að sjá til þess, að fullkomin veðurathugunarstöð verði sett upp í Papey. Það er vitanlegt, að með tímanum, og vonandi mjög bráðlega, kemur þarna myndarleg veðurathugunarstöð. Þess vegna legg ég mikla áherzlu á, að rekstur talstöðvarinnar falli ekki niður undir neinum kringumstæðum, þó ekki náist samningar við veðurstofuna eða bóndann í Papey að svo stöddu, því auðvitað nást slíkir samningar á sínum tíma.